Hann Stefán Kári yndisvinur minn varð sex ára fyrir nokkrum dögum, hvernig sem það má nú vera þar sem hann bara fæddist í gær! Ég dýrka þetta barn og finnst hann einn sá fyndnasti sem til er og hlakka til komandi uppátækja hjá honum!
Foreldrar hans þau Inga og Stefán vinir okkar eru auðvitað snillingar með meiru og ég eeeeeeeelska að koma í veislur til þeirra og að sjálfsögðu er samið um að ég mæti með myndavél og fái að mynda og blogga um herlegheitin.
Þau eru ekki þekkt fyrir annað en að fara ALL-IN þegar að afmælisveislum kemur og þessi veisla var sko engin undantekning! Hér fyrir neðan koma síðan uppskriftir og útfærslur af því sem boðið var upp á.
Rice Krispies kubbar uppskrift
- 50 gr smjör
- 250 gr hvítt candy melts
- 5 msk sýróp
- Rice Krispies
Allt sett saman í pott nema Rice Krispies. Hitað þar til bráðið og hrærið vel í á meðan. Takið því næst af hellunni í nokkrar mínútur og bætið Rice Krispies útí, hrærið vel á milli og bætið svo meiru við eftir þörfum. Dreifið úr blöndunni á bökunarpappír á bretti, leggið annan bökunarpappír ofan á og þrýstið saman hliðunum og leggið bók/bretti ofan á til að ná þessu nokkuð sléttu. Gott er að ýta þessu saman í rétthyrning eins og best verður á kosið, kæla og skera síðan í teninga og stinga grillpriki í þegar orðið kalt. Svart og rautt Candy melts er síðan brætt og neðri hlutanum stungið í og aftur látið kólna/storkna á bökunarpappír. Hér er best að halda bara í kubbinn sjálfan því grillprikið gæti losnað úr við dýfinguna 🙂
Ávaxtapinnar á grillprikum slá alltaf í gegn……
….. og ekki síður melónubitar sem búið er að stinga íspriki í.
Sjóræningjakaka
Kakan er Betty Crocker Devils Food Cake Mix með vanillubúðing til viðbótar við annað innihald (duftið sett út í alveg í lokin), bökuð í 2 x 20 cm formum og hvor botn tekinn í tvennt. Smjörkremi með bræddu súkkulaði smurt á milli botna. „Sandurinn“ er síðan mulið Haust kex í blandaranum/matvinnsluvél. Kistan var Kit-Kat sem var límt saman með súkklaðihjúp. Í kistunni var stór sykurpúði í botninum svo að það þyrfti ekki að fylla hana af nammi. Gullpeningarnir eru keyptir í Costco.
Sjóræningjapinnar uppskrift
- 3 msk smjör
- 1 poki sykurupúðar (um 40 stk)
- 6 bollar Rice Krispies
Skraut aðferð
- Svart og rautt Candy Melts
- Hvítt kökuskraut og nammiaugu frá Wilton
- Íspinnaprik
- Bræðið smjör í stórum potti við lágan hita og bætið sykurpúðunum út í og hrærið þar til þeir hafa bráðnað alveg saman við smjörið.
- Bætið Rice Krispies út í, einum bolla í einu og hrærið vel.
- Setjið bökunarpappír á plötu/bakka og hellið blöndunni þar á. Spreyið/berið matarolíu á sleif og dreifið úr blöndunni á bökunarpappírnum. Gott að hafa þetta nægilega þykkt til að geta stungið tréprikunum í. Hér er gott að leggja annan bökunarpappír ofan á blönduna og pressa létt með stórri bók/bretti til að slétta aðeins áður en hringir eru stungnir út.
- Kælið, berið matarolíu á hringlaga piparkökumót (svo það klístrist ekki við) og stingið síðan út eins marga hringi og þið getið og stingið trépriki í hvern hring.
- Bræðið rautt Candy Melts og dýfið í fyrir klútinn og stráið hvítu kökuskrauti yfir áður en harðnar.
- Bræðið þá svart Candy Melts og setjið í poka og klippið lítið gat. Sprautið lepp, nef og munn ásamt því að setja smá súkkulaði undir nammiaugun (fást í Allt í köku og eru frá Wilton).
Melónuskip
Melóna skorin í tvennt og kúlur gerðar með ísskeið. Seglið síðan gert úr berkinum og fest saman með grillpinna.
Rice Krispies kökur uppskrift
- 50 gr smjör
- 250 gr suðusúkkulaði
- 7 msk sýróp
- 1 poki lakkrískurl
- Rice Krispies
Allt sett saman í pott nema Rice Krispies. Hitað þar til bráðið og ég leyfi þessu alltaf að „sjóða“ í um eina mínútu og hræri vel í á meðan því þá festist blandan betur saman þegar hún kólnar. Takið því næst af hellunni í nokkrar mínútur og bætið Rice Krispies og lakkrískurli út í, hrærið vel á milli og bætið svo meiru Rice Krispies við eftir þörfum.
Grillaðar pylsur, ostar og annað góðgæti fyrir fullorðna fólkið
Krúttlegu frændsystkinin
Það var gott veður þennan dag (einn af fáum þetta sumarið) og fallegi garðurinn í Lækjaberginu var vel skreyttur og risa hoppukastali var á túninu.