Skógarfoss – Íshellaskoðun – Reynisfjara – Seljalandsfoss – Gljúfrabúi

Það er svo gaman að vera túristi í eigin landi, sérstaklega á Covid tímum því þá eru svo fáir á ferli, hahaha! Við fjölskyldan áttum að vera í vikulöngu skíðafríi á Akureyri um páskana en nokkrum dögum áður var skellt í lás á skíðasvæðunum, sundstöðunum og óvissa ríkti um framhaldið. Við afbókuðum því allt sem þeirri ferð tengdist og ákváðum að vera bara heima og sjá hvernig þessi mál myndu þróast.
Síðan leit þetta nú allt betur út en á horfðist og verður vonandi svo áfram. Við ákváðum því að reyna að gera gott úr stöðunni og finna okkur eitthvað skemmtilegt að gera sem fjölskylda og Covid hefði ekki áhrif á. Við skelltum okkur í dagsferð í Skálafell að leika okkur með þotur, bretti og nesti og síðan plönuðum við ævintýradag með suðurströndinni með bestu vinum okkar. Það var ein besta ákvörðun sem við tókum í páskafríinu því þessi dagur var algjörlega frábær og við sköpuðum dásamlegar minningar. Hér kemur því „uppskrift“ að frábærri dagsferð til þess að gefa ykkur hugmynd að slíkri.
Hægt er að smella á myndina hér fyrir neðan til að sjá stutt myndband frá ferðinni…

Við byrjuðum á því að nesta okkur upp í bakaríinu í Hveragerði. Við vissum að við værum að keyra dágóðan spotta og fínt að allir myndu fá sér að borða áður en haldið væri af stað í íshellaævintýrið mikla. Það var því keypt sitt lítið af hverju, bæði til að fá sér fyrir og eftir ferð en að sjálfsögðu hefði líka verið hægt að smyrja nesti. Við vorum síðan með fullan poka af drykkjum, ávöxtum, snakki og öðru „mönsi“ svo enginn þyrfti að verða svangur yfir daginn.

Veðrið lék við okkur þennan dag og fyrsta stopp var við Skógarfoss þar sem við tókum nestispásu og borðuðum hádegismat. Regnboginn og fossinn dönsuðu fyrir okkur og við ætluðum ekki að tíma að fara!

Næst lá leiðin í höfuðstöðvar Katlatrack í Vík í Mýrdal þar sem við hittum Guðjón eiganda Katlatrack og leiðsögumann okkar fyrir daginn. Guðjón og Sæunn konan hans reka fyrirtækið af mikilli ástríðu og eru bæði fædd og uppalin á svæðinu. Því má sannarlega segja að þau séu „local“ þegar kemur að rekstri fyrirtækis á þessum stað. Þau þekkja vel til aðstæðna og dásamlegt að fá hjá þeim punkta um hvað væri sniðugt að skoða, gera, borða og þess háttar á svæðinu, ég tók eðlilega niður punkta sem gott verður að nýta þegar kemur að því að plana sumarfríið! Þeim þykir vænt um staðinn og hafa lagt hjarta sitt sem hug í starfsemina og það skín vel í gegn með fagmennsku og einstakri þjónustu. Þau hafa þróað starfsemina frá stofnun hennar árið 2009 og voru þau fyrstu til að bjóða upp á ferðir í Kötlujökul. Mér finnst aðdáunarvert þegar fjölskylda hefur lagt allt sitt undir til að bjóða upp á sérstæða þjónustu og ferðir sem þessar svo þau fá mörg prik í kladdann frá okkur ferðalöngunum!

Við klæddum okkur í viðeigandi fatnað og komum okkur fyrir í „Super-Jeep“ sem síðan ferjaði okkur með miklu fjöri upp að jökli. Krakkarnir vilja meina að bílferðin hafi verið jafn skemmtileg og íshellaskoðunin sjálf, hahaha! Við fórum í svokallaðan „Fast Track Ice Cave Tour“ og tók ferðin um þrjár klukkustundir í heildina. Þegar komið er upp að jökli er genginn stuttur spotti að hellinum sjálfum.

