
Það er einhver nostalgía að baka gamaldags súkkulaðitertu með sultu og bananakremi. Þessi hér er því algjör klassík og fullkomin blanda, hvort sem það er með helgarkaffinu eða í næstu veislu.

Gamaldags súkkulaðiterta
Botnar
- 530 g hveiti
- 170 g púðursykur
- 200 g sykur
- 80 g bökunarkakó
- 2 tsk. lyftiduft
- 1 tsk. matarsódi
- ½ tsk. salt
- 4 egg
- 600 ml súrmjólk
- 270 ml matarolía
- 2 tsk. vanilludropar
- Hitið ofninn í 175°C.
- Setjið öll þurrefnin í hrærivélarskálina.
- Pískið eggin í skál/könnu og bætið súrmjólk, matarolíu og vanilludropum saman við.
- Hellið súrmjólkurblöndunni varlega saman við þurrefnin og blandið saman þar til slétt deig hefur myndast, skafið niður á milli.
- Klippið bökunarpappír í botninn á tveimur 20-22 cm kökuformum og smyrjið kantana vel/spreyið með matarolíuspreyi.
- Bakið í um 40 mínútur eða þar til prjónn kemur út aðeins með smá kökumylsnu á endanum, ekki blautu deigi.
- Kælið botnana alveg og skerið ofan af þeim til að slétta þá örlítið áður en kremið og fyllingin er sett á.
Krem
- 220 g smjör við stofuhita
- 650 g flórsykur
- 60 g bökunarkakó
- ½ tsk. salt
- 2 tsk. vanilludropar
- 2 msk. uppáhellt kaffi
- 5 msk. rjómi
- Þeytið smjörið og bætið restinni af hráefnunum varlega saman við til skiptis.
- Skafið vel niður á milli og þeytið að lokum í nokkrar mínútur.
Fylling
- Um ½ krukka af jarðarberja- og rabarbarasultu frá St.Dalfour
- 1 stór banani, stappaður
Samsetning
- Setjið annan kökubotninn á kökudisk og smyrjið með vænu lagi af jarðarberja- og rabarbarasultu.
- Næst má setja súkkulaðikrem, um 1 cm þykkt yfir sultuna og að lokum dreifa úr stappaða banananum yfir kremið.
- Þá má leggja seinni botninn ofan á og smyrja kremi á hliðarnar og toppinn.

Mmmm, það er erfitt að standast sneið af henni þessari!

Þessi kaka minnti mig óneitanlega á ömmu Guðrúnu svo ég sótti að sjálfsögðu mánaðarstellið sem ég erfði frá henni og notaði þennan daginn.

Megið endilega líka fylgja Gotterí á Instagram