
Heimagerður hummus er eitthvað sem ég hef ætlað að útbúa óralengi! Eftir mína fyrstu heimsókn á Mandí með Írisi Huld vinkonu þar sem hún keypti dásamlegan jalapeño hummus með „pita-chips“ fékk ég þetta á heilann. Ég varð því að prófa þetta við fyrsta tækifæri og eftir að hafa gúglað alls konar og skoðað heimagerðar pítuflögur varð þetta útkoman….og hún er sko alls ekki af verri endanum skal ég segja ykkur!

Það er ofureinfalt að skella í hummus. Það fer bara allt í blandarann og búmm, tilbúið til skreytingar!

„Pita Chips“ eða pítuflögur eru síðan mjög góðar með hummus. Með því að taka í sundur pítubrauð, pensla með olíu, skera í þríhyrninga og baka í ofni eruð þið komin með stökkar og geggjaðar slíkar flögur!

Heimagerður jalapeño hummus og „pita-chips“
„Pita-chips“ uppskrift
- 1 pakki Hatting pítubrauð (6 stk)
- 150 virgin ólífuolía
- 1 tsk. salt
- 1 tsk. hvítlauksduft
- 1 tsk. paprikuduft
- ½ tsk. pipar
- ½ tsk. sumac krydd
- Hitið ofninn í 200°C.
- Takið brauðin í sundur svo úr verði tvær þynnri sneiðar.
- Pískið ólífuolíu og krydd saman í skál.
- Penslið báðar hliðar á brauðinu með vel af olíu.
- Skerið síðan hvert brauð í 8 hluta (eins og pizzu), raðið í ofnskúffu (það þarf 2 skúffur) og bakið í 10-18 mínútur.
- Brauðin eru misþykk svo gott er að taka skúffuna út eftir 10 mínútur og taka þær flögur sem eru orðnar stökkar úr ofninum en setja svo restina aðeins inn aftur.
- Leyfið flögunum að kólna alveg á grind áður en þið njótið þeirra.
Jalapeño hummus uppskrift
- 2 dósir kjúklingabaunir (2 x 400 g)
- 80 ml safi af kjúklingabaununum
- 2 hvítlauksgeirar
- 1 x jalapeño
- 1 lúka af kóríander
- 40 ml virgin ólífuolía
- 2 msk. Tahini
- ½ sítróna (safinn)
- 1 lime (safinn)
- 1 tsk. salt
- Paprikuduft, olía, pipar, Sriraca sósa og nokkrar kjúklingabaunir til skrauts.
- Skerið hvítlaukinn gróft niður, fræhreinsið jalapeñoið og skerið það einnig gróft niður.
- Setjið síðan allt saman í blandarann (geymið nokkrar kjúklingabaunir til skrauts) og blandið þar til hummus mauk hefur myndast. Það þarf aðeins að skafa niður á milli til að ná mjúkri áferð.
- Setjið í fallega skál og skreytið með smá olíu, baunum, Sriraca sósu og kryddum.
- Njótið með nýbökuðum flögum.

Þetta er alveg fáránlega gott og ekki skemmir fyrir að það er hollt líka!

Mmmm….
