
Það eru sléttar tvær vikur í Bolludaginn og ekki seinna að vænna en byrja að gefa ykkur ljúffengar hugmyndir að bollum! Hér kemur ein undursamleg með Nusica súkkulaðismjöri, rjóma með söxuðu súkkulaði, ljósum mjólkursúkkulaðihjúp og heslihnetum, namm!

Ég er nú þegar búin að útbúa nokkrar mismunandi bollur til að deila með ykkur og eftir að gera enn fleiri. Það er svo gaman að leika sér með fyllingar og vatnsdeigsbollur eru mínar uppáhalds svo ég held mig við þær að mestu í bollugerð!

Vatnsdeigsbollur með súkkulaðismjöri uppskrift
Vatnsdeigsbollur uppskrift
15-18 stykki
- 180 g smjör
- 360 ml vatn
- 200 g hveiti
- 1 tsk. lyftiduft
- ¼ tsk. salt
- 3-4 egg (160 g)
- Hitið ofninn í 180°C.
- Hrærið saman hveiti, lyftidufti og salti í skál og geymið.
- Hitið saman vatn og smjör í potti þar til smjörið er bráðið og blandan vel heit og takið þá af hellunni.
- Hellið hveitiblöndunni saman við smjörblönduna og hrærið/vefjið saman við með sleif þar til allir kekkir eru horfnir og blandan losnar auðveldlega frá köntum pottsins.
- Flytjið blönduna yfir í hrærivélarskálina og hrærið á lægsta hraða með K-inu og leyfið hitanum þannig að rjúka aðeins úr blöndunni.
- Pískið eggin saman í skál og setjið þau saman við í litlum skömmtum og skafið niður á milli. Best er að vigta blönduna því egg eru misstór og nota aðeins 160 g henni til þess að deigið verði ekki of þunnt.
- Setjið bökunarpappír á ofnplötur og hver bolla má vera um 2 matskeiðar af deigi (ein vel kúpt matskeið).
- Bakið í 27-30 mínútur, bollurnar eiga að vera orðnar vel gylltar og botninn líka, ekki opna þó ofninn fyrr en í fyrsta lagi eftir 25 mínútur til að kíkja undir eina. Helstu mistök sem fólk gerir er að baka bollurnar ekki nógu lengi og þá falla þær.
Fylling
- 1 krukka súkkulaði Nusica (400 g)
- 600 ml þeyttur rjómi
- 120 g saxað Milka Milk súkkulaði
- Smyrjið vænu lagi af súkkulaðismjöri á hverja bollu.
- Vefjið söxuðu súkkulaði næst saman við rjómann, fyllið bollurnar og útbúið súkkulaðihjúpinn og skrautið.
Súkkulaðihjúpur og skraut
- 300 g brætt Milka Milk súkkulaði
- 100 g saxaðar heslihnetur
- Smyrjið bræddu súkkulaði á hverja bollu og leyfið því aðeins að taka sig áður en þið stráið heslihnetunum yfir.

Súkkulaðismjör er gott á vöfflur, pönnukökur, út á ís, ofan á brauð og himneskt er það á vatnsdeigsbollur!

Ég veit ekki með ykkur en ég ætla að útbúa þessar aftur fyrir Bolludaginn!
