
Síðan ég man eftir mér hefur mér þótt Óska kaffijógúrtið nokkrum númerum of gott! Jógúrtið með hnetu- og karamellubragðinu fylgir þar fast á eftir. Ég elska þessi jógúrt, helst með Cheeriosi eða CocoaPuffsi út í!

Inga vinkona gerir þessar múffur reglulega og sendi hún mér uppskriftina í lok sumars. Þegar ég sá það var kaffijógúrt í henni var hún ekki lengi að selja mér hana sökum þess og ég skellti strax í kökur. Síðan fór þessi uppskrift á smá hold frá því að komast hingað inn þar sem unnið var að öðrum skemmtilegum uppskriftum fyrir Gott í matinn. En hér er hún sko aldeilis komin loksins fyrir ykkur að njóta, namminamm!

Stelpurnar mínar vilja helst svona einfaldar kökur, ekkert krem né stúss heldur bara klassískar möffinskökur. Það er auðvitað smá fyndið þar sem venjulega flæðir hér út úr eldhúsinu krem af öllum sortum.

Hulda Sif er orðin sérlegur aðstoðarmaður í myndatökunum og finnst mér ekkert krúttlegra heldur en þessar litlu hendur (já og táslur sem laumuðu sér með á þessa mynd).

Möffins með kaffijógúrti
- 220 g smjör við stofuhita
- 390 g sykur
- 3 egg
- 2 x Óskajógúrt með kaffibragði
- 470 g hveiti
- ½ tsk. salt
- 1 tsk. matarsódi
- 2 tsk. vanilludropar
- 100 g saxað suðusúkkulaði
- Hitið ofninn 175°C.
- Þeytið saman smjör og sykur þar til létt og ljóst.
- Bætið eggjunum saman við einu í einu og skafið niður á milli.
- Setjið þá þurrefnin, vanilludropana og jógúrtið saman við og blandið vel.
- Vefjið að lokum súkkulaðinu í blönduna með sleif, skiptið niður í form og bakið í um 20 mínútur.
- Uppskriftin gefur um 24 stk. af múffum.

Megið endilega fylgja Gotterí á INSTAGRAM