
Það gerðist aftur! Ný uppskriftabók er í prentun og verður komin til landsins í lok október, hipp, hipp húrra fyrir því! Ekki spyrja hvernig þetta gerðist en ætli það sé ekki eins og með Saumaklúbbinn í fyrra, að þegar hugmynd nær fótfestu í kollinum er ekki aftur snúið.
Hægt er að kaupa þessa skemmtilegu bók í forsölu í Netverslun allan október á sérstöku kynningarverði!

Börnin baka er bakstursbók fyrir börn eins og heitið gefur til kynna. Í henni eru fjölbreyttar og einfaldar uppskriftir úr ýmsum áttum sem henta vel fyrir krakka á öllum aldri og líka fyrir mömmur og pabba!

Bókinni er skipt upp í fimm kafla: Muffins og bollakökur, Kökur, Brauðmeti, Smákökur og gotterí og síðast en ekki síst, Ís og drykki. Uppskriftirnar eru að mestu tengdar bakstri en í bókinni er einnig að finna uppskriftir að einföldu góðgæti sem ekki felur í sér bakstur.

Að þessu sinni er ég hins vegar ekki eini höfundur bókarinnar. Það var nefnilega dóttir mín, hún Elín Heiða sem sá um að gera allar uppskriftirnar í þessari bók. Hún valdi sínar uppáhalds uppskriftir til að setja í hana og síðan ákváðum við aðrar í sameiningu, sem við töldum að myndu henta vel fyrir börn og unglinga. Þær koma frá ættingjum, vinum, úr heimilisfræðitímum og kollinum á okkur. Hún sá alfarið um eldamennskuna á meðan ég sá um aðra verkþætti líkt og ljósmyndun, umbrot og útgáfu.

Í bókinni eru gefin ráð fyrir bakstur ásamt því sem leiðbeiningamyndir fylgja við flóknari uppskriftir.

Litríkar uppskriftir eru í bókinni!

Elín Heiða er 12 ára Mosfellingur og á hún allan heiðurinn af bakstrinum og réttunum í þessari bók. Hún æfir körfubolta og stundar nám við Varmárskóla í Mosfellsbæ. Hún er mikill dýravinur, elskar hunda og hesta og er einnig mikil listakona. Hún teiknar, málar og föndrar skúlptúra inni í bílskúr eins og enginn sé morgundagurinn, og leiðist henni sjaldan þessari duglegu stelpu.

Að koma saman matreiðslubók sem þessari er skemmtilegt verkefni og að vinna það með dóttur sinni gerir það enn skemmtilegra. Það er hins vegar einnig krefjandi og krefst þess að viðkomandi gefi sér tíma til þess að huga að öllum smáatriðum og sinni verkefninu af mikilli alúð. Sumarið okkar fór að mestu í bókagerð og Elín Heiða gat því oft ekki leikið sér við vini sína þar sem hún var inni að baka fyrir bókina. Við sáum því eflaust minna af sólinni en margir þetta sumarið.

Markmið með bókinni er að fá börn til þess að æfa sig í að baka og öðlast sjálfstæði í eldhúsinu um leið og þau töfra fram ljúffenga rétti fyrir fjölskyldu og vini. Flest börn sem kunna að lesa, þekkja aðeins til í eldhúsinu sínu, og kunna á þau tæki og tól sem þar er að finna, ættu að ráða við uppskriftirnar í þessari bók. Önnur gætu þurft smávægilega aðstoð og síðan eru þetta allt saman góðar uppskriftir fyrir mömmur og pabba líka.

Allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi í þessari skemmtilegu uppskriftabók!

Bókin verður brátt til sölu í öllum helstu verslunum landsins ásamt því sem hún er komin í forsölu í Netverslun Gotterí.

Hvaða stærð á skúffuköku formi hentar fyrir kökuna í bókinni Börnin baka?