
Það var óskað eftir því að ég myndi setja fleiri hugmyndir að gönguferðum hingað inn svo hér kemur ein létt og skemmtileg ganga þar sem lagt er af stað frá Hafnarfirðinum.
Búrfell og Búrfellsgjá í Hafnarfirði gönguleið!

Við hjónin vorum að byrja á Vetrarferðamennskunámskeiði hjá Fjallhalla Adventures og var fyrsti hittingur við Búrfellsgjá í Hafnarfirði. Þangað hafði hvorugt okkar komið áður sem er algjör synd því þetta er fallegur staður í jaðri höfuðborgarinnar. Því ákvað ég að setja inn færslu hér fyrir ykkur sem ekki hafið komið þangað og mæli sannarlega með því að það líði ekki á löngu þar til þið látið verða af því.

Það var ískaldur sunnudagsmorgun þegar við lögðum í hann með kakó á brúsa þegar sólin var ekki komin upp! Það er greinilegt að þetta er vinsælt útivistarsvæði enda undurfallegt þarna allt í kring. Þetta er í raun bara aðeins norðar en Helgafell í Hafnarfirði og getur maður einmitt horft þangað yfir á leiðinni.

Gangan sjálf er auðveld, greiðfær og vel merktir stígar þegar á áfangastað er komið. Það er margt áhugavert að skoða á leiðinni og ber þar helst að nefna Vatnsgjá, Gjárétt og síðan þegar komið er upp á Búrfellið sjálft er hægt að ganga hringinn í kringum gíginn og njóta útsýnis á alla kanta.

Gangan er á bilinu 5-6 km í heildina eftir því hvaða leið þú velur en hækkun er sáralítil. Búrfellið sjálft er 179 m á hæð svo þessi gönguleið er tilvalin fyrir fjölskyldufólk.

Þetta var nokkurs konar upphitunarganga á námskeiðinu og kynning á þeim búnaði sem við komum til með að nota fram á vor. Næst munum við læra á ísaxarbremsu, það verður kennt hvernig á að nota línu og jökulbrodda, við munum prufa gönguskíði, klífa á jökul ásamt fleiru skemmtilegu.

Það hefur sýnt sig að göngur á fjöll geta verið varasamar að vetri til og mörg sorgleg slys orðið á fjöllum undanfarin ár. Það er því mikilvægt að nota réttan öryggisbúnað og vita hvernig best er að bera sig að í slíkum aðstæðum. Ég elska að ganga úti á veturna líka og því langaði mig að læra betur á þennan búnað og notkun hans því það er alltaf betra að hafa vaðið fyrir neðan sig.

Hér finnið þið kort að bílaplaninu þar sem gott er að leggja og hefja gönguna: Búrfell upp af Hafnarfirði „car park“ er staðsetningin á bílaplaninu.

Það var -11°C frost þennan daginn og því var gott að hafa með sér heitt kakó á brúsa. Ég verð samt að viðurkenna að tásurnar mínar voru lengi að jafna sig eftir þennan dag og ég þarf klárlega að finna mér betri skófatnað fyrir næstu svona köldu göngu. Tók síðan eftir því þegar heim var komið að elsku Scarpa skórnir mínir sem hafa farið með mér ansi marga kílómetra síðustu tvö ár þurfa að fara að leggja sólana á hilluna!