
Rækjusalat er eitt það besta sem hann Hemmi minn fær og ég var að átta mig á því að slíkt hef ég aldrei sett hingað inn. Þetta er auðvitað algjör klassík og við vorum með fjölskyldu bröns núna um helgina og buðum meðal annars upp á þessi ljúffengu rúnstykki með rækjusalati.

Stundum gleymir maður svona „gömlum og góðum“ uppskriftum en hér er þessi dásemd komin fyrir ykkur að njóta.

Rækjusalat uppskrift
- 5 harðsoðin egg
- 300 g rækjur
- 2 tsk. sítrónusafi
- 170 g majónes
- 1 msk. söxuð steinselja
- 1 tsk. karrý
- 1 tsk. Aromat
- ½ tsk. pipar
- Spelt rúnstykki frá Hatting
- Affrystið rækjurnar, skolið, þerrið vel og kreistið sítrónusafann yfir þær og geymið í stórri skál.
- Skerið eggin með eggjaskera og setjið restina af hráefnunum saman við rækjurnar í skálinni (fyrir utan rúnstykkin auðvitað).
- Blandið öllu varlega saman með sleikju og geymið í kæli fram að notkun.
- Hitið Hatting rúnstykkin samkvæmt leiðbeiningum á pakka og njótið með rækjusalatinu.

Þessi speltstykki frá Hatting eru virkilega góð, dúnamjúk að innan og örlítið stökk að utan, namm! Krakkarnir fengu sér þau líka bara með smjöri og osti og kunnu vel að meta.
