Laugavegurinn 2021Landmannalaugar og Laugavegurinn

Loksins sest ég niður til að skrifa þessa færslu. Það er búið að vera allt of mikið í gangi hjá mér í sumar að ég hef ekki náð í skottið á sjálfri mér síðan við fórum í þessa dásamlegu göngu um miðjan júlí!

Landmannalaugar og Laugavegurinn

Við höfum ætlað að ganga Laugaveginn síðan í fyrra en þá hættum við við þar sem veðurspáin var afleit, tvisvar sinnum í röð meira að segja og síðan „brunnum“ við inni á tíma þar sem það var orðið áliðið inn í haustið.
Við bókuðum því skála og allt sem þurfti fyrir þessa göngu með margra mánaða fyrirvara í ár og svo var bara að krossa fingur og vona að veðrið myndi haga sér. Það hefur verið hlýtt og milt veður á hálendinu í mestallt sumar en auðvitað kom einhver leiðindaspá akkúrat þegar við ætluðum að fara af stað.
Við létum þó slag standa því ekki vildum við að sagan frá því í fyrra myndi endurtaka sig! Það er þá alltaf betra að klára svona markmið og fara þá bara aftur síðar, vonandi í betra veðri, það hugsuðum við í það minnsta og héldum plani og sjáum alls ekki eftir því.

Landmannalaugar og Laugavegurinn

Ferðasagan okkar…


Við vildum ganga þessa leið á tveimur dögum og gista í Álftavatni og síðan í Húsadal. Við tókum rútu eldsnemma inn í Landmannalaugar á miðvikudegi, fengum okkur að borða og héldum af stað. Við voru þrjú á ferðinni saman, við hjónin og Finnur vinur okkar sem hefur gengið Laugaveginn um 30 sinnum svo það var eins og vera með talandi alfræðibók fyrir Laugaveginn alla leiðina sem var auðvitað algjörlega ómetanlegt. Upphaflega ætluðu önnur vinahjón okkar með en vinkona mín veiktist daginn áður en halda átti af stað og Finnur hoppaði á vagninn til að nýta gistingu og trúss sem var algjör snilld, ekki margir sem eru til í að hoppa á Laugaveginn með eins dags fyrirvara!

Landmannalaugar og Laugavegurinn

Hér byrjar þetta víst allt saman, í Landmannalaugum og dagleiðin að Álftavatni er um 23 km. Við fengum milt og gott veður fyrstu kílómetrana okkar og nutum því útsýnisins sem elsku fallegu Landmannalaugar hafa upp á að bjóða til hins ítrasta.

Landmannalaugar og Laugavegurinn

Við hittum Ísraela að nafni Aoavi og slóst hann í för með okkur þar sem hann var líka á leið inn í Álftavatn einn síns liðs. Hann var með svefnpoka hangandi utan á sér og hvorki með húfu né vettlinga. Við grínumst því aðeins með það að við höfum „ættleitt“ hann þar sem hann var fylgdinni feginn.

Laugavegurinn gönguleið

Þegar við komum upp á Fjallabakið (fyrir ofan Brennisteinsöldu) fór þoka og rigning að stríða okkur og ég var þakklát fyrir derhúfuna sem skýldi andlitinu mínu í það minnsta fyrir allri bleytunni. Bót í máli var að við vorum búin að taka út mestalla hækkun að undanskildum smá „brekkusprettum“ hér og þar.

Laugavegurinn gönguleið

Landslagið er engu líkt!

Laugavegurinn gönguleið

Þegar við komum að Hrafntinnuskeri kom meira að segja snjóél og við vorum orðin gegnblaut á vettlingum og víðar þegar þangað var komið. Þar fengum við okkur nesti, skiptum um blautustu fötin og héldum ferðinni síðan áfram í átt að Álftavatni. Þarna erum við búin að ganga um 12 km af leiðinni og myndi ég segja þetta sé erfiðasti parturinn þar sem mesta hækkunin á sér stað á leiðinni að Hrafntinnuskeri.

Svartagil á Laugaveginum

Það var slatti af snjó enn á gönguleiðinni svo við vorum glöð að vera í vatnsheldum gönguskóm því annars hefði okkur orðið kalt á fótunum. Það var freistandi að fara bara yfir á hlaupaskónum en þennan dag hentuðu gönguskórnir betur. Frá Hrafntinnuskeri að Álftavatni liggur leiðin upp og niður sanda, snjó og möl um vestanverð Kaldaklofsfjöll þar til komið er að Jökultungunum sem er nokkuð brattur kafli niður og mölin þar laus í sér og mikilvægt að fara varlega.

Ljósufjöll á Laugavegi

Ég tók endalaust af myndum og ég vona að þær gefi ykkur smá innsýn yfir það hvernig gönguleiðin lítur út.

Laugavegsganga

Það má ekki gleyma því að hafa gaman þó svo það sé hellidemba og þoka!

Laugavegsganga

Þrátt fyrir þoku og bleytu var ferðalagið ævintýralegt.

Laugavegur hiking, Jökultungur

Þegar við komum að Jökultungum var mikil þoka og ekki gott útsýni en síðan gerðust þau undur og stórmerki að himininn tætti af sér og við blasti þessi líka fegurð síðustu kílómetrana að Álftavatni.

Álftavatn skáli

Við náðum að tipla yfir Grashagakvíslina án þess að blotna og við komum í skálann um kvöldmatarleytið, rennblaut og svöng. Það var hins vegar loksins að stytta upp svo við hengdum af okkur, fórum í þurr föt, komum okkur fyrir og elduðum kvöldmat. Við gistum í skála Ferðafélags Íslands við Álftavatn og er öll aðstaða þar til fyrirmyndar. Við fengum This is Iceland til að trússa fyrir okkur dóti þangað uppeftir svo okkar biðu dýrindis steikur, drykkir og aðrar nauðsynjar sem gott var að þurfa ekki að bera á bakinu alla leiðina.

Laugavegurinn gönguleið

Morguninn eftir dugði ekkert annað en egg og beikon á okkur enda langur dagur fyrir höndum, eða um 32 kílómetra leið inn í Húsadal.

Álftavatn ganga

Við kvöddum Álftavatn því að morgni í dásamlegu veðri sem var algjörlega óvænt miðað við veðurspánna en svo mikið velkomið.

Laugavegurinn ganga á tveimur dögum

Fljótlega eftir að lagt er af stað frá Álftavatni þarf að vaða yfir Bratthálskvísl svo það þarf að vera viðbúinn því að fara úr skónum þegar maður er nánast nýfarinn af stað aftur.

Hvanngil skáli

Næst tekur Hvanngil við og þar er einnig skáli frá Ferðafélaginu. Þegar haldið er af stað frá Hvanngili er fljótlega farið yfir Kaldaklofskvísl á göngubrú og svo er vaðið yfir Bláfjallakvísl en þar var ljúft að fara úr skónum og vaða yfir ískalda ánna eftir heitan morgun. Að því loknu taka við langir og beinir sandar þar sem hægt er að fara nokkuð hratt yfir.

Sandurinn áður en komið er í Emstrur

Við ákváðum að ganga frekar á veginum en gönguleiðinni þar sem hann er þéttari í sér og hægt að fara hraðar yfir. Síðan þegar við sáum Innri-Emstruá beygðum við af leið og gengum að brúnni.

Laugavegurinn ganga á tveimur dögum

Sökum veðurspár voru stuttbuxurnar skildar eftir heima svo það var ekkert annað í stöðunni en að ganga bara í föðurlandinu og hlýrabolnum víst veðrið var okkur í hag þennan dag.

Laugavegsganga hollráð og ráðleggingar

Hér erum við farin að nálgast Emstrur eftir langa göngu á söndunum en þar ætluðum við að stoppa til að fá okkur nesti áður en haldið yrði áfram.

Emstrur á Laugaveginum skáli FÍ

Í Emstrum vorum við um það bil hálfnuð með dagleiðina og tókum góða pásu og hertum okkur síðan upp og héldum áfram. Fljótlega er farið yfir Fremri-Emstruá en þar er brú sem lofthræddir gætu orðið pínu smeykir. Önnur brúin liggur yfir ánna og önnur í hlíðinni til að komast meðfram klettunum.

Laugavegurinn gönguleið

Það var eins og það væri gat á himninum sem elti okkur alla leið inn í Þórsmörk með sól og hlýju. Spáin hafði verið önnur svo þetta veður var kærkomið eftir vel blautan dag deginum áður. Einhyrningur skartaði sínu fegursta, regnboginn lét sjá sig og við óðum yfir Þröngánna eins og meistarar.

