Ekki spyrja mig af hverju þessi uppskrift er ekki löngu komin hingað inn fyrir ykkur. Þetta er auðvitað algjör klassík, súpereinfaldur réttur sem allir elska!

Betra seint en aldrei segir þó einhvers staðar svo hér kemur mín útgáfa af þessari annars margbreytilegu uppskrift.

Það eru margir sem halda að það sé rjómi í spaghetti carbonara og sumir setja rjóma í hana. Ef maður horfir hins vegar á upprunann vilja þeir meina að það sé algjörlega bannað að nota rjóma, bara egg og ostur, blandað þar til það verður örlítið „creamy“.

Spaghetti Carbonara uppskrift
Uppskrift fyrir um 4 manns
- 400 g Dececco spaghetti
- 200 g beikon
- 50 g smjör
- 3 hvítlauksrif
- 3 egg
- 40 g rifinn parmesan ostur + topping
- 40 g rifinn pecorino ostur + topping
- Salt og pipar
- Sjóðið spaghetti í vel söltu vatni þar til „al dente“ (10-12 mínútur).
- Á meðan má klippa niður beikonið, merja hvítlauksrifin heil og steikja hvorutveggja upp úr smjörinu við meðalháan hita þar til beikonið verður stökkt.
- Rífið einnig niður ostana og pískið eggin í sér skál og piprið eftir smekk, geymið.
- Þegar spaghetti er tilbúið má veiða það upp úr pottinum og setja beint á pönnuna með beikoninu (fjarlægið fyrst hvítlauksrifin) og velta því vel upp úr beikonfeitinni.
- Takið næst af hellunni (eða hafið áfram á henni á lágum hita), setjið ostinn og pískuð eggin á pönnuna og veltið öllu um í 1-2 mínútur eða þar til rjómakennd sósa hefur myndast. Ef ykkur finnst sósan of þurr má setja smá pastavatn saman við. Varist einnig að hafa spaghetti á of heitri hellu þegar þið hellið eggjunum og ostinum saman við því þá eldast eggin of hratt og kekkjast/verða að eggjahræru en ekki sósu.
- Berið strax fram með rifnum parmesan/pecorino osti, salti og pipar.

Ískalt rósavín passar einstaklega vel með þessum rétti!

Mmmmm…..

Sorrý myndaspammið, þetta var bara aðeins of girnilegt……