Litla skottan okkar skemmti sér konunglega og fannst þetta allt mjög spennandi.

Fjölskyldan litríka á leið í íshellaævintýri!

Jökullinn er stórfenglegur, bæði að utan, sem og innan.

Hér er opið sem við gengum inn í. Jökullinn bráðnar hins vegar fljótt og aðeins hægt að njóta hvers hellis í um 1,5-2 ár en þá þarf að finna nýjan. Okkur fannst magnað að geta gengið þarna inn og undir jökulinn sjálfan með þessum hætti.

Það er ómögulegt að reyna að velja myndir þegar maður hefur alveg misst sig á vélinni!

Ég gat einfaldlega ekki hætt að taka myndir, svo undravert að skoða lögin, litina, klakann og fegurðina! Mig langar helst að útbúa málverk úr sumum þessara mynda.

Þessi hér er til dæmis eitthvað sem ég gæti vel hugsað mér upp á vegg í stofunni! Spurning að fara að læra að mála, hahaha!

Í upphafi ferðar var farið yfir öryggisatriði og síðan var gaman að heyra söguna af staðnum og svæðinu í kring á meðan við gengum um hellinn.

Krakkarnir fengu að prófa að hanga, höggva og leika í ísnum og þótti þeim þetta alls ekki leiðinlegt!

Litli ævintýratígurinn minn!

Sjá þessa fegurð!

Ein mynd af mömmunni, það gerist nú ekki oft!

Eftir skemmtilega ferð var haldið af stað tilbaka.

Við vinirnir vorum í það minnsta í skýjunum með þessa ævintýraferð inn í jökul!

Blessuð sólin gerir allt betra.

Næsta stopp var í Reynisfjöru, þar var fallegt en þar var líka hávaðarok, eina rokið sem við kynntumst þennan daginn reyndar, hahaha!

Við hertum okkur upp í smá myndatöku í fallega stuðlaberginu, skoðuðum sléttu steinana, dauða loðnu um allt, krabba og önnur skemmtilegheit. Hoppuðum svo inn í bíl og héldum áfram að mjaka okkur heimleiðis.

Seljalandsfoss höfum við ekki heimsótt að vetri til áður. Við vorum með brodda meðferðis svo við stóðumst ekki mátið og fórum á bakvið fossinn í kuldanum, það var æði!

Gljúfrabúi er síðan staðsettur örlítið innar en Seljalandsfoss. Þangað höfum við farið nokkrum sinnum og þar sem þetta var síðasta stoppið okkar þennan daginn var allt í lagi að bleyta sig aðeins. Við skelltum okkur því þangað inn og að sjálfsögðu var hoppað upp á steininn í smá myndatöku.

Krökkunum fannst þetta algjört ævintýri, við komum rennblaut tilbaka, hristum jakkana og settum í skottið. Síðan var brunað á Selfoss á dásamlegan veitingastað sem við heimsækjum reglulega og heitir KRISP. Eftir langan dag voru allir svangir og mögulega pöntuðum við aðeins meira af mat en við höfðum pláss fyrir en það má alveg á svona dögum, hahaha! Ég mæli sérstaklega með djúpsteikta þorskinum, smjörsteiktu sveppunum, kjúklingasalatinu, „Buns-unum“ og „Salted Caramel Shake-num“….já og franskarnar eru eitthvað annað líka, ofurkrispí og stökkar! Hér getið þið lesið meira um Krisp ef þið hafið áhuga. Ég er í það minnsta strax farin að hugsa til næstu ferðar þangað!
Við lögðum af stað úr bænum um 9:30 og komum tilbaka um 22:00 svo það má svo sannarlega nýta klukkutímana vel á svona flandri. Sátt og þreytt fjölskylda hlammaði sér síðan á sófann þetta kvöldið og vonandi líður ekki á löngu þar til við plönum frekari ævintýri saman.

Jæja, ætli ég setji ekki punktinn á þessari færslu hér og vona þið hafið haft gagn og gaman af!