
Stuðlagil er náttúruundur sem hefur verið lengi á óskalistanum að skoða. Á hringferðinni okkar í sumar hittum við vinafólk okkar á Egilsstöðum og áttum með þeim dásamlegan dag þar sem við gengum að Stuðlagili og gerðum fleira skemmtilegt. Mikið sem þetta er fallegur staður og ég hvet ykkur eindregið til að gefa ykkur tíma til að skoða hann ef þið eruð á ferðalagi um Austurland.

Við nestuðum okkur upp á Egilsstöðum og héldum af stað inn að Stuðlagili. Við keyrðum inn að Klausturseli og nú er búið að gera bílastæði þar innan við bæinn (hinumegin við ána) svo gönguleiðin er ekki nema um 6-7 km fram og tilbaka. Við sem sagt keyrðum niður að Klausturseli, yfir brúna og keyrðum meðfram hlíðinni að því nýja bílastæði. Fljótlega eftir að við hófum gönguna komum við að Stuðlafossi. Hann er fallegur en það var þó ekki mikið vatn í honum þennan daginn, enda sólin búin að skína vel á Austfjörðum þetta sumarið.

Við vorum með fimm börn á aldrinum 4-13 ára með okkur og stóðu þau sig eins og hetjur á leiðinni. Þau vissu reyndar að nesti úr bakaríinu biði þeirra á endastöð svo kannski hafði það áhrif, hahaha! Gönguleiðin er hins vegar fremur auðveld. Það er stígur nánast alla leiðina og gangan mestmegins bara á jafnsléttu.

Ég mæli með því að gefa sér tíma við gilið. Það þarf aðeins að príla til að komast á þennan „myndatökustað“ en allan daginn þess virði. Það þarf líka aðeins að bíða því það eru margir sem vilja komast að og ná mynd sem þessari, búið ykkur því undir það að þetta geti tekið smá tíma.

Aldrei þessu vant þá náðist ég á filmu, þó ekki væri nema bakhlutinn, hahaha!

Elín Heiða fær sér sopa úr ánni. Við gengum niður að gilinu á tveimur stöðum því það er svo gaman að sjá það frá mismunandi sjónarhornum.

Eftir gönguna kíktum við á Seyðisfjörð þar sem við fengum okkur kaffi og röltum um þennan fallega bæ. Regnbogagatan við kirkjuna var að sjálfsögðu heimsótt og það gekk misvel að ná myndum þar, haha!

Eftir skemmtilega heimsókn á Seyðisfjörð héldum af stað inn á Egilsstaði aftur.

Krakkadúllurnar okkar!

Næst á dagskrá var að snæða kvöldmat og fórum við á veitingastaðinn Glóð á Egilsstöðum.

Þar eru guðdómlegar veitingar undir ítölskum áhrifum. Pasta-, fisk- og kjötréttir ásamt pizzum ásamt fleiru spennandi er þar að finna og þetta var hvert öðru betra. Það voru allir orðnir vel svangir eftir langan dag svo það var ýmislegt smakkað. Síðan fannst stærri krökkunum, já og pöbbunum ekkert leiðinlegt að geta skellt sér í „Pool“ á meðan beðið var eftir matnum á meðan þær minnstu lituðu.

Mmmm ég væri alveg til í að geta skroppið aðeins á Glóð núna til að panta mér eina „Saporita“ pizzu…..en eftir að hafa gúglað aðeins, þá tekur það ekki nema 7, 5 klukkustundir að komast þangað svo…….ætli ég verði ekki að eiga það inni þar til í næstu hringferð!

Deginum okkar var síðan slúttað í Vök Baths og með fimm gríslinga sem hafa endalausa orku var þetta sirka bát stemmingin á okkur þrátt fyrir að ein og ein „glansmynd“ hafi náðst á filmu þess á milli….p.s pabbarnir földu sig á sundlaugarbarnum á meðan, hahahaha!