Þórsmörk

Síðustu kílómetrarnir inn í Þórsmörk virtust engan endi ætla að taka og það þarf að peppa sig upp til að ganga á Kápu sem er síðasta hækkunin þarna alveg í lokin. Þegar komið er yfir Kápuna sést vel yfir Þórsmörk og Þröngáin tekur við sem síðasta vaðið á leiðinni. Hún var vatnsmest af öllum ánum en það var samt ekkert mál að komast yfir hana. Síðan tóku við mjúkir stígar með moldar undirlagi alveg niður í Húsadal. Okkur fannst við vera komin en það eru alveg nokkrir kílómetrar eftir þarna svo það er gott að vita það.

Laugavegurinn ganga á tveimur dögum

Það var síðan ekki amalegt að fá mótttökur frá elsku bestu vinum okkar þegar í Húsadal var komið! Þau komu á góðum bílum en engu að síður fóru þeir ekki yfir Krossánna, þangað voru þau sótt með allt dótið til að ferma inn í Húsadal. Það kemur einnig rúta í Húsadal á hverjum degi yfir sumarmánuðina sem við ætluðum upphaflega með heim en þar sem við fengum svona góða þjónustu varð ekkert af því. Þið vitið bara af því að það er lítið mál að komast heim aftur úr Þórsmörk, mælum samt með að gista eftir göngu ef þið takið langan dag eins og við. Ef við hefðum til dæmis gengið á þremur dögum og gist í Emstrum hefði vel verið hægt að taka restina af leiðinni og ná rútunni heim samdægurs.

Volcano Huts í Þórsmörk

Við höfðum bókað nokkur Glamping tjöld hjá Volcano Huts og var það virkilega skemmtileg upplifun í lok ævintýralegs ferðalags. Þau eru með uppábúin rúm og tjöldin upphituð. Þar er einnig hægt að kaupa kvöldverðarhlaðborð og morgunverðarhlaðborð sem var alveg dásamlegt eftir langa göngu. Með þessu móti var óþarfi að láta trússa auka dóti í Þórsmörk sem var mjög þægilegt.

Ganga á Laugaveginn

Næsta dag ákváðum við síðan að skoða okkur aðeins um á svæðinu áður en við færum heim og byrjuðum á því að kíkja í Stakkholtsgjá.

Stakkholtsgjá

Leiðin frá Þórsmörk að þjóðveginum er nokkuð gróf og nokkrar ár og lækir á leiðinni. Gott er að hafa það í huga að í jökulám er minnst rennsli fyrri part dags, en vatnsmagn fer eins og gefur að skilja að mestu eftir aðstæðum hverju sinni og því betra að vera á vel búnum bíl. Skömmu eftir Steinsholtsá er farið yfir Jökulsá sem rennur úr Gígjökli, sem var næsti áfangastaður okkar.

Gígjujökull

Síðast á dagskrá var Nauthúsagil en þangað er virkilega skemmtilegt að koma og ævintýri líkast að ganga inn eftir gilinu að þessum fallega fossi.

Nauthúsagil

Þreyttir göngugarpar stoppuðu síðan á Selfossi og gerðu vel við sig í mat og drykk áður en leiðin lá aftur heim.

Laugavegurinn ganga á tveimur dögum

Hér eru síðan nokkrir punktar frá okkur sem gott er að hafa í huga ef þið hyggið á gönguferð á Laugaveginn.

Undirbúningur

Við gengum á mishá og löng fjöll um 1 x í viku í um 3 mánuði fyrir ferðina. Síðustu 6 vikurnar fórum við lengri ferðir aðra hverja viku og sú lengsta var rúmir 20 km með um 1000 m hækkun sem er svipuð og fyrri dagleiðin okkar. Við vissum að ef við gætum það og liðið vel næsta dag myndi þetta allt hafast, sem og það gerði. Síðustu vikuna fyrir ferð hvíldum við þó alveg, ekki gott að fara í langar göngur stuttu áður en farið er í svona ævintýri.

Búnaður og nesti

Við vorum í ull sem innsta lagi, göngubuxum og vatnsheldum buxum þegar rigndi. Flíspeysa yfir ullina og síðan skel dugði okkur vel en gott er að hafa auka sokka, vettlinga og húfu í pokanum þar sem gott er að skipta ef allt er orðið gegnblautt.

Það er erfitt að treysta veðurspánni svo ég er alltaf með meira en minna af fatnaði með mér því það er ekkert verra en að verða kalt. Ég var meira að segja með dúnlúffurnar mínar (skíðalúffurnar) og fannst gott að fara í þær eftir stoppið á Hrafntinnuskeri þar sem hægt var að vinda fingravettlingana sökum bleytu.

Við borðuðum vel í Landmannalaugum áður en við lögðum af stað og síðan vorum við með samlokur, ávexti, hnetur & rúsínur, Gatorade og vatn með okkur í pokanum. Við smurðum fyrir 2 daga til að nestið fyrir næsta dag væri sem nýjast og fór það því ekki með trússinu, aðeins nýtt nasl, orkustykki og orkudrykkir fóru í trússi. Þar sem veðrið var ekki sérlega gott fyrri daginn okkar vorum við ekkert að stoppa nema bara í Hrafntinnuskeri, þar borðuðum við því vel en svo var maður bara að narta í orkustykki, hnetur og þess háttar á leiðinni og síðan elduðum við góðan mat þegar komið var á Álftavatn.

Við vorum með göngustafi og það var gott að hafa þá til að fara yfir snjóbreiðurnar og líka niður brattari kafla.

Ekki má gleyma síma/myndavél, sólgleraugum, sólarvörn ef sólin lætur sjá sig og smá sjúkrakitti (hælsærisplástrum, plástrum, verkjalyfjum og þess háttar).

Í skálunum er hægt að komast á klósett en þau eru ansi misjöfn og lyktin misjöfn eftir því, hahahaha!

Vaðskór og lítið handklæði er gott að hafa í sérpoka í bakpokanum til að það smiti ekki annan búnað eftir notkun.

Tannbursti, tannkrem og þess háttar var bara í bakpokanum hjá mér til að ég myndi ekki gleyma því á Álftavatni.

Eyrnatappa er gott að hafa þegar sofið er í skálum/tjaldsvæðum ef þið viljið fá næði svo endilega lauma þeim með.

Gisting og trúss

Við fengum trúss inn að Álftavatni og þangað létum við trússa svefnpoka, koddum, lökum, kolum, olíu, grillmat og alls konar mat, hreinum fötum og fleiru. Við skildum síðan óhrein föt eftir og settum hrein föt fyrir næsta dag í bakpokann til að hafa í Húsadal næsta dag. Þangað þurftum við nefnilega ekki trúss þar sem við bókuðum tjöld með uppábúnum rúmum og veitingar hjá Volcano Huts.

Trússið fengum við í gegnum This is Iceland og mælum við með að pakka trússi vel og setja í poka, það er mikið ryk og mögulega bleyta í trússkerrunum svo það er gott að ná í hreint dótið sitt undir skítugum poka.

Kostnaður og annað

Hemmi var með GPS með hnitunum ef eitthvað kæmi upp á en símarnir og stikurnar dugðu okkur vel, þrátt fyrir þoku. Stundum sáum við ekki í næstu stiku en ef við gegnum aðeins áleiðis birtist hún fljótt svo við lentum ekki í neinum vandræðum þrátt fyrir slæmt skyggni.

Kostnaðurinn var í heildina fyrir okkur hjónin var um 100.000 kr.

 • Stök rútuferð var á 6900 kr á mann og flestir þurfa líklega x 2, inn í Laugar og frá Þórsmörk = 13.800 fyrir okkur því við fengum far heim.
 • Trúss einn legg er 10.000 kr á haus svo við greiddum aðeins það en flestir þurfa eflaust fleiri daga = 20.000 kr (This is Iceland)
 • Gisting í skála 5000-9500 (eftir því hvort þú ert félagi FÍ eða ekki) = 10.000 kr
 • Matur á leiðinni og hjá Volcano Huts í Þórsmörk…….þetta eflaust æði misjafnt en við vorum með steikur í trússi og lúxus og þetta líklega um 20.000 kr á haus fyrir alla ferðina með öllu frá snarli að veitingastað = 40.000 kr
 • Glamping tjald í Húsadal hjá Volcano Huts = um 20.000 kr (Volcano Huts)

Þetta eru svona helstu punktar sem mér datt í hug að skrifa niður en á vef Ferðafélags Íslands má finna góða lista fyrir svona göngu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
  0
  Karfan þín
  Karfan er tómNetverslun