
Það þarf ekkert að efast um góða útkomu þegar Oreo og Milka kemur saman í ostaköku, því get ég lofað!
Þessi kaka var dásamlega bragðgóð og fersku blómin gáfu henni tignarlegt og fallegt útlit. Nú getur því hver sem er útbúið ostaköku eins og meistari og slegið í gegn.

Kakan samanstendur af Oreo botni, vanillu ostaköku með Milka Oreo Sandwich súkkulaði og síðan toppuð með mjúkum súkkulaðihjúp.

Það fær enginn staðist þessa dásemd!

Ostakaka frá himnum
Botn
- 90 g smjör
- 20 stk. Oreokex
- Bræðið smjörið og myljið kexið í matvinnsluvél/blandara.
- Hrærið smjörinu og kexmylsnunni saman þar til vel blandað.
- Klæðið botninn á springformi (um 18 cm í þvermál) með bökunarpappír og spreyið það allt að innan með matarolíuspreyi.
- Hellið Oreoblöndunni í botninn, þrýstið henni jafnt yfir botninn og aðeins upp á kantana, setjið í kæli á meðan ostakakan er útbúin.
Ostakaka
- 900 g Philadelphia rjómaostur við stofuhita
- 260 g flórsykur
- 4 stk. gelatínblöð (og 70 ml vatn)
- Fræ úr einni vanillustöng
- 200 g Milka Oreo Sandwich súkkulaði
- 300 ml rjómi
- Leggið gelatínblöðin í bleyti í kalt vatn í nokkrar mínútur. Hitið á meðan 70 ml af vatni og vindið gelatínblöðin upp úr kalda vatninu, eitt í einu og hrærið saman við sjóðandi vatnið þar til þau leysast alveg upp.
- Hellið gelatínblöndunni í skál til þess að hún nái stofuhita á meðan annað er útbúið.
- Stífþeytið 300 ml af rjóma og leggið til hliðar.
- Saxið Milka Oreo sandwich súkkulaðið niður og geymið.
- Þeytið rjómaostinn þar til hann verður rjómakenndur og bætið þá flórsykrinum saman við í nokkrum skömmtum, bætið einnig fræjum úr vanillustönginni saman við.
- Næst fer gelatínblandan saman við í mjórri bunu (við stofuhita) og þar á eftir má vefja rjómanum varlega saman við allt.
- Að lokum fer saxaða Milka Oreo súkkulaðið í blönduna og það má vefja því varlega inn í hana og síðan hella allri blöndunni ofan á Oreobotninn í springforminu.
- Gott er að kæla kökuna á þessu stigi í að minnsta kosti 4 klst í ísskáp eða yfir nótt áður en súkkulaðihjúpurinn er settur ofan á.
Súkkulaðihjúpur
- 100 g smátt saxað suðusúkkulaði
- 60 ml rjómi
- Hitið rjómann að suðu og hellið yfir saxað suðusúkkulaði í lítilli skál.
- Pískið saman þar til súkkulaðið er uppleyst, leyfið hitanum aðeins að rjúka úr og hellið blöndunni þá yfir kalda og stífa ostakökuna.
- Geymið í kæli í að minnsta kosti klukkustund áður en springformið er losað frá kökunni og hún skreytt með ferskum blómum.

Namm!

Milka Oreo Sandwich súkkulaðið er nýja uppáhaldið mitt! Ég elska Oreokex og ætla ekkert að segja ykkur hvað ég kaupi marga pakka á viku inn á þetta heimili. Sumir vilja þetta klassíska en yngri kynslóðin vill það í hvítum súkkulaðihjúp og sú yngsta borðar bara kremið á milli, hahaha!
Það eru lítil heil oreokex í hverjum bita á þessu súkkulaði svo það er mjög auðvelt að klára heila plötu án þess að taka eftir því!

Megið endilega fylgja Gotterí líka á INSTAGRAM