
Pastasalat með „kjúklingi“ er fullkomin og fljótleg lausn á hollri og góðri máltíð!

Nú hef ég aðeins verið að prófa að vinna með Hälsans Kök vörurnar sem eru vegan. Ég er klárlega ekki vegan en á móti þá finnst mér allt í lagi að borða minna af dýraafurðum. Það er magnað hvað þessar vörur eru orðnar góðar og líkja mikið til „alvöru“ kjöts, við elskum til dæmis hakkið og þessir kjúklingafilé bitar voru virkilega góðir. Það sem mér finnst svo mikill kostur er að það má taka þetta beint úr frystinum og elda og þannig flýtir maður vel fyrir eldamennskunni.

Pastasalat með „kjúklingi“ uppskrift
Fyrir tvo
- 1 pakki Hälsans Kök vegan kjúklingafile (325 g)
- 250 g soðnar pastaskrúfur
- 3 msk. grænt pestó
- ½ brokkolihaus
- Furuhnetur
- Basilíka
- Parmesan ostur
- Matarolía til steikingar
- Salt og pipar
- Sjóðið pastaskrúfur í saltvatni, sigtið vatnið frá og setjið í skál og blandið pestó saman við.
- Skerið brokkoli í munnstóra bita, steikið upp úr olíu og skvettið smá vatni á pönnuna í lokin ef þið viljið mýkja það enn frekar, bætið í skálina.
- Setjið meiri olíu á pönnuna og steikið nú kjúklingabitana og kryddið eftir smekk.
- Bætið þeim í skálina ásamt furuhnetum og saxaðri basilíku.
- Blandið öllu saman og berið fram með parmesan osti.

Ég mæli sannarlega með því að þið prófið þessar vörur! Það er líka gott að vita af einföldum lausnum ef þið eruð að fá til ykkar gesti sem eru vegan. Það þarf alls ekki að örvænta, því það er lítið mál að útbúa gómsæta rétti með því að skipta kjötinu út. Síðan er auðvelt að finna tilbúnar vegan sósur, osta og annað slíkt.

Það er síðan fullkomið að grípa þetta pastasalat með í nesti því það er jafn gott kalt og volgt.
