Skvísupartý



Elsta dóttir mín hún Harpa Karin varð 15 ára á dögunum. Hátíðarhöld stóðu eðlilega yfir heila helgi þar sem hún byrjaði á því að bjóða öllum skautavinkonum sínum í afmælisveislu. Þær fengu allar að búa til sína eigin heimabökuðu pizzu og síðan sá Harpa um allt annað, bakaði regnbogaköku og græjaði allt frá A-Ö og mamman var bara í fríi fyrir utan aðstoð í pizzagerðinni.

Næsta dag komu síðan bestu vinkonur hennar úr Varmárskóla í „sleepover“ afmæli og þá fékk mamman aðeins að skipta sér af. Ég elska að dekka upp veisluborð og fá gesti, er yfirleitt kjánalega spennt yfir slíku og vill hafa nægan tíma til að dúllast í því fyrir utan að bjóða upp á góðar veitingar. Ég útbjó háa köku líkt og fyrir Kökublað Morgunblaðsins um daginn (sem ég á eftir að fjalla um reyndar og þá fáið þið betri útfærlsu á samsetningunni). Ég er aðeins búin að vera að æfa mig með hærri kökur og grófara útlit en venjulega og hefur það verið skemmtilegt þar sem það er alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt.

Ég grillaði hamborgara handa stelpunum, jebb ég var úti í frostinu með höfuðljós að græja þetta enda er grillið notað allan ársins hring á þessu heimili! Með borgurunum voru síðan franskar og ýmislegt meðlæti, hægt er að sjá útfærsluna hér.

Fyrir utan hamborgarana vorum við með alls kyns nammi í skálum, bollakökur, snakk og síðan grænmeti með ídýfu, það hreinilega spændust upp nokkrar pakkninar af gulrótum, tómötum, gúrkum, paprikum og blómkáli og þetta var vinsælla en sælgætið get ég sagt ykkur!

Ég fékk svo fallegan ostadisk í útskriftargjöf í vor sem er á þremur hæðum og var skemmtilegt að raða grænmetinu á hann og hafa úrval af ídýfum með.

Það eru þessa dagana til regnbogagulrætur í búðunum og það var skemmtilegt að skera þær niður, fjólubláar, appelsínugular og gular í bland.

Litlar bollakökur standa alltaf fyrir sínu.

Skulum ekki gleyma Rice Krispies kökunum sem eru skylduréttur í öllum afmælum!

Það er síðan eitthvað við þetta hauskúpunammi sem dætur mínar halda ekki vatni yfir og þær vilja alltaf að ég kaupi á nammidögum!

Auðvitað fengu dúllurnar síðan blys á kökuna seint um kvöldið og vöktu þær lengi frameftir við mismikla lukku annarra heimilismeðlima, hahaha…..en þegar maður er 15 ára þá er bara svo gaman að vera til!

Morguninn eftir útbjuggu þær síðan bröns með eggjum, beikoni, pönnukökum og tilheyrandi enda einar heima í vetrarfríi og gátu haft þetta eins og þeim hentaði 🙂

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun