Vík í Mýrdal



Kvernufoss

Jæja ég held nú barasta að það sé löööööngu kominn tími á að ég setji hingað inn efni úr sumarfríinu! Þetta sumar frussaðist áfram á ljóshraða og verkefnin í kringum sumarfrí og aðra gleði voru hreinlega allt of mörg til þess að ég gæfi mér tíma til að setjast niður og deila með ykkur hugmyndum úr fríinu.

Við fórum semsagt „Hringinn“ í sumar og ferðuðumst innanlands annað sumarið í röð sökum Covid. Að þessu sinni ákváðum við að skoða staði á Suður- og Austurlandi sem við höfum ekki skoðað áður eða langt síðan við fórum síðast. Við fengum alls konar veður, það var vel blautt og síðan fengum við líka sól og hita. Það er eitthvað sem þarf að búast við þegar ferðast er um Ísland svo í bílnum er allt frá stuttbuxum að snjógalla liggur við, hahaha!

Mig langar að skipta þessari ferð niður í nokkrar styttri færslur til að gefa ykkur hugmyndir og hér kemur umfjöllun um Vík í Mýrdal og nágrenni.

Kvernufoss

Við lögðum af stað úr Mosfellsbænum og ákváðum að skoða Kvernufoss í stað þess að stoppa við Seljalandsfoss eða Skógarfoss eins og svo oft áður. Kvernufoss er rétt við Skógarfoss, beygt er inn sama afleggjara nema lagt er við Skógasafn þaðan sem gengið er upp að fossinum (frá enda bílastæðisins). Þvílík fegurð og svo gaman að koma á nýja staði. Ekki var gönguleiðin upp að fossinum síðri, áin svo tær og blá og klettabeltið fallegt. Við gengum að sjálfsögðu bakvið fossinn og stelpunum þótti það spennandi.

Kvernufoss

Við Hemmi fórum í jökulgöngu á Sólheimajökli í vor og vorum staðráðin í því að koma þar við á hringferðinni og sýna stelpunum hvar jökullinn gengur niður því það er svo fallegt þar.

Sólheimajökull

Veðrið var milt og stelpurnar létu rigninguna ekki stöðva sig og gengu með okkur upp að jöklinum. Eins gott að stígvélin voru með í för segi ég nú bara, hahaha!

Ellingsen fatnaður við Sólheimajökul
Fatnaður – Ellingsen #samstarf

Hulda Sif litli grallari við Sólheimajökul. Það tekur ekki nema örfáar mínútur að keyra upp að bílaplaninu frá þjóðveginum og svo myndi ég segja þetta sé kannski um 15 mínútna ganga hvora leið og gott að viðra sig aðeins á ferðalaginu. Það er hugsa ég jafn fallegt að koma þarna við hvort sem það er sumar, vetur, vor eða haust svo endilega setjið þetta stopp inn hjá ykkur í næstu ferð.

Sólheimajökull view point

Við héldum síðan ferðinni áfram og langaði til að ganga niður að flugvélaflakinu á Sólheimasandi eða Plane Wreck eins og erlendu ferðamennirnir kalla þetta. Það var mígandi rigning og við sátum um stund í bílnum og hugsuðum hvort við ættum að láta vaða eða ekki. Mér fannst ég hafa lesið einhvers staðar að þetta væri um 1,5 km hvora leið svo við Elín Heiða ætluðum að „skjótast“ þetta á meðan pabbi og Hulda biðu í bílnum.

Plane Wreck Sólheimasandur

Þegar við vorum búnar að græja okkur í regnfötin komum við hins vegar að skiltinu við gönguleiðina sem sagði að þetta væru rúmir 7 kílómetrar fram og tilbaka! Þrjóskuhausarnir við ákváðum hins vegar að ganga bara hratt og hálfpartinn skokka hluta af leiðinni og þá gæti þetta ekki tekið svo langan tíma, hahaha. Við gengum í grenjandi rigningu alla leiðina og að okkar mati er þetta ekki endilega áhugaverðasti staðurinn sem hægt er að heimsækja en auðvitað gaman að hafa séð þetta svona eftirá, eins og með allt. Kannski hafði veðrið áhrif og þetta eflaust bara fínasta ganga í góðu veðri.

Plane Wreck Sólheimasandur

Við komum rennblautar inn í bíl og ákváðum að vera ekkert að skipta um föt því það styttist í að við kæmumst á hótelið. Við komum næst við hjá Dyrhólaey en það var hins vegar ekki hægt að keyra upp á hæðina til þess að sjá útsýnið frá besta mögulega stað þar sem viðgerðir stóðu yfir.

