Piparkökur



Ég hef áður sett inn uppskrift af piparkökum þar sem hægt er að hnoða og baka deigið strax. Pabbi gerði hins vegar alltaf piparkökudeig í potti sem kæla þurfti áður en það væri flatt út. Mig langaði að prófa slíka uppskrift og fann uppskrift á netinu frá gamla leikskólanum mínum á Seltjarnarnesi. Það var því vel við hæfi að prófa að skella í hana og útkoman varð svona líka fín! Ég get ekki gert upp á milli hvor uppskriftin sé betri en þetta deig var aðeins viðráðanlegra en hitt ef eitthvað er og þá sérstaklega fyrir stelpurnar mínar að fletja út.

Piparkökur uppskrift

  • 600gr hveiti
  • 1 ½ dl sýróp
  • 75 gr smjörlíki
  • 1 ½ dl sykur
  • 1 ½ dl púðursykur
  • 1 ½ dl mjólk
  • 3 tsk kanill
  • 2 tsk engiferduft
  • 3 tsk negulduft
  • ½ tsk pipar
  • 4 tsk matarsódi
  1. Smjörlíki og sýróp hitað við vægan hita þar til bráðið.
  2. Öll önnur hráefni sett í hrærivélarskálina  á meðan og blandað saman.
  3. Því næst er bræddu smjör og sýrópi hellt varlega saman við blönduna í hrærivélarskálinni og hnoðað með króknum svolitla stund.
  4. Hveiti stráð á borðflöt og deigið hnoðað í kúlu með höndunum, plastað vel og sett í kæli í amk 3 klst (yfir nótt í lagi).
  5. Bakað við 200° í 5-8 mínútur eða þar til kökurnar verða fallega gylltar.

piparkökur

Glassúr

  • ½ bolli volgt vatn
  • 2 tsk ljóst kornsýróp
  • ½ tsk möndludropar
  • 6 bollar flórsykur

Allt sett saman í hrærivélarskálina og þeytt þar til vel blandað og glansandi (getið sett meira vatn ef þið viljið þynnri eða meiri flórsykur ef þið viljið þykkari glassúr)

Skiptið niður í nokkrar skálar og litið að vild, munið þó að geyma smá hvítan líka þar sem það er svo jólalegt. Hver litur síðan færður yfir í sprautupoka og lítið gat klippt á endann. Svo er bara að fara að föndra og leika sér! Leyfið glassúrnum að þorna yfir nótt og þá er hægt að stafla kökunum svo lengi sem glassúrinn er ekki of þykkur (við höfðum þær kökur bara efst í staflanum).

Dætur mínar dúlluðu sér heillengi við að skreyta kökurnar og út komu þessi líka dásamlegu listaverk!

piparkökur 3

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun