
Næsti áfangastaður okkar á hringferðinni eftir Vík í Mýrdal var Höfn í Hornafirði. Við höfum hingað til alltaf keyrt framhjá þeim afleggjara og ekki stoppað svo loksins létum við verða af því að gista á Höfn og það var dásamlegt.

Það voru nokkrir áfangastaðir sem við vorum með plön um að heimsækja á leiðinni frá Vík til Hafnar en rigningin var enn í fullum blóma svo stoppin urðu styttri og færri en til stóð. Við komum aðeins við í Fjarðárgljúfri en gengum ekki upp með gljúfrinu eins og við höfum gert áður.

Kirkjugólfið á Kirkjubæjarklaustri var heimsótt ásamt Stjórnarfossi.

Stjórnarfoss er fallegur foss og höfðum við einmitt séð fyrir okkur að stoppa þar með teppi og nesti og fara út í að baða okkur og sulla……eeeeeeeeeeeeeen, það bíður betri tíma, hahaha!

Við ætluðum síðan næst að ganga upp að Svartafossi í Skaftafelli en þangað er undurfallegt að koma. Það var svo svakaleg rigning akkúrat þá að við fengum bátsferðinni okkar um Fjallsárlón flýtt og keyrðum framhjá fallega Svartafossi en ég lofa ykkur umfjöllun um hann síðar. Hér fyrir neðan má sjá Instagram Reels myndband af ferðinni.
Þar sem ekkert varð um „pikknikk“ við Stjórnarfoss fengum við okkur síðbúinn hádegisverð á Frost veitingahúsi við Fjallsárlón og þar var notalegt að sitja áður en við fórum í ævintýraleiðangur um lónið. Við fórum í klassískan Zodiac túr með www.fjallsarlon.is og það var alveg magnað að komast svona nærri ísjökunum og jöklinum.

Þvílík fegurð!

Ég tók að venju allt of margar myndir og átti erfitt með að velja úr.

Þessi ísjaki minnti okkur á andlit á sel en engan sáum við þó selinn, en þeir eru þó stundum að synda í lóninu.

Allir fengu galla til að vera í á bátnum svo við sluppum við að bleyta fötin okkar þennan daginn. Ég hins vegar elska að vera með derhúfu á svona dögum því hún virkar eins og regnhlíf fyrir andlitið. Veðrið var milt og lygnt svo við létum rigninguna ekki á okkur fá, Hulda Sif var meira að segja hæstánægð með þessa rigningu, hahaha!

Á leiðinni til Hafnar í Hornafirði komum við síðan við á Þórbergssetri og fengum okkur ís á Brunnhóli en þar er hægt að fá ljúffengan jöklaís.

Við tékkuðum okkur næst inn á Hótel Höfn eftir langan dag. Það rigndi enn þennan daginn og því tókum við því bara rólega og höfðum það huggulegt á hótelinu. Við vorum fjögur á ferðinni og bókuðum því tvö samliggjandi herbergi. Það er frábært þegar slíkt er í boði og leið okkur smá eins og við værum bara í lítilli íbúð og stelpurnar nýttu skrifborðin vel til að lita og leika sér.

Á Hótel Höfn er notaleg og kósý stemming. Við nenntum ekki einu sinni aftur út sökum rigningar og pöntuðum því borð á veitingastaðnum Ósinn, sem staðsettur er á jarðhæðinni á hótelinu fyrir kvöldverð. Við fengum okkur humarsúpu, pizzu, stelpurnar Fish & chips og allt var þetta dásamlega gott. Síðan fórum við bara upp á herbergi að spila og horfa á sjónvarpið og krossuðum fingur að þurr veðurspá myndi rætast næsta dag.

Viti menn, spáin rættist og pollafötin fengu að vera í skottinu næsta dag!

Við tékkuðum okkur næst út af hótelinu og héldum áfram ferðalaginu okkar.

Við höfðum aldrei keyrt niður að Vestrahorni, eða Stokksnesi sem er aðeins austan við Höfn. Ég hafði skoðað margar myndir af þessari fegurð en þrátt fyrir þurrt og bjart veður voru skýin aðeins að stríða okkur og vildu ekki leyfa okkur að sjá drangana fallegu.

Hægt er að kaupa miða í þjónustuhúsinu til að geta keyrt út á nesið og skoðað sig um í fjörunni, sem og við gerðum.

Á meðan við lékum okkur í fjörunni og skoðuðum okkur um tætti himininn hins vegar af sér og við fengum að sjá betur í fallega Vestrahornið.

Ég tók því milljón og eina mynd af þessu ferli öllu saman og ætlaði aldrei að tíma að fara.

Stelpurnar hefðu líka getað verið þarna allan daginn og vildu sulla og moka meira….. svo endilega grípið með fötur, skóflur og slíkt og leyfið börnunum að leika þarna í sandinum.

Áður en við héldum áfram kíktum við á Víkingaþorpið en það er gömul leikmynd sem gaman er að skoða.

Skútafoss var næsta stopp. Það tekur um 10-15 mínútur að keyra að Skútafossi frá Vestrahorni svo gott er að fylgjast vel með litlum afleggjara yfir veginn til vinstri, fljótlega eftir að komið er út úr göngunum því hann er ekki merktur við veginn. Lítið bílastæði er síðan fljótlega eftir að beygt er inn afleggjarann og gangan er um 1 km löng (athugið að ekki sést í fossinn frá veginum).

Við gengum upp með fossinum og bakvið hann og fannst stelpunum það mjög skemmtilegt.

Næsta stopp var Djúpivogur þar sem við skoðuðum eggin í Gleðivík, það er virkilega skemmtilegt og fróðlegt.

Næst lá leiðin á Stöðvarfjörð og síðan Eskifjörð….meira um það síðar!