Dyrhólaey

Útsýnið er þó fallegt víða þarna um kring og góðir göngustígar um svæðið.

Blautir ferðalangar tékkuðu sig næst inn á hótel og hengdu upp blaut föt.

Hótel Kría Vík í Mýrdal

Við gistum á Hótel Kríu í tvær nætur og verð ég að segja að það hótel er alveg til fyrirmyndar. Bæði herbergið, maturinn á veitingastaðnum og þjónustan, allt upp á 10!

Hótel Kría Vík í Mýrdal

Þegar við höfðum skipt um föt og komið okkur fyrir á herberginu tókum við rúnt um Vík. Það er ýmislegt fallegt að sjá frá fjörunni, á Vík er að finna söfn, veitingastaði og afþreyingarfyrirtæki.

Við römbuðum næst inn á veitingastað sem heitir Smiðjan Brugghús og settumst þar niður í kvöldverð.

Smiðjan brugghús Vík í Mýrdal

Á Smiðjunni er bæði brugghús og veitingstaður og pabbinn var hæstánægður með bjórsmakkið!

Smiðjan brugghús Vík í Mýrdal

Við duttum öll í mismunandi hamborgara og annað gúmelaði og voru allir orðnir vel svangir eftir langan dag á flandri.

Smiðjan brugghús Vík í Mýrdal

Maturinn var svo góður að við borðuðum hreinlega yfir okkur. Allir fóru því saddir og sælir að sofa þennan daginn.

Hótel Kría Vík í Mýrdal

Morguninn eftir var notalegt að vakna á þessu fallega hóteli og fá sér góðan morgunverð fyrir ævintýri dagsins.

Zip line Iceland Vík í Mýrdal

Dagurinn byrjaði á því að Hemmi og Elín Heiða fóru í zipline ferð með Zip-Line Iceland og getur Hulda ekki beðið eftir því að verða nógu stór til að mega fara með! Hér fyrir neðan getið þið séð skemmtilegt Reels myndband af þessu ævintýri.

Zip line Iceland Vík í Mýrdal

Næst lá leiðin í Scool Beans Café en það er eitt mest krúttaða kaffihús landsins myndi ég segja og er staðsett við tjaldsvæðið á Vík.

Scool beans cafe Vík í Mýrdal

Stelpurnar fengu sér heitt kakó og gúmelaði og er mikil upplifun að koma þarna inn.

Scool beans cafe Vík í Mýrdal

Yoda Cave var næsti áfangastaður en það er fallegur hellir við Hjörleifshöfða sem minnir einna helst á Yoda úr Star Wars myndunum. Það var hægt að keyra nánast alveg upp að hellinum svo við mælum með því að kíkja þarna við og sjá hversu fallegur þessi hellir er.

Yoda Cave

Þrátt fyrir að veðrið væri ekki alveg að vinna með okkur ákváðum við að reyna að halda því plani sem við vorum búin að gera eins og við gátum. Það væri hvort eð er ekkert gaman að hanga bara inni á hótelherbergi og svo er rigningin bara alveg ágæt ef maður klæðir sig rétt! Sérlega þegar hægt er að komast inn á hlýtt hótelherbergi og hengja allt blautt af sér á ofna og hafa það huggulegt eftir ævintýri dagsins. Hefði kannski ekki alveg nennt að vera í tjaldi á þessum tímapunkti, tíhí!

Zip line Iceland Vík í Mýrdal
Fatnaður – Ellingsen #samstarf

Okkur hefur lengi langað að koma í Þakgil og ákváðum að rúnta þangað uppeftir þennan dag og rölta aðeins um.

Zip line Iceland Vík í Mýrdal

Þessi staður er undurfallegur og klárlega á to-do listanum að heimsækja hann aftur síðar…í vonandi aðeins þurrara veðri, haha!

Zip line Iceland Vík í Mýrdal

Við rúlluðum tilbaka á hótelið síðdegis þennan dag, hvíldum okkur aðeins og höfðum okkur síðan til fyrir kvöldverð.

Hótel Kría Vík í Mýrdal

Almáttugur hvað við fengum góðan mat á Drangar Restaurant á hótelinu. Þetta var alveg fimm stjörnu og yndislegt að sitja á þessum fallega veitingastað og borða ljúffengar veitingar eftir langan og blautan dag! Stelpurnar voru með liti og litabók með sér svo við sátum frameftir og höfðum það huggulegt.

Hótel Kría Vík í Mýrdal

Næsta dag lá leiðin áfram austur, nánar tiltekið á Höfn í Hornafirði…..meira um það ferðalag í næstu færslu!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun