EldgosagangaHvernig kemst maður að eldgosinu

Já krakkar mínir það er E L D G O S, svona ef það hefur farið framhjá einhverjum, hahaha! Ég er búin að ganga tvisvar sinnum að gosinu, bæði að degi til og að kvöldi til og á pottþétt eftir að fara oftar. Þetta er eitthvað sem er ekki hægt að lýsa nægilega vel í máli né myndum, þetta er bara eitthvað sem allir þurfa að sjá með eigin augum!


Ég er búin að vera að deila myndum og myndböndum á Instagram og mjög margir verið áhugasamir og spurt ýmissa spurninga. Ég ákvað því að setja hinga inn mína reynslu í þessum málum en ætla að taka það fram að ég er enginn leiðsögumaður né sérfræðingur, bara venjuleg mamma, eiginkona og bloggari sem elskar að skoða náttúruna og ganga upp á fjöll og firnindi. Ég vona hins vegar þessir punktar komi til með að hjálpa einhverjum og gefa betri innsýn í aðstæður……varúð þetta verður löng færsla!

Geldingadalur eldgos

SUNNUDAGUR 21.MARS

Ég fór fyrst með félögum mínum í Fjallhalla Adventures en mér leið mun betur að vera með reynslumiklu göngufólki og sérfræðingum á fyrsta ferðalaginu mínu að þessu undri því á þessum tímapunkti vissi ég ekkert hvað sneri upp né niður. Við lögðum bílunum í Grindavík við Suðurstrandaveg því lokanir voru á veginum á þessum tíma og ekki hægt að komast nær. Við gengum því um 5 km spotta á malbikinu hvora leið áður en hægt var að beygja yfir á gönguleiðina í átt að gosinu sem spannar einnig um 5 km hvora leið. Við enduðum því í hátt í 20 km göngu þennan daginn en núna er hægt að keyra Suðurstrandaveg mun lengra og stytta gönguna þannig um helming. Það var mikil traffík, fólk hjólandi, hlaupandi, labbandi, leggjandi bílum út um allt, meira að segja hjá Bláa lóninu og alls staðar og gangandi einhverjar ómerktar leiðir í átt að gosinu. Það er því ekki skrítið að einhverjir hafi örmagnast því ekki hefði ég viljað brölta þarna yfir hraunið. Var svo heppin að Fjallhallafólkið var með bestu leiðina á hreinu sem nú er búið að stika fyrir almenning svo erfitt er að villast.

Gönguleið að eldgosinu

Hérna byrjaði þetta því allt sunnudaginn 21.mars og mikið sem við vinkonurnar vorum spenntar yfir því sem koma skyldi, enda ekki á hverjum degi sem maður getur gengið upp að eldgosi!

Eldgos í Geldingadal gönguleið

Fegurðin sem tók við og andköfin sem við tókum þegar við sáum það fyrst er eitthvað sem ég mun ekki gleyma. Þetta var smá súrealískt, svona eins og þetta væri bara í Disneyland eða öðrum óraunverulegum heimi.

Eldgosið í Geldingadal að degi til

Við vorum um eina klukkustund og 45 mínútur upp að gosinu (um 9-10 km) og stoppuðum síðan þar í góðan klukkutíma. Það er björgunarsveitafólk um allt og mikilvægt að passa sig að fara ekki of nálægt á ákveðnum stöðum. Ég átti mjög bágt með mig enda elska ég að taka fallegar myndir og það var freistandi að fara nálægt. Þennan daginn gengum við í hlíðina sem er til hægri þegar komið er að gosinu en þá rann „hraunáin“ í þá átt og auðvelt að komast mjög nálægt.

Hvernig á maður að labba að eldgosinu

Nei hversu magnað er þetta dæmi!

Eldgos á Íslandi

Hér sjáið þið vel hvernig hraunið rann þennan dag. Ég útbjó einnig stutt myndband sem ég deildi á Instagram og ætla að leyfa því að fljóta með hér að neðan.

Ég var akkúrat að taka upp þegar gígbarmurinn gaf sig með tilheyrandi geðshræringu hjá fólki, allir hlupu upp í brekkuna og það voru öskur og læti! Þetta sýndi okkur sannarlega að eldgos er ekkert lamb að leika sér við og betra að halda fjarlægð.

Eldgos á íslandi

Nýtt og gamalt mætist á svo fallegan hátt!

Eruption in Iceland

Við ætluðum aldrei að tíma að fara, litum við á nokkurra skrefa fresti og vorum í sæluvímu á bakaleiðinni og snargleymdum þreyttum fótum, hahaha! Sunnudagurinn 21.mars fer í það minnsta í sögubækurnar hjá okkur!

MIÐVIKUDAGUR 24.MARS

Sæluvíman kom með mér heim og öll fjölskyldan vildi eðlilega fá að upplifa þetta líka svo við skelltum okkur af stað síðdegis, miðvikudaginn 24.mars í gosleiðangur til þess að sjá það að kvöldi til að þessu sinni. Á þessum tíma var búið að opna Suðurstrandaveg, búið að stika leiðina, rútuferðir í boði og björgunarsveitin í raun búin að vinn afrek á nokkrum dögum til að bæta aðgengi og upplýsingar.

Eldgos að nóttu og degi

Traffíkin var brjáluð! Við vorum í meira en klukkutíma í bílaröð frá Grindavík til að komast þessa 5 km sem við vinkonurnar höfðum gengið á töluvert styttri tíma nokkrum dögum á undan, hahaha! Við komumst þó mun nær og vildum ekki þreyta stelpurnar of mikið og tókum því rafmagnshlaupahjólin með fyrir þær og þær fóru á þeim malbikaða hlutann. Síðan læstum við þeim út í móa við stikaða stíginn. Þar lágu ótal hjól og búnaður sem fólk hafði nýtt sér til að létta leiðina. Þau voru einkar kærkomin á bakaleiðinni get ég sagt ykkur þó svo ég viti að þær hefðu alveg getað gengið þetta.

Eldgosið í Geldingadal að kvöldi til

Það er einstefna á veginum eins og er, bílum er gert að leggja á hægri akreininni og keyra á þeirri vinstri. Það þarf því að koma í gegnum Grindavík og keyra síðan Krýsuvíkurleiðina tilbaka. Þetta myndi alveg ganga vel fyrir sig ef ökumenn væru ekki líka að leggja vinstra megin út í vegkanti þegar nálgast tekur stíginn. Það er allt of þröngt fyrir rútur og bíla að komast þannig á milli og hreinlega skil ég ekki hverjum datt í hug að fara frá bílnum sínum á þessum stað! Þetta var án efa ástæðan fyrir því að umferðin gekk MJÖG hægt! Það geta auðvitað ekki allir fengið stæði akkúrat við stíginn og það er alt í lagi að ganga hluta á veginum, mikið sem það væri gott ef allir væru tilbúnir að fylgja þessum einföldu leiðbeiningum. Það var það þröngt á köflum að hjól og hlaupahjól komust ekki einu sinni á milli bíla!

Komast krakkar með að eldgosinu í Geldingadal

Þessar 12 ára vinkonur fóru létt með þetta og voru hæstánægðar með þessa ævintýraferð!

Eruption in Iceland 2021

Þegar að gosinu var komið leit það allt öðruvísi út en þremur dögum áður. Ekkert hraun rann nú hægra megin þar sem við höfðum verið á sunnudeginum, heldur allt að gerast vinstra megin. Það þurfti því að ganga töluverðan spotta í grýttum hlíðum dalsins til vinstri til þess að sjá „hraunánna“ að þessu sinni. Við fórum ekki nær en þetta þar sem búið var að loka sökum mengunar en sátum þarna í nestispásunni okkar og horfðum á gíginn spúa!

How to get to the eruption in Iceland 2021

Þennan dag var ekki hægt að komast eins nálægt og á sunnudeginum því miklu meira hraun var á þessum stað og gígurinn sjálfur mun lengra í burtu. Við fórum ekki mikið nálægt því hraunveggirnir fremst eru orðnir margra metra háir og ekki að spyrja að leikslokum ef þeir myndu hrynja! Okkur fannst því best að halda okkur í hlíðinni og gengum hana eins innarlega og við gátum. Skemmtilegt hefði verið að ganga allan hringinn en það hefði kostað auka brölt en hefði sannarlega verið þess virði ef það hefði verið í boði svo við eigum það vonandi inni þegar við förum næst.

Komast krakkar með að eldgosinu í Geldingadal

Hér erum við á bakaleið og eins og þið sjáið eru margir á ferli! Gosið og hraunið mun þó eflaust breytast dag frá degi og mikilvægt að leita ráða hjá björgunarsveitarfólki þegar á hólminn er komið til að fá upplýsingar um hvað beri að varast og hvert sé best að ganga ætlið þið að brölta inn með dalnum öðru hvoru megin. Síðan voru margir sem stoppuðu bara efst í Geldingadal (við endann á þessari ljósarunu) og fóru ekkert lengra og það má að sjálfsögðu líka!

HOLLRÁÐ

Gangan er þannig lagað séð nokkuð greiðfær fyrir fólk í ágætis formi. Hún var um 10 km fyrir okkur þetta kvöld þar sem við fengum bílastæði efst í brekkunni áður en komið er að stikuðu leiðinni. Fyrst er gengið meðfram Borgarfjalli, á miðri leið er síðan góð „brekka“ þar sem Borgarfjall mætir Fagradaslfjalli á leiðinni yfir í Gelgindadali. Þar sem hækkunin á sér stað er frekar lausgrýtt og möl og því auðvelt að renna ef skór eru ekki góðir. Kaðall hefur verið settur upp á brattasta hlutanum en sökum Covid vildum við til dæmis ekki nota hann heldur gengum aðeins til hliðar við þá röð og fórum varlega til að slasa okkur ekki. Á bakaleiðinni var komið frost og myrkur og þá var gott að setja á sig „Esjubroddana“ og höfuðljósið.

Það er síðan MJÖG MIKILVÆGT að vera vel búinn. Það er kalt, blautt, drulla, hálka og alls konar færi á leiðinni.

  • Fatnaður: Ellingsen hefur tekið saman góðar upplýsingar varðandi fatnað fyrir slíka göngu sem ég mæli með að þið lesið.
  • Annar búnaður: Höfuðljós, göngustafir og broddar eru eitthvað sem ég myndi hafa með mér, broddar mega missa sín þegar hlýnar í veðri. Okkur finnst líka gott að hafa skíðagleraugu yfir lambúshettu (eins og á skíðum) þegar það er rok og snjókoma!
  • Nesti: Mikilvægt að hafa nóg að drekka, vatn, Gatorade og heitan drykk þegar kalt er í veðri. Það er líka alltaf betra að hafa meira nesti en minna og hafa mér sér smurða samloku, pasta, orkustykki, hnetur, ávexti og slíkt. Að sitja og dást að gosinu með gott nesti er upplifun út af fyrir sig!
  • Leiðsögn: Fyrir þá sem ekki treysta sér að fara sjálfir eru til dæmis skipulagðar ferðir að gosinu með Fjallhalla Adventures.

Eiturgufur/gas er mælt og varað við að ganga ef mengun fer yfir hættumörk. Því er ekki gott að ganga í logni en heldur kannski ekki skemmtilegast í miklu roki, ætli það sé ekki best að fara þarna meðalveginn. Líklega í eitt af fáum skiptum sem maður óskar þess að hafa smá vind þegar maður ætlar í göngu, hahaha!

Hér fyrir neðan er mynd og frétt frá Vísi sem sýnir hvar stikaða leiðin liggur.

Gönguleið að gosinu

Gott aðgengi að upplýsingum má síðan fá á vef Vegagerðarinnar sem og Almannavarna.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun