HallormsstaðurAtlavík í Hallormsstaðaskógi

Við stoppuðum í þrjár nætur í Hallomsstað á hringferðinni okkar í sumar. Við ætluðum aldeilis að upplifa Spánarstemminguna sem hafði verið þar í margar vikur en að öllu gríni óslepptu þá byrjaði að rigna kvöldið sem við tékkuðum okkur inn á Hótel Hallormsstað og það hætti að rigna þegar við tékkuðum okkur út á þriðja degi, hahahaha!
Sólarvörnin var því bara ofan í tösku en við héldum okkar striki þrátt fyrir vel blauta daga. Ég hefði ekki alveg verið til í að vera á tjaldstæðinu í þessum aðstæðum og mikið sem það var dásamlegt að komast alltaf inn á hreint og fallegt herbergi eftir ævintýri dagsins. Ofnarnir voru vel nýttir til þess að þurrka föt á milli dagsferða ásamt því sem við heimsóttum frábæra veitingastaði á Austurlandinu.

Hótel Hallormsstaður, hótel við Egilsstaði

Við tékkuðum okkur inn að kvöldi til eftir langan og skemmtilegan dag um Stuðlagil og nágrenni með vinafólki okkar. Við vissum það væri von á rigningu svo við ákváðum að nýta síðasta þurra daginn í bili vel! Það var síðan mikið notalegt að komast á þetta fallega hótel og hvíla sig eftir langan dag.

Hótel Hallormsstaður

Við bókuðum okkur í fjölskylduherbergi á Hótel Hallormsstað og var það algjör lúxus. Það var nóg pláss og stelpurnar komu sér vel fyrir í sínum rýmum með dótið sitt og föndur og hér var sofið út og ekkert stress!

Hallormsstaðaskógur

Hallormsstaðaskógur er síðan auðvitað eitt stórt ævintýri útaf fyrir sig. Að rölta um á milli trjánna, lesa um sögu þeirra, klifra í trjám og fá sér ís í ísbúðinni var yndislegt.

Atlavík í Hallormsstaðaskógi

Hægt er að ganga út frá hótelinu um skóginn en einnig er hægt að keyra og leggja við tjaldsvæðin. Stutt er í Atlavík og niður að Lagarfljóti og ævintýralegar gönguleiðir í boði. Öll þessi stóru fallegu tré, krúttlegu göngustígar, könglatínsla og góða lyktin sem fylgdi rigningunni í skóginum, yndislegt!

Skálinn Diner á Egilsstöðum

Við fórum í dagsferðir frá hótelinu og ég var mikið spennt að prófa að fara á Skálann Diner á Egilsstöðum. Við kíktum því þangað í hádegismat einn daginn og að ganga þarna inn rifjaði upp USA minningar fyrir allan peninginn! Þegar við vorum eitt sinn á „Roadtrip-i“ um Bandaríkin og vorum að keyra á milli LA og yfir til Las Vegas stoppuðum við á Peggy Sue’s Diner og þetta var svona svipaður fílingur!

Mjólkurhristingur

Það er algjör skylda að prófa mjólkurhristing þegar maður fer á Diner, það er bara svoleiðis…..og helst nokkrar bragðtegundir, hahaha! Skálinn Diner er með GEGGJAÐA mjólkurhristinga, skál fyrir því!

Skálinn Diner á Íslandi

Krökkunum fannst þetta líka mjög skemmtilegur veitingastaður og þið þekkið mig, mér leiðist ekkert svona skyndibiti!

Axarkast

Einn seinnipartinn skelltum við okkur síðan í axarkast með East Highlanders, það var ótrúlega skemmtilegt og virkilega flott aðstaða sem hann Elí hefur komið upp þarna. Hemmi og Elín Heiða fóru í framhaldinu með honum í fjórhjólatúr um Hallormsstaðaskóg og nágrenni á meðan við Hulda Sif fengum okkur göngutúr í skóginum.

Devold frá Ellingsen
Fatnaður – Devold og Didriksons frá Ellingsen #samstarf

Stundum er erfitt að vera bara fjögurra ára á ferðalagi og vera of lítill í alls konar sem stóra systir má gera. Tíminn líður hins vegar á ljóshraða og þessi dúlla verður mætt á fjórhjól í næstu ferð!

Ef þið smellið á myndina hér fyrir neðan getið þið séð skemmtilegt myndband frá þessum degi!

East Highlanders ATV tour

Feðginunum leiddist alls ekki að drullumalla á fjórhjólum í þessum pollum í skóginum og voru alsæl þegar þau komu röltandi niður á hótel að ferð lokinni. East Highlanders er nefnilega staðsett bara rétt fyrir ofan Hótel Hallormsstað svo ég mæli 100% með því að þið kíkið þangað á ferð ykkar um Austurland.

Axarkast með east highlanders

Hótel Hallormsstaður er yndislegur staður. Þar er allt svo heimilislegt og kósý um leið og það er fágað og fallegt. Þar eru tveir veitingastaðir, Lauf sem býður upp á guðdómlegt hlaðborð og síðan Kol bar & bistro þar sem hægt er að panta veitingar af matseðli og sitja og horfa yfir skóginn og Lagarfljót. Við prófuðum báða þessa veitingastaði og maturinn var æðislegur á báðum stöðum, allt frá guðdómlegri hægeldaðri nautakinn að lambaskönkum og að einföldum pizzum sem stelpurnar elskuðu.

Matur á hótel hallomsstað

Við gerðum vel við okkur í rigningunni og sátum lengi og nutum matarins. Stelpurnar tóku með sér liti, litabók og plus-kubba svo það var hægt að slaka á og spjalla áður en haldið var aftur upp á hótel í kósý.

Dolla yfir á

Síðasta daginn okkar í Hallormsstað stytti upp, ótrúlegt en satt, hahaha! Við tékkuðum okkur því út af hótelinu og nýttum daginn á svæðinu. Byrjuðum á því að kíkja í Óbyggðasetrið og keyrðum síðan innar í dalinn til að prófa „dolluna“ eins og dætur mínar kalla hana. Þar er semsagt hægt að fara í svona lítinn kláf yfir Jökulsá.

Óbyggðarsetrið á Austfjörðum

Fara þarf yfir litla brú rétt áður en komið er að Óbyggðarsetrinu og keyrt er áfram inn dalinn í nokkrar mínútur þar til þið sjáið kláfinn blasa við.

Skriðuklaustur

Skriðuklaustur er fallegt hús sem gaman er að skoða. Þar er líka rómað hádegis- og kaffihlaðborð en við vorum nýbúin að borða þennan daginn svo við létum okkur nægja að skoða okkur um á svæðinu.

Hengifoss ganga

Hengifoss er undurfallegur foss sem stendur við syðri enda Lagarfljóts. Gangan í heild sinni var um 5 km og stelpurnar gengu þetta sjálfar alla leið. Minni aftur á mikilvægi þess að hafa eitthvað smá nasl og vatn að drekka fyrir litla göngugarpa því þá gengur allt svo miklu betur.

Hengifoss gönguleið

Við höfum einu sinni áður gengið upp að Hengifossi og eigum klárlega eftir að gera það aftur síðar.

Góð bbq rif á Salt Café Egilsstöðum

Eftir fjallgöngu var tímabært að halda áleiðis á næsta áfangastað í norðurátt. Allir voru aftur orðnir svangir eftir gönguna svo við stoppuðum á veitingastaðnum Salt Café & Bistro á Egilssstöðum áður en við yfirgáfum Austurland. Þar var geggjaður matur! Stelpurnar elska rif og hrópuðu upp yfir sig þegar þær sáu þau á matseðlinum á meðan við pabbinn fórum í pizzu og salat.

Salt Café veitingar á Egilsstöðum

Austurland er æði og þrátt fyrir að við höfum náð að skoða og gera ansi margt þá langar okkur klárlega þangað aftur til að skoða þetta svæði enn betur.

Rjúkandi foss

Fossinn Rjúkandi viðraði okkur svo á leiðinni til Húsavíkur og næst kemur hingað inn færsla um Norðurlandið.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun