Kransakökuhringir



⌑ Samstarf ⌑
Kransakökuhringir fyrir veisluna eða hátíðirnar

Það eru alls ekki nýjar fréttir að ég sé mikill aðdáandi marsípans, langt því frá. Ég elska marsípan og hef alla tíð gert. Kransakökur finnast mér eitt það besta sem hægt er að fá og algjör óþarfi að hafa slíkan munað bundinn við fermingarveislur eða annað slíkt.

Kransakökuhringir fyrir veisluna eða hátíðirnar

Það eru margir sem dúllast við að baka eitthvað skemmtilegt fyrir jólin og hér er svo sannarlega góð hugmynd að gæðastund. Hægt er að frysta hringina og taka nokkra út reglulega á aðventunni. Síðan er líka hægt að setja borða í lykkju og hengja þá á jólatréð eða skreyta með þeim jólapakkana.

Kransakökuhringir fyrir veisluna eða hátíðirnar

Kransakökuhringir uppskrift

Hringir

  • 1 kg Odense marsípan (þetta bleika)
  • 500 g sykur
  • 2 eggjahvítur
  1. Brytjið marsípanið niður í nokkra hluta og setjið í hrærivélarskál með sykrinum, blandið vel saman með K-inu.
  2. Pískið eggjahvíturnar saman og setjið í nokkrum skömmtum saman við marsípanblönduna. Ef hvíturnar eru stórar þarf mögulega ekki að nota þær allar, setjið því minna í einu og passið að blandan verið ekki of blaut.
  3. Gott að taka síðan blönduna og hnoða aðeins í höndunum, plasta vel og kæla í að minnsta kosti 4 klukkustundir eða yfir nótt.
  4. Skiptið deiginu í nokkra hluta og rúllið hvern hluta út eins og pylsu sem er tæplega 1 cm í þvermál.
  5. Mælið á bilinu 15-16 cm langar lengjur með reglustiku og festið hverja saman í hring (uppskriftin dugar í um 45 hringi).
  6. Raðið á bökunarpappír og bakið við 200°C í um 8-10 mínútur (ofnar eru misjafnir svo hér þarf bara að fylgjast vel með og taka hringina út þegar þeir eru aðeins farnir að dökkna).
  7. Kælið hringina vel áður en þið sprautið glassúr yfir.
  8. Þegar glassúrinn er orðinn harður má binda slaufur á hringina til skrauts.

Glassúr

  • 1 eggjahvíta
  • ½ tsk. möndludropar
  • 150 g flórsykur
  1. Þeytið allt saman og bætið flórsykri jafnt og þétt saman við eggjahvítublönduna þar til blandan fer að þykkna og verða teygjanleg.
  2. Setjið í sprautupoka með grönnum, hringlaga stút og sprautið mynstur á kransahringina.
Kransakökuhringir úr Odense marsípani

Odense marsípanið klikkar ekki frekar en fyrri daginn! Gaman er að setja nokkra kransakökuhringi í fallegan gjafapoka/krukku og færa þeim sem okkur þykir vænt um.

Kransakökuhringir fyrir veisluna eða hátíðirnar

Ég veit ekki með ykkur en ég á í það minnsta erfitt með að standast þessi krúttheit. Einn og einn hringur með kaffinu er eitthvað til að gera aðdraganda jólanna enn skemmtilegri en annars.

Kransakökuhringir fyrir veisluna eða hátíðirnar

Megið endilega fylgja Gotterí líka á INSTAGRAM

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun