LandmannalaugarHálendið er æði krakkar! Ég uppgötvaði það eiginlega bara í fyrra þegar ég fór í mitt fyrsta náttúruhlaup frá Landmannalaugum og síðan þá hef ég farið nokkrar ferðir því þetta er engu líkt!

Að þessu sinni tókum við stelpurnar með okkur og fórum í smá ævintýrareisu með vinahjónum okkar og þeirra stelpum. Við keyrðum í Landmannalaugar á laugardagsmorgni og eyddum öllum deginum þar, gengum á Brennisteinsöldu og niður Grænagil, fórum í náttúrulaugina og veiddum í Frostastaðavatni. Síðan gistum við í skála í Landmannahelli og fórum í göngu með Fjallhalla Adventurers næsta dag að Rauðufossum.

Þetta voru tveir viðburðarríkir dagar og næst erum við harðákveðin í því að vera lengur. Veðrið var reyndar alveg magnað svo það hafði klárlega áhrif á upplifunina því það er nú ekki venjan að geta rölt um hálendið á stuttbuxum einum saman allan daginn í um 17 stiga hita!

Ég tók auðvitað allt of margar myndir eins og venjulega en ég hreinlega ræð ekkert við mig í svona ferðum, hahaha! Ég ætla því að stikla á stóru hér fyrir neðan og leyfa myndunum að tala sínu máli.

Heklan okkar fallega sést vel á leiðinni upp í Laugar, við fórum Landmannaleið á leiðinni uppeftir en síðan Dómadalsleið næsta dag þegar við fórum heim. Það eru engin vöð á Landmannaleið nema rétt við Laugar og þar er hægt að leggja bílnum ef hann er ekki nógu hár til að komast yfir vaðið sem þar rennur eins og við gerðum. Þaðan er síðan hægt að ganga stuttan spotta til að komast að þjónustu- og skálavæðinu. Það er mismikið í ánum en okkar jepplingur er Hybrid svo við tókum enga sjensa með batteríið. Það eru hins vegar 2-3 vöð á Dómadalsleið og inn í Landmannahelli en ef það er ekki mikið í þeim sleppur það fyrir jeppling eins og okkar. Við vorum heppin að vinir okkar voru á stærri bíl svo þau fóru alltaf á undan svo við gátum séð hvaða leið var best fyrir okkar hybrid-kagga en sem betur fer slapp þetta allt til þetta skiptið, hahaha!

Við ákváðum að ganga upp á Brennisteinsöldu með stelpurnar og þær voru ekkert smá duglegar! Við nestuðum okkur upp í bakaríi á leiðinni og allir borðuðu vel við skálann áður en haldið var af stað.

Hulda litla 4 ára krútt gekk alla leiðina sjálf og vildi ekki sjá að fara í göngupokann hjá pabba sínum þetta skiptið.

Hulda og Valdís voru síðan mestu dúllurnar á leiðinni, ótrúlega miklir meistarar og göngugarpar þennan dag. Þeim fannst hveralyktin (prumpulyktin) samt alls ekki góð, hahaha!

Nei eruð þið að sjá þessar dúllur, komnar á toppinn á Brennisteinsöldu, 4 ára gamlar!

Allar gönguleiðir eru vel merktar/stikaðar svo þegar veðrið er gott þarf enginn að hafa áhyggjur af því að villast.

Hálendisfegurð!

Jarðhitasvæðið á leiðinni.

Lítil mús virðir fyrir sér landslagið frá toppnum!

WOW…

UMFA stelpan okkar lætur ekki sitt eftir liggja!

Veðrið var draumi líkast þennan dag, takk veðurguðir fyrir að vera einstaka sinnum með okkur í liði!

Bakaleiðin lá í gegnum Grænagil en það er kræklóttur vegur í gegnum hraunið. Þar fer maður ekki hratt yfir en fegurðin er alveg þess virði, svo gaman að sjá alla þessa andstæðu liti í náttúrunni…..þó svo við bætum auðvitað smá í þá í myndvinnslunni!

Love this! Gönguleiðin upp á Brennisteinsöldu og niður í gegnum Grænagil er um 7 km og tók okkur hátt í 3 klukkustundir með allar stelpurnar sem stóðu sig eins og hetjur.

Eftir góða göngu voru litlar stelpur orðnar svangar aftur og þar sem þær voru svo ótrúlega duglegar að ganga máttu þær sko velja sér hvað sem er í þessari mest töffaralegu hálendissjoppu.

Elsku litla Hulda Sif okkar kunni sko að meta þetta ferðalag.

Við enduðum daginn inn í Laugum síðan á því að skella okkur í náttúrulaugina. Stelpunum fannst þetta mikið sport og minnstu minni fannst þetta smá ógeðslegt og slímugt um leið og henni fannst það frábært, hahaha!

Síðdegis stoppuðum við síðan við Frostastaðavatn í þeirri von að landa nokkrum „bleikum fiskum“ eins og dæturnar orða það. Það var SVAKALEGA mikil fluga þarna og þeir sem ekki voru með net þurftu hreinlega að vera inn í bíl svo ekki gleyma netinu ef þið hyggið á veiðiferð. Hversu fallegt er þetta samt, almáttugur minn!

Eins og þið sjáið fiskaðist gríðarlega, hahaha! Það sem var þó fyrir öllu að þær fengu fisk og ætluðu aldrei að vilja fara! Það var hins vegar orðið áliðið og við ekki enn farin að elda kvöldmat eða koma okkur fyrir í skálanum svo við rúlluðum af stað í Landmannahelli og komum aftur síðar í von um stærri fiska. Kvöldmaturinn var um klukkan 22:00 þetta kvöldið en hey, hver er að pæla í tímanum á svona dögum, haha!

Skálafjör af bestu sort! Kojur, spil, leikur, ólöglegir ökumenn, góður matur og góðir vinir!

Landmannahellir sjálfur er ekki stór en svæðið er þó engu að síður kennt við hann og gaman að skoða hann.

Í Landmannahelli er ekki símasamband svo ég fékk mér göngutúr upp á næsta fjall til þess að taka nokkur símtöl og láta vita af okkur.

Devold eyrnaband og Didriksons jakki úr Ellingsen #samstarf

Fallega og duglega Elín Heiða mín vill sko í ferð á hálendið fljótt aftur!

Næsta dag eftir góðan morgunverð var haldið af stað í næstu göngu að Rauðufossum.

Veðrið var ekki eins gott og á laugardeginum, það var smá rigning á okkur en fremur hlýtt og milt í veðri. Litlar stelpur voru aðeins lúnar eftir göngu deginum áður (enda engin furða) svo það gekk aðeins hægar að koma þeim áfram þennan daginn. Hluti af hópnum sneri við hjá stóra fossinum en eitt og eitt Pez nammi á stikunum dró okkar dömu áfram upp að Auganu. Hvor leið um sig er um 5 km og mesti brattinn er við stóra fossinn sjálfan.

Landslagið á leiðinni er guðdómlegt og mikilvægt að líta upp og njóta útsýnisins.

Við tókum góða nestispásu uppi við Augað en litla músin okkar var orðin ansi þreytt þarna svo við náðum að semja við hana um að setjast í göngupokann hjá pabba sínum á bakaleiðinni svo við náðum að fara hraðar yfir á niðurleið.

Lína Langsokkur nestisbox, Didrikson jakki, Devold ullarbuff úr Ellingsen #samstarf

Henni fannst mjög spennandi að fá nesti í sínu eigin Línu Langsokk boxi og borðaði því betur fyrir vikið.

Upptök Rauðufossa kallast „Augað“ en það er alveg magnað að sjá þetta þarna efst svo það er klárlega þess virði að labba alla leiðina. Ef veðrið hefði verið betra þá hefðum við leyft stelpunum að vaða og sulla þarna í grynningunum en við létum útsýnið nægja okkur þetta skiptið en værum sannarlega til í að ganga þessa leið aftur síðar á sólríkum degi.

Þarna byrjar þetta síðan allt saman……og rennur alla leiðina niður!

Sjúklega fallegt!

Meira að segja fallegt í rigningu og þoku!

Takk fyrir helgina dásamlega hálendi, we’ll be back!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun