
Ég óskaði eftir hugmyndum frá ykkur, fylgjendum mínum á Instastory um daginn og nú er ég að vinna í þeim hugmyndalista! Það var meðal annars óskað eftir grænmetisréttum og hér kemur einn dúndurgóður! Mér fannst þetta svo gott lasagna að ég spáði ekki einu sinni í því að það væri ekkert kjöt í því!

Maður á það til í að festast í viðjum vanans og gera alltaf svipaðan mat en ég hvet ykkur sko til þess að prófa að skipta út kjötinu í lasagna og prófa þessa dásemd!

Spínat lasagna uppskrift
Lasagna uppskrift
- 500 g kastaníusveppir
- 900 g spínat (frosið eða ferskt)
- 100 g Sacla basil pestó
- 500 g Ricotta ostur
- Hvít sósa (sjá uppskrift hér að neðan)
- 250 g lasagna plötur
- Rifinn ostur
- Smjör og olía til steikingar
- Salt, pipar og hvítlauksduft
- Hitið ofninn í 200°C.
- Skerið niður sveppina og steikið þá upp úr smjöri/olíu og kryddið eftir smekk, leggið til hliðar.
- Næst má steikja spínatið upp úr vel af olíu og krydda til. Blanda síðan pestó saman við það í lokin og slökkva á pönnunni. Ef þið notið frosið spínat þarf að affrysta það fyrst og pressa aðeins vatninu úr því áður en þið steikið.
- Næst má raða öllu saman.
- Setjið um ¼ af ostasósunni neðst í eldfast mót.
- Næst koma lasagnaplötur og 1/3 af Ricotta, spínati og sveppum.
- Síðan er þetta endurtekið og restin af ostasósunni sett yfir spínatið og sveppina í lokin ásamt vel af rifnum osti.
- Bakið í um 40 mínútur, gott að hafa álpappír yfir fyrstu 30 mínúturnar og svo leyfa ostinum aðeins að gyllast í lokin.
Hvít sósa uppskrift
- 70 g smjör
- 30 g hveiti
- 400 ml nýmjólk
- 200 ml grænmetissoð
- 30 g rifinn parmesanostur
- Salt og pipar
- Bræðið smjör í potti við miðlungs hita og setjið síðan hveitið saman við til að búa til smjörbollu.
- Hellið þá mjólk og soði hægt saman við og hrærið stanslaust í með písk á meðan.
- Að lokum má setja parmesan ostinn saman við og hræra þar til hann bráðnar og síðan krydda til með salti og pipar.

Þetta er hinn fullkomni kvöldmatur og ég var með gróf lítil smábrauð með sem ég keypti frosin.
