
OMG!!! Þetta er eitthvað sem allir verða að prófa, hvort sem það á að búa til úr því jólatré, slöngu, blóm eða bara stakar fylltar brauðbollur, namm!

Ég var að skoða jólahugmyndir fyrir „dinner rolls“ á netinu og rakst á skemmtilegar hugmyndir þar sem búið var að raða bollum upp á þennan máta. Ég ákvað því að ég skyldi prófa eitthvað nýtt með uppáhalds brauðbolludeigið mitt og ákvað að fylla það með pestó og osti og sjá hvernig tækist til. Úr varð þetta dásamlega pestó jólatré sem smakkaðist undursamlega og öll fjölskyldan var sjúk í þetta!

Brauðbollujólatré með pestó og ostafyllingu
Brauðbollujólatré uppskrift
- 150 g smjör
- 430 ml nýmjólk
- 2 pk þurrger (2x 11,8 g)
- 110 g sykur
- 820 g hveiti
- 1 tsk. salt
Fylling og toppur
- 1 dós mozzarellaperlur
- 1 krukka Sacla Wild Garlic pestó
- 1 pískað egg
- 70 g smjör
- 1 hvítlauksrif
- ½ tsk. hvítlauksduft
- ¼ tsk. pipar
- Oregano
- Rósmarín
- Gróft salt
- Rifinn parmesanostur (ef vill)
- Bolludeig: Bræðið smjörið í potti og hellið mjólkinni saman við. Hitið þar til blandan velgist, takið af hellunni og hrærið gerinu út í blönduna, leyfið gerinu að liggja í pottinum á meðan annað er undirbúið.
- Setjið sykur, hveiti og salt í hrærivélarskálina og blandið saman með króknum.
- Hellið mjólkurblöndunni rólega saman við á meðan þið hnoðið deigið með króknum þar til það myndar kúlu.
- Takið kúluna upp úr, hnoðið aðeins í höndunum og setjið hana síðan í skál sem búið er að pensla með matarolíu og snúið henni einu sinni í skálinni til að deigkúlan hjúpist öll með olíu.
- Plastið skálina og leyfið deiginu að hefast í 45-60 mínútur.
- Hitið ofninn í 220°C og skiptið deiginu niður í 30 hluta.
- Fylling: Takið hvern hluta af deigi, fletjið það aðeins út í köntunum með fingrunum en haldið þykktinni í miðjunni, leggjið það í lófann, setjið um ½ teskeið af pestó í miðjuna og eina mozzarellaperlu. Pakkið pestó og osti síðan varlega inn í deigið og klemmið það saman á samskeytunum. Leggið hverja bollu síðan niður þannig að sárið vísi niður á ofnplötuna og slétta hliðin upp.
- Raðið þeim eins og jólatré á bökunarpappír á bökunarplötu og leyfið þeim að hefast aftur í um 15-30 mínútur undir röku viskastykki. Ég nýtti bökunarplötuna alveg til hliðanna og náði því nokkuð stóru jólatré en að sjálfsögðu má gera aðeins minna og nýta þá afgangs deig í stakar bollur sem bakaðar eru til hliðar á plötunni.
- Penslið með pískuðu eggi og bakið í um 12-15 mínútur eða þar til bollurnar verða vel gylltar.
- Toppur: Bræðið á meðan smjörið, rífið hvítlaukinn útí og setjið hvítlauksduft, pipar, oregano og rósmarín saman við.
- Þegar bollujólatréð kemur úr ofninum má pensla kryddsmjörinu yfir allt og leyfa brauðinu að drekka í sig smjörið. Að lokum má síðan strá smá grófu salti yfir allt saman og einnig parmesanosti ef vill.
- Gott er að hafa pizzasósu til hliðar fyrir þá sem vilja dýfa bollunum í slíkt en það er hins vegar ekki nauðsynlegt, bollurnar eru dásamlegar einar og sér.

Það var skemmtilegt að prófa nýja útfærslu af þessum dásamlegu brauðbollum sem allir hér á heimilinu elska. Að pensla smjöri og kryddum yfir í lokin setti síðan punktinn yfir I-ið!
