Hjónafrí á Gran CanariaMaspalomas Dunes

Almáttugur ég veit ekki hvar ég á að byrja núna. Ef það er eitