Udon núðlur frá Asíu



⌑ Samstarf ⌑
Núðlur uppskrift, udon núðlur

Ohhhhh…… ég elska asískan mat….. já og ég elska líka Asíu og vona ég geti ferðast þangað fljótt aftur! En á meðan það er ekki í boði má sannarlega færa sér asíska rétti heim í stofu! Hér kemur uppskrift úr bókinni minni Saumaklúbbnum og þessa hafa ansi margir verið að prófa undanfarið svo ég hugsaði með mér að ég yrði að skella henni hingað inn fyrir ykkur svo allir fengju að njóta! Ég mun birta örfáar uppskriftir úr bókinni þetta árið en bókin geymir hins vegar yfir 140 óbirtar uppskriftir og verða þær flestar geymdar áfram aðeins þar en það er gaman að leyfa ykkur að fá smá sýnishorn.

Núðlur með udon núðlum, nautakjöti, soyasósu og hoi sin sósu

Þegar við vorum í reisu um Asíu fyrirt tveimur árum síðan fékk ég mér oftar en ekki steikt hrísgrjón í ananas með rækjum, pad thai núðlur eða annars konar asíska rétti. Hér eru hins vegar á ferðinni ofureinfaldar núðlur með nautakjöti, brokkoli og Hoi sin sósu. Mér finnst best að elda bita af nautalund/nautakjöti og skera það síðan í þunnar sneiðar og bæta út í rétt í lokin. Oft nota ég afgang af nautalund til þess að gera þennan rétt svo það má alveg viljandi kaupa aðeins meira kjöt þegar þið eldið slíka til að eiga í þennan rétt daginn eftir.

Asískar núðlur með hoi sin sósu

Udon núðlur frá Asíu uppskrift

Fyrir um 5-6 manns

  • 300 g nautalund/nautakjöt
  • 450 g Udon núðlur
  • 1 brokkolihaus
  • 2 msk. vatn
  • 1 blaðlaukur
  • 2 hvítlauksrif
  • 2 cm ferskt engifer
  • 2 pokar Hoisin Wok sósa frá Blue Dragon (í pokum)
  • 1 msk. púðursykur
  • Ólífuolía til steikingar
  • Soyasósa, salt og pipar
  • Sesamfræ og vorlaukur til skrauts
  1. Eldið nautakjötið og leyfið því að hvílast á meðan annað er útbúið.
  2. Sjóðið núðlur samkvæmt leiðbeiningum að pakka, setjið í sigti og látið kalt vatn renna á þær.
  3. Skerið brokkoli í litla bita, steikið upp úr vel af olíu, saltið, piprið og skvettið smá soyasósu á það og síðan 2 msk. af vatni og leyfið því að gufa upp (þá mýkist það svo vel en þessu má samt sleppa ef þið viljið hafa það stökkara).
  4. Skerið blaðlaukinn niður og rífið hvítlauk og engifer, bætið á pönnuna ásamt smá meiri olíu, saltið og piprið eftir smekk.
  5. Nú má skera niður kjötið og bæta því á pönnuna ásamt núðlunum og hella Hoisin sósunni yfir ásamt púðursykri og smá meiri soyasósu og blanda vel.
  6. Berið fram með sesamfræjum og vorlauk.
Udon núðlur og hoi sin sósa

Ég er handviss um að þið eigið eftir að elska þennan rétt jafn mikið og við fjölskyldan!

Núðlur með nautakjöti, soyasósu og hoi sin sósu

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun