
Við fórum vinkonurnar á dögunum í dásamlega afslöppunarferð austur fyrir fjall. Við vorum allar búnar að vinna yfir okkur og vantaði svo að komast aðeins burt og hafa það kósý. Upphaflega áttum við bókaða haustferð norður á Akureyri sem frestaðist og frestaðist alltaf útaf svolitlu! Síðan leið tíminn, vetur var kominn í veðrið svo við ákváðum að skella okkur eitthvað styttra í helgarferð að þessu sinni.

Við bókuðum okkur dásamlegt sumarhús við Álftavatn sem við fjölskyldan höfðum einmitt líka bókað okkur nokkrum mánuðum fyrr í vetrarfríinu. Þar var svo gott að vera að ég sendi stelpunum linkinn þegar við vorum að reyna að finna gistingu og þetta var slegið á núll einni.

Fyrsta stopp var á indverskum veitingastað í bænum þar sem við tókum með okkur mat til þess að hita upp um kvöldið. Við vorum alveg búnar að ákveða það að hvíla okkur frá heimilisstörfum og hafa sem minnst fyrir eldamennskunni, ef einhver skyldi vera. Næsta stopp var í Hveragerði þar sem við fengum okkur pizzur í síðbúinn hádegisverð á föstudeginum og versluðum inn fyrir ferðina.

Sumum þótti mikilvægt að kaupa blóm og þá auðvitað gerðum við það, haha!

Húsið tók vel á móti okkur og er algjörlega dásamlegt. Það er rúmgott, með uppábúin rúm og þrif innifalin í leiguverðinu. Þar er virkilega notalegt að vera og er ég viss um að við eigum eftir að bóka þetta hús oftar í framtíðinni.

Það er sjónvarp í hverju herbergi, æðisleg rúm og sængur svo þetta er smá svona hótelfílingur. Það sem mér finnst mesti kosturinn þegar ég leigi svona húsnæði er að þurfa ekki að þrífa við brottför og algjör snilld að þurfa ekki að taka rúmföt, handklæði, viskastykki og allt slíkt með í för.

Það er hugsað fyrir öllum smáatriðum og útisvæðið er undurfagurt með heitum potti og fallegum mublum og blómum.

Arineldurinn í stofunni fullkomnar þetta síðan allt saman og þar sátum við og spjölluðum og höfðum það huggulegt.

Hversu kósý!

Stelpurnar vildu læra að baka kransakökuhringina frægu svo ég tók þær í smá kennslustund og allar fórum við heim með fullt box af undurfallegum marsípanhringjum.

Þessir hringir eru svo mikið æði!

Síðan var spilað og jólað aðeins yfir sig, hahaha! Jamm við erum smá nördar!

Á laugardeginum fengum við okkur léttan morgunmat og höfðum okkur síðan til fyrir „bæjarferð“ inn á Selfoss.

Við byrjuðum á því að borða yfir okkur og hafa það huggulegt á veitingastaðnum Krisp en þið getið lesið allt um þann dásamlega stað hér í annarri færslu á blogginu.

Næst var ferðinni heitið í Nytjamarkaðinn….jebb, þið lásuð rétt! Ég meina við vorum í bæjarferð og vildum kíkja í búðir, tíhí! Þar var gaman að gramsa og allar keyptum við eitthvað, ég fann fínasta „props“ fyrir bloggið og svo fannst okkur bara skemmtilegt að skoða allt þetta dóterí.

Við röltum síðan um bæinn og keyptum okkur alls konar óþarfa; föt, dót og almenna vitleysu en það má líka alveg í svona ferðum.

Fallegasta jólahús sem ég hef séð stendur á Selfossi, það er bara þannig, eruð þið að sjá þessa fegurð!

Við versluðum í brushettur og gerðum okkur ostakrans til að hafa í kvöldmat því eftir svona svakalegan hádegismat er gott að hafa eitthvað létt um kvöldið.

Við höfum síðan haft það að venju að græja saman „Goodie bags“ fyrir svona ferðir en allar höfðum við í nægu að snúast og ætluðum að sleppa því þetta skiptið. Það tókst ekki betur en svo að Lukka snillingur var búin að föndra listaverk handa okkur öllum og gaf okkur og Boody Wear á Íslandi gaf okkur líka óvænt gjafapoka með undursamlegum fatnaði. Við vorum því allar komnar í þægilegustu kósýföt heims að virða fyrir okkur nýju listaverkin okkar áður en við vissum af, heppnar!

Það sem ég er þakklát fyrir þessar!

Á sunnudagsmorgninum vöknðum við upp við þessa fegurð. Sannarlega ekki hægt að kvarta yfir útsýninu.

Við elduðum okkur dýrindis bröns og vorum ekkert að flýta okkur heim.

Svona kósýhelgar með vinkonum er eitthvað sem ætti að gera mun oftar, svo endurnærandi fyrir sálina og gott að þurfa ekki að hugsa um neinn nema sjálfan sig í smá stund.
Ég mæli sko sannarlega með helgarferð austur fyrir fjall! Þetta þarf ekki alltaf að vera flókið, útlönd eða vesen. Bara bóka gistingu, góða vini og hafa nóg af mat, þá er ekkert sem getur klikkað!