Risotto alla Roby



Risotto baby

Risotto, risotto, risotto er eitthvað sem ég hef miklað fyrir mér að gera og aldrei prófað áður! Það var sko sannarlega ástæðulaus ótti því þetta er ofureinfalt í gerð og drottinn minn hvað ég þarf að prófa frekari útfærslur af þessu hér á blogginu því þetta þurfa allir að kunna.

Ég var svo heppin að Roby hennar Lillýar vinkonu er ítalskur og bauðst til að sýna mér réttu handtökin við risottogerð eftir að ég reyndi að yfirheyra Lillý með greinagóðar leiðbeiningar fyrir slíkt, hahaha!

Því heitir þetta Risotto alla Roby en þannig er það sagt á ítölsku!

Ítalskt risotto með pylsu

Ég rölti því yfir til þeirra í hádeginu í dag og skráði hjá mér allt sem fór fram yfir pottunum og komst að ýmsu áhugaverðu varðandi risottogerð, risottogrjón, krydd, tegundir, soð og fleira skemmtilegt og nú er hér komin dásamleg, ekta ítölsk risotto uppskrift fyrir ykkur að njóta!

Risotto frá Ítalíu

Risotto uppskrift

Fyrir 4 manns

  • 320 g arborio hrísgrjón
  • ½ smátt saxaður laukur
  • 150 g Salsiccia ítalskar grillpylsur
  • 1 líter vatn
  • 1 ½ teningur grænmetis- eða nautakraftur
  • 50 g smjör
  • 50 g parmesan ostur
  • Saffran krydd (duft) af hnífsoddi
  • Salt og pipar
  • Ólífuolía til steikingar
  1. Byrjið á því að sjóða saman vatn og kraft og halda í þeim potti suðunni allan tímann.
  2. Steikið laukinn upp úr ólífuolíu við meðalháan hita þar til hann mýkist aðeins.
  3. Skerið þá pylsurnar niður eða rífið þær niður með fingrunum í litla bita og bætið í pottinn með lauknum og steikið áfram, kryddið til með pipar.
  4. Hellið hrísgrjónunum nú saman við og leyfið þeim að steikjast aðeins með lauknum og pylsunum.
  5. Þá má hella um helming soðsins yfir grjónin og leyfið þeim að drekka það í sig án þess þó að þau þorni upp í pottinum. Bætið alltaf einni og einni ausu af soði við eftir þörfum til þess að grjónin haldi áfram að sjóða þar til þau verða al dente og setjið einnig saffran saman við á þessum tímapunkti. Mögulega þarf ekki að nota allt soðið svo smakkið grjónin til hvað það varðar.
  6. Þegar grjónin eru orðin al dente (eftir um 20 mínútur) þá má taka pottinn af hellunni og hræra smjörinu og parmesan ostinum saman við og bera síðan fram með enn meiri parmesanosti sé þess óskað.
Ítalskt risotto og Muga rauðvín

Ég hefði alltaf hugsað hvítvín með risotto en svo kom það á daginn að með þessari ítölsku útfærslu af risotto með pylsum væri alltaf drukkið rauðvín svo auðvitað gerðum við það!

Risotto uppskrift með saffran og pylsu

Pylsurnar sem Roby notaði eru frá Tariello og fást til dæmis í Krónunni. Saffran kaupa þau Lillý og Roby frá Ítalíu en það fæst hins vegar víða í matvöruverslunum. Arborio grjón fást einnig í öllum helstu stórmörkuðum svo nú er engin afsökun fyrir því að prófa ekki að gera risotto!

Góða skemmtun í risottogerð!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun