
Það hefur verið mikið í tísku undanfarið að gera stafa- eða númerakökur úr hinum ýmsu uppskriftum. Tinna vinkona var einmitt ein af þeim fyrstu sem útbjó tölustafi úr marengs í fyrra og hef ég séð marga leika það eftir henni síðan. Almennt eru þessar „number/letter cakes“ úr tveimur þunnum botnum, með kremi á milli og ofan á sem er síðan skreytt með mismunandi hætti.

Ég ákvað að prófa að skera brownie köku út sem staf, setja á hana rjómaostakrem og skreyta í stíl við litaþemað í afmæli dóttur minnar. Ég gerði uppskrift sem er vel þétt í sér og lítið af kökumylsnu losnar úr þegar hún er skorin til. Það er þó best að hafa botninn vel kaldan þegar stafurinn er skorinn út því þá eru líka enn minni líkur á að kökumylsna stríði ykkur. Þessi kaka er bara á einni hæð og því einfaldara að gera hana en margar aðar og dásamleg var hún á bragðið!

H fyrir Harpa Karin. Ég útbjó marengstoppa og málaði síðan makkarónur úr Stórkaup með rose gold dufti frá Odense. Þið getið séð hvernig ég gerði þessa köku í Highlights á INSTAGRAM ásamt fleiru sem tengist afmælinu. Kökuskiltið „Sweet 16“ er frá Hlutprent og er dökkblátt á litinn í stíl við bleika, gold og bláa þemað sem var í veislunni.
Browniestafur
Browniekaka
- 280 g smjör
- 300 g suðusúkkulaði
- 400 g sykur
- 5 egg
- 130 g hveiti
- 60 g bökunarkakó
- ½ tsk. salt
- 150 g hvítir súkkulaðidropar
- Bræðið saman smjör og suðusúkkulaði í vatnsbaði þar til bráðið og vel blandað saman, leggið til hliðar og leyfið hitanum að rjúka úr í nokkrar mínútur.
- Þeytið saman sykur og egg þar til létt og ljóst og hellið þá súkkulaðiblöndunni saman við í mjórri bunu og blandið varlega saman.
- Sigtið hveiti, bökunarkakó og salt yfir skálina og vefjið varlega saman við með sleif.
- Að lokum má vefja súkkulaðidropunum saman við deigið.
- Spreyið bökunarskúffu með matarolíuspreyi og íklæðið bökunarpappír.
- Hellið deiginu í skúffuna, sléttið vel og vakið við 180°C í um 25 mínútur eða þar til prjónn kemur hreinn út.
- Mikilvægt er að kæla kökuna alveg áður en henni er lyft upp úr skúffunni og stafur skorinn út.
- Best er að teikna/prenta staf sem fyllir eins og hægt er út í skúffuna, klippa hann út og festa með tannstönglum og notað síðan beittan hníf til að skera. Ef kakan er ekki köld þegar hún er skorin til eru meiri líkur á því að kökumylsna losni úr henni. Því er gott að setja kökuna inn í ísskáp eða út (ef veður er kalt) í svolítinn tíma áður en hún er skorin.
Rjómaostakrem
- 80 g smjör við stofuhita
- 250 g rjómaostur við stofuhita
- ½ tsk. salt
- 2 tsk. vanillusykur
- 1 tsk. vanilludropar
- 800 g flórsykur
- Þeytið saman smjör og rjómaost þar til létt.
- Bætið salti, vanillusykri og vanilludropum saman við blönduna.
- Bætið flórsykrinum saman við í nokkrum skömmtum og skafið vel niður á milli.
- Gott er að nota hringlaga sprautustút sem er um 1,5 cm í þvermál til þess að sprauta „doppurnar“ á.
- Skreytið að vild með sælgæti, marengstoppum, ferskum blómum eða hverju sem er.

Megið endilega smella hér og fylgja Gotterí á INSTAGRAM