Stórurð gönguleið



Þegar við vorum á ferðalagi okkar um Austurland í sumar gengum við fjölskyldan að Stórurð í Borgarfirði Eystri. Við vorum næstum því hætt við þar sem verðurspáin var ekki að bjóða upp á mikið útsýni þennan dag og við vissum ekki hvort við ættum að treysta okkur með stelpurnar í þessari þoku og sudda. En við ákváðum að ganga af stað og þá bara snúa við ef okkur litist ekki á blikuna. Veðrið var nefnilega milt og lygnt þrátt fyrir að vera blautt, kalt og þokukennt.

Það eru nokkrar leiðir sem hægt er að ganga að þessari fegurð, hægt að lesa nánar um þær hér á vef sveitarfélagsins. Við fórum „Njarðvíkurleiðina“ svokölluðu en hún er um 10 km að lengd og með rúmlega 500 m uppsafnaðari hækkun. Einnig er sú leið stikuð alla leið frá bílastæðinu svo í þessu skyggni leist okkur best á þá leið. Elín Heiða, 12 ára gekk alla leið, fram og tilbaka á meðan Hulda Sif, 4 ára gekk hluta leiðarinnar sjálf og pabbi hennar hafði hana í göngupoka þess á milli. Við vorum í tæpa 4 tíma í heildina með nestistoppum og vesenispásum! Reyndar skokkuðum við hálfpartinn hluta af bakaleiðinni þegar allir voru að verða blautir og kaldir til að komast sem fyrst í bílinn, og pabbinn með Huldu á bakinu! Á góðum degi mætti því alveg reikna með lengri tíma í þessa göngu með börn meðferðis.

Lítill herforingi brattur á byrjunarreit…..

….skömmu síðar! Hún sofnaði í göngupokanum og ég get ekki horft á hálsinn allan beyglaðan og ómögulegan svo ég var með trefil sem ég batt á ennið á henni og aftur fyrir bak á pokanum til að halda höfðinu uppi.

Lítill álfur í ævintýraferð. Aðeins á Íslandi tekur maður dúnúlpu og vetrarfatnað með í SUMARFRÍIÐ!

Þegar við nálguðumst Urðina þurfti að finna leið til að komast yfir smá læk áður en upp í hana yrði gengið. Með því að ganga vel til vinstri þegar niður að læknum var komið, komumst við yfir á stórum steinum án þess að þurfa að vaða eða bleyta okkur og síðan gengum við aftur til hægri þegar yfir var komið til að finna stikuðu leiðina að nýju.

Þegar upp er komið blasir þessi fegurð hins vegar við og fær mann til að gleyma stund og stað, burt séð frá skyggni. Hægt er að ganga allan hringinn um Urðina en við gerðum það hins vegar ekki að þessu sinni en munum klárlega prófa það næst.

Það er ákveðin dulúð að koma að svæðinu í þoku og logni, mjög ævintýralegt og fallegt. Dyrfjöllin fallegu sáum við þó ekki svo við eigum það inni þar til síðar.

Nestispásur eru mjög mikilvægar í svona gönguferðum.

Alveg að verða komin tilbaka!

Víst við vorum síðan komin alla leið í Borgarfjörð Eystri var auðvitað ekki annað í boði en kíkja í Borgarfjarðarhöfn og heimsækja lundana sem þar búa yfir sumartímann.

Það er alveg magnað hvað það er hægt að komast nálægt þeim.

Fatnaður frá Ellingsen #samstarf

Ætluðum aldrei að tíma að fara, þrátt fyrir bleytu og sudda.

Það er hins vegar gott að vita að lundinn er aðeins á svæðinu frá byrjun apríl til byrjun ágúst svo það er gott að hafa það í huga ef þið eruð að skipuleggja ferðalag austur og viljið sjá þessar dúllur.

Fallegur!

Lindarbakki í Bakkagerði er fallegur torfbær sem vert er að heimsækja á þessum slóðum.

Takk fyrir okkur fallegi….og blauti þennan daginn, Borgarfjörður Eystri!

Á bakaleiðinni inn í Hallormsstað þar sem við gistum var að finna þetta skemmtilega svæði. Inn í græna kofanum er að finna nammi- og gossjálfssala og að sjálfsögðu fengu allir að fá sér eitthvað gómsætt fyrir áframhaldandi bílferð.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun