
Þá er loksins komið að því að ég deili hingað inn uppskrift úr elsku bestu bókinni minni, Saumaklúbbnum sem út kom síðasta haust. Í bókinni er að finna yfir 140 uppskriftir úr ýmsum áttum og mig langar að fá að deila örfáum þeirra með ykkur hér reglulega á þessu ári. Það var óskað eftir sniðugum hugmyndum um daginn sem innihéldu ekki kjöt og hér kemur ein alveg hrikalega góð og einföld sem fellur sannarlega undir kjötlausa flokkinn!

Döðlusnitta
Um 10-12 snittur
- 1 x stórt snittubrauð
- 1 x Dala Auður
- 90 g Til hamingju valhnetur
- 150 g Til hamingju saxaðar döðlur
- 3 msk. hunang
- Salt
- Balsamic gljái
- Ólífuolía
- Hitið ofninn í 200°C.
- Saxið hneturnar gróft og ristið í ofninum í um 5 mínútur.
- Skerið brauðið í sneiðar, penslið báðar hliðar með ólífuolíu, saltið örlítið, raðið á bökunarpappír á grind og ristið í ofninum í um 5 mínútur.
- Skerið ostinn í sneiðar og setjið á brauðið þegar það kemur úr ofninum og setjið aftur inn í ofn í um 3 mínútur eða þar til osturinn bráðnar aðeins.
- Hrærið saman söxuðum valhnetum, döðlum, hunangi og um ½ tsk. af salti og skiptið á milli brauðsneiðanna.
- Setjið balsamic gljáa yfir hverja snittu.

Mmm… ég fæ sko vatn í munnin við að skrifa þessa færslu, þessar snittur munu koma ykkur skemmtilega á óvart, því get ég lofað!
