
Hvernig væri að setja fisk á pizzu? Ég pantaði mér alltaf geggjaða saltfiskpizzu á veitingastaðnum Slippnum hér fyrir einhverjum árum sem er reyndar ekki lengur á matseðli þar svo ég ákvað að reyna að endurgera hana á einfaldan hátt.

Ég tók eftir skemmtilegu átaki sem Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi fóru með í gang í upphafi árs sem kallast „Fisk í matinn“ og þá mundi ég eftir þessari undursamlegu pizzu eða fizzu eins og þau myndu kalla hana og ákvað að setja þessa hugmynd hingað inn fyrir ykkur. Ég ætla í það minnsta að taka mig á í að elda fiskmeti og hvað þá þegar maður getur laumað því í svona fínan búning!

Saltfiskpizza uppskrift
Uppskrift dugar fyrir 6 pizzabotna
- 6 stykki litlir pizzabotnar frá Hatting
- Um 700 g léttsaltaðir þorskhnakkar
- Pizzasósa
- Rifinn ostur
- ½ laukur
- Svartar steinhreinsaðar ólífur
- Rjómaostur
- Um 10 kirsuberjatómatar
- Klettasalat
- Hvítlauksolía
- Hitið ofninn í 220°C.
- Skerið þorskinn í munnstóra bita, þerrið og penslið með smá hvítlauksolíu.
- Skerið niður lauk og tómata.
- Smyrjið pizzasósu yfir hvern pizzabotn (frosinn), setjið smá rifinn ost yfir allt og raðið því næst saltfiskbitum, tómötum, lauk og ólífum jafnt á hvern botn.
- Stráið smá meiri osti yfir ásamt rjómaosti og bakið í um 16 mínútur.
- Setjið klettasalat yfir þegar pizzurnar koma úr ofninum og hvítlauksolíu eftir smekk.

Hver sagði að mánudagsfiskurinn þyrfti að vera leiðinlegur, hér eruð þið komin með snilldar útgáfu af fljótlegum kvöldverði!
