
Ég er búin að vera svo spennt að setja þessa færslu hingað inn fyrir ykkur að það hálfa væri hellingur! Lukka vinkona mín kom með eggjasalat og olíupenslað hrökkbrauð í sameiginlegan „bröns“ hjá okkur vinunum fyrir jólin og ég fékk þetta algjörlega á heilann, þetta var svo hrikalega gott hjá henni!

Það var svo mikið að gera hjá mér fyrir jólin að ég náði ekki að prófa þetta fyrr en loks milli jóla og nýárs. Þá heyrði ég í Lukku og fékk leyndarmálinu uppljóstrað….svona með dassi og sirka upplýsingum…. og ákvað að prófa. Ég fór síðan með þetta í kaffi til vina okkar og þar voru allir að missa sig yfir þessu líka svo ég get lofað ykkur því að þetta er uppskrift sem er með RISA „snjóboltaáhrif“ og allir sem hana munu smakka, munu vilja gera hana sjálfir og leyfa öðrum að smakka, hahahaha!

Eggjasalat og olíupenslað hrökkbrauð
Eggjasalat með beikoni uppskrift
- 6 harðsoðin egg
- 8 beikonsneiðar (stökkar og saxaðar)
- ½ rauðlaukur (smátt saxaður)
- 130 g majónes
- Aromat
- Skerið niður eggin og blandið saman við beikonið og rauðlaukinn.
- Hrærið majónesinu saman við og kryddið til eftir smekk.
Olíupenslað hrökkbrauð uppskrift
- 1 pakki Finn Crisp Original hrökkbrauð
- 120 g ólífuolía
- 20 g soya sósa
- 1 tsk. hvítlauksduft
- 1 tsk. rósmarín
- 1 tsk. oregano
- ½ tsk. pipar
- Hitið ofninn í 200°C.
- Blandið öllum kryddum og soya sósu saman við matarolíuna. Mér finnst best að setja skál ofan á vigt og hella olíu beint í hana og vigta þannig ásamt soya sósunni. Hræra síðan öllum kryddunum saman við.
- Penslið hrökkbrauðið á báðum hliðum og raðið því á bökunarpappír í ofnskúffu. Gott er að hræra alltaf reglulega í olíunni á milli því soya sósan á það til að setjast annars á botninn.
- Ristið í 4-5 mínútur eða þar til kexið dökknar aðeins og olían fer að „bubbla“.
- Leyfið kexinu að kólna aftur niður áður en þið berið það fram með eggjasalatinu.

Nei þið vitið ekki hvað þetta er gott og ef ykkur langar að prófa eitthvað geggjað þá er það sko þetta!

Namm!!! Ég get varla skrifað þessa færslu nema hugsa um að nú langi mig aftur í svona salat og kex, hahaha!
