Þessi aspasstykki gerði ég um síðustu helgi og hef ekki getað hætt að hugsa um þau síðan!
Ég hef nú oftar en mig langar að vita keypt mér dásemdar aspasstykki í Bakarameistaranum og því ákvað ég að gera smá tilraun með slík hér heima. Hugsaði fyrst að skera rauf í stórt baguette og síðan skera það í bita þegar búið væri að hita (eflaust alveg gott þannig líka) en svo sá ég þessi smábrauð í frystinum í Krónunni og þá var ekki aftur snúið.
Ég held reyndar að allt með Skinkumyrju sé gott, get svo svarið það, skinkuhorn, brauð, hrökkbrauð eða núna aspasstykki!
Þetta væri hægt að útbúa kvöldinu fyrir veislu eða afmæli og síðan bara hita þegar gestirnir eru væntanlegir, skal lofa ykkur að þið eigið eftir að slá í gegn ef þið bjóðið upp á þetta!
Mini aspasstykki uppskrift
- 2 x skinkumyrja
- 1 x skinkubréf
- 1 niðursoðin dós af aspas
- 3 msk majones
- 15 stk smábrauð (baguette)
- Rifinn ostur
- Paprikuduft
- Afþýðið smábrauðin, skerið vasa í hvert og fjarlægið aðeins innan úr brauðinu til að koma vel af fyllingu fyrir.
- Skerið skinkuna í litla bita og hellið safanum af aspasinum.
- Blandið því næst skinku, aspas, majonesi og skinkumyrju saman í skál og hrærið vel saman.
- Setjið blöndu í hvert smábrauð (um það bil 2 góðar matskeiðar í hvert brauð).
- Stráið rifnum osti yfir og kryddið með paprikudufti.
- Bakið í um 15 mínútur við 190°C eða þar til brauðið fer að brúnast og osturinn að gyllast.
Jomm nomm!