
Ég verð að viðurkenna að ég er ansi oft að rúlla í gegnum erlendar uppskriftasíður í leit að innblæstri. Ég á nokkrar uppáhalds en rakst á hugmynd svipaðri þessari á Food and Wine síðunni sem ég ákvað að gera eftir mínu höfði og til dæmis notaði ég Mascarpone ost í stað Ricotta.

Það er alltaf tími fyrir góðar brushettur og gott vín!

Þessar snittur enduðu sem síðdegissnarl yfir rauðvínsglasi með góðum vinum hér eina helgina, og slíkar stundir mættu sannarlega vera fleiri.

Súrdeigssnittur með bökuðum tómötum
Um 25 stykki
- 1 x súrdeigs snittubrauð
- 1 dós Mascarpone ostur
- 3 box af Piccolo tómötum (3 x 180g)
- Hvítlauksrif
- Fersk basilíka
- Balsamikgljái
- Furuhnetur
- Ólífuolía
- Salt, pipar
- Hitið ofninn í 210°C.
- Skerið brauðið í þunnar sneiðar, penslið með ólífuolíu og ristið í nokkrar mínútur þar til það aðeins gyllist.
- Þegar brauðið kemur úr ofninum má lækka hitann í 190°C, skera hvítlauksrifið til helminga og nudda hvítlauk á hverja sneið. Geymið síðan brauðið og leyfið því að kólna.
- Setjið tómatana í eldfast mót og hellið um 2 msk af ólífuolíu, 1 tsk. af salti og ½ tsk. af pipar yfir og bakið í 25 mínútur. Leyfið að standa á meðan þið smyrjið osti á brauðsneiðarnar.
- Smyrjið Mascarpone osti á hverja brauðsneið, setjið 2-3 bakaða tómata þar ofan á, næst balsamikgljáa, furuhnetur og ferska basilíku.
