
Við vinkonurnar fórum í smá húsmæðraorlof á dögunum, já það er mjööööög nauðsynlegt að fara reglulega í slík orlof og við erum bara þokkalega duglegar við það! Að þessu sinni fórum við á Flúðir og ég ætla að gefa ykkur skemmtilegar hugmyndir af afþreyingu með því að segja ykkur hvað við brölluðum sniðugt. Við reynum alltaf að fara í 3 nætur og bæði byrja snemma fyrsta daginn og dúllast aðeins frameftir á heimfarardegi. Með þessu móti finnst okkur við alveg vera búnar að vera í viku í burtu þegar við rúllum heim á leið, mæli með!

Stelpurnar byrjuðu á því að bjóða mér óvænt í SkyLagoon sem var yndisleg byrjun á deginum. Þær höfðu farið þangað á meðan ég var að brölta upp á Hvannadalshnúk nokkrum dögum áður og fannst ég verða að fara þangað með þeim svo þær fóru aftur og tóku mig með í þetta skiptið dúllurnar, tíhí, heppna ég!

Þetta er æðislegur staður og ég mun án efa fara þangað aftur með fjölskylduna síðar.

Áður en við brenndum úr bænum stoppuðum við í Sælkerabúðinni til þess að sækja kvöldmatinn fyrir næstu tvö kvöld. Við ákváðum eins og svo oft áður að hafa sem minnst fyrir húsverkum og tríta okkur vel með veitingum. Það er bara svo dásamlegt að borða góðan mat, spjalla og þurfa ekkert að hugsa um húsverk, barnauppeldi eða annað slíkt í nokkra daga. Við pöntuðum smárétti í kvöldmat annað kvöldið sem voru alveg sjúklega góðir og síðan vorum við með humarsúpu næsta kvöld sem var alls ekki síðri.

Næst lá leiðin á Selfoss þar sem við fórum í „late löns“ á veitingastaðnum Krisp en hann er í algjöru uppáhaldi hjá okkur öllum síðan í síðasta húsmæðraorlofi! Við elskum að panta okkur fullt af smáréttum/forréttum og deila síðan, mæli sannarlega með því!

Eftir góða máltíð versluðum við inn á Selfossi og renndum næst á Flúðir en þar gistum við hjá Nortia Luxury Apartments í yndislegri íbúð. Húsið er nýtt, allt svo snyrtilegt, Almar bakari á neðri hæðinni (já ekki slæmt það), Frisbígolfvöllur í bakgarðinum, leiksvæði og alveg hreint dásamlegur staður. Við vorum allar á einu máli um það að við þyrftum að koma með börn og eiginmenn með okkur næst og vera í fjórum íbúðum hlið við hlið því það er ótrúlega margt fjölskylduvænt hægt að gera í nágrenninu!

Það eru uppábúin rúm, handklæði, stórar svalir með grilli og allt til alls á staðnum til þess að hafa það notalegt.

Síðan er hægt að sitja á svölunum og fá sér kaffisopa með útsýni yfir leiksvæðið og guðsgræna náttúruna!

Við vorum duglegar að fara í göngutúra, borða, horfa á stelpulegar myndir og hafa það huggulegt. Við komum með fullan pallbíl af dóti og hlógum mikið þegar við vorum að koma okkur fyrir í íbúðinni, það var án gríns eins og 10 konur væru mættar í mánaðarlangt frí, hahaha!
Við höfum haft það að venju að útbúa „Goody-Bag“ fyrir svona ferðir og að þessu sinni fengum við þægilegustu kósýföt heims að gjöf frá Boody Iceland ásamt krúttlegasta Múmínbollanum frá Ásbirni Ólafssyni, heppnar við! Takk svoooo mikið fyrir okkur!

Fötin frá Boody eru dásamlega falleg, mjúk og umhverfisvæn. Ég hef ekki farið úr þessu kósýdressi síðan ég fékk það og náttfötin eru æði! Það má síðan auðvitað blanda saman víðum buxum við hlýrabol eða hvernig sem ykkur langar að mixa þessum yndislegu fötum! Boody vörurnar fást til dæmis í Hagkaup, Fjarðarkaup, Nettó og Heimkaup.

Smáréttirnir frá Sælkerabúðinni slógu heldur betur í gegn fyrsta kvöldið okkar en kvöldmaturinn var held ég um klukkan 22:00 hjá okkur eftir flandur dagsins, en það má allt í svona ferðum, líka að hafa kvöldmatinn nálægt miðnætti, haha!

Næsta dag byrjuðum við á því að fara í golf á Flúðum! Við erum allar byrjendur í golfi, sumir búnir að kaupa sér fínni kylfur en aðrir, sumir aldrei slegið bolta og allt þar á milli. Við erum þó allar sammála um það að okkur langar að byrja að spila golf og þurfum því að girða okkur í brók og fara að hendast í kennslu, þiggjum öll meðmæli! Við fórum fyrst á æfingasvæðið og hituðum upp og fannst við alveg merkilega góðar bara, haha! Síðan fórum við 9 holur á vellinum og það var virkilega gaman. Golfvöllurinn á Flúðum er mjög fínn og mikið sem ég hlakka til að koma aftur síðar.

Eftir allt golfið vorum við orðnar svangar og settumst í sól og blíðu á pallinn í Golfskálanum og pöntuðum okkur mat. Þegar við vorum við það að fara úr peysunum til að sóla okkur kom haglél, já HAGLÉL! Við forðuðum okkur því inn á Kaffi Sel og nutum dýrindis veitinga þar, skoðuðum golffatnað í símunum til að sjá hvers er að vænta hjá okkur á næstunni og höfðum það huggulegt.

Eftir golfið var komið að næsta áfangastað en það var Gamla Laugin á Flúðum, eða Secret Lagoon!

Þar fengum við okkur drykk og slökuðum á eftir „átökin“ í golfinu!

Það er eitthvað svo sjarmerandi að vera þarna ofan í, horfa á reykinn úr lauginni og njóta.

Okkur leiddist ekki sérstaklega þarna frekar en annars staðar og mikið sem ég er heppin að eiga þessar konur í mínu lífi sem nenna endalausri vitleysu!

Eftir Gömlu Laugina fórum við upp í íbúð, hituðum okkur dýrindis humarsúpu frá Sælkerabúðinni og lágum síðan á sófanum og horfðum á sjónvarpið frameftir með nóg af nammi og kósýheitum!

Næsta dag fórum við í smá „Roadtrip“ um nærliggjandi sveitir.

Við byrjuðum á því að fara í hádegismat á Geysi Glímu (já við ætluðum alls ekki að svelta í þessari ferð!). Við fjölskyldan höfum stoppað þar reglulega, hvort sem það er fyrir hádegisverð eða kaffi og það er allt svo fallegt og huggulegt þarna inni að maður tímir varla að fara af stað aftur!

Við fengum okkur dásamlega súpu, smurt brauð, pizzu og auðvitað kökur í eftirmat með kaffisopa, allt svoooo gott!

Við röltum næst á Geysissvæðið hinum megin við götuna því maður fær aldrei leið á því að sjá þá fegurð og Strokkinn gjósa nokkrum sinnum! Vorkenni bara túristunum sem koma bara einu sinni til Íslands og geta ekki séð þetta náttúruundur aftur og aftur eins og við heppnu Íslendingarnir. Myndatökur heppnuðust misvel eins og þið sjáið á ofangreindum myndum, hahahaha!

Það lá beinast við að renna upp að Gullfossi næst sem og við gerðum. Því miður var þó stígurinn þangað niðureftir lokaður svo við urðum að láta það duga í þetta skiptið að sjá hann úr fjarska.

Haukadalsskógur er síðan dásamlegur staður til að fara í gönguferð eða lautarferð. Við fórum því þangað eftir fossaskoðun, löbbuðum góðan hring í þessum fallega skógi og fundum okkur næst fallegan stað til þess að setjast niður á og fá okkur bubblur og jarðarber í sólinni. Við höfuðum rölt yfir í Silfurtún frá íbúðinni okkar á Flúðum og keypt þau dásamlegu jarðarber sem þar fást. Þau voru síðan súkkulaðihjúpum um morguninn og tekin með í skál, hversu miklar lúxuspíur segi ég nú bara!

Við rúlluðum næst yfir að Brúarfossi en það er undurfallegt svæði við Brekkuskóg. Sé gengið frá planinu við þjóðveginn er hvor leið um 3 km eða samtals 6 km ganga.

Gangan er sannarlega þess virði og ef þið hafið ekki séð þessa náttúrufegurð mæli ég eindregið með því að kíkja þangað.

Við vorum ekki á bakaleið fyrr en um kvöldmatarleyti þennan dag og héldum við gætum bara komið við á hvaða veitingastað sem er á heimleiðinni en það var ekki alveg raunin, hahaha! Alls staðar var fullt þar sem fjöldatakmarkanir voru enn í gangi en við vorum heppnar og náðum að bóka borð á hótelinu á Flúðum. Við hoppuðum því upp í íbúð og skiptum um föt og röltum þangað yfir í kvöldverð.

Næst var komið að heimfarardegi og eins og ég nefndi í upphafi færslunnar reynum við alltaf að dúllast aðeins frameftir á þeim degi. Að þessu sinni pökkuðum við í bílinn og keyrðum í hádegismat á veitingastaðnum Mika í Reykholti. Þar hef ég komið áður og veitingarnar eru frábærar, hvort sem þig langar í lúxus bubblur og handgert konfekt, framandi og spennandi rétti eða hreinlega pizzu og bjór, svo mikið er úrvalið hjá þeim hjónum!

Humarsalatið þar er guðdómlegt, sveppirnir á forréttaseðlinum, djúpsteikti humarinn og og og og…..

Þarna sátum við því dágóða stund og nutum dýrindis veitinga eins og okkur einum er lagið. Það er auðvitað algjör óþarfi að svelta í svona ferð, muhahaha!

Næst lá leiðin í Sólheima en þangað finnst mér yndislegt að koma. Þar er gaman að rölta um, oft eru sýningar í Sesseljuhúsi og margt skemmtilegt að sjá. Þar er einnig krúttleg gönguleið í skóginum og oftar en ekki höfum við fjölskyldan stoppað í kaffi á kaffihúsinu. Við vorum hins vegar ekki orðnar svangar aftur, merkilegt nokk, svo við létum það duga að sinni að rölta um og skoða.

Það má finna ýmislegt skemmtilegt og sumar versluðu sér fallega rjúpu á meðan aðrar fundu golfpoka til að setja upp í „Man-Cave-inum“ í Gullabúð, hversu mikil snilld!

Við lokuðum síðan helginni með því að viðra okkur við Kerið, gengum þangað niður og upp aftur og síðan heim á leið eftir frábæra helgi.
Ég mæli SVOOOOOO mikið með svona fríum og vonandi geta þessar hugmyndir hér að ofan aðstoðað ykkur við að plana skemmtilegt frí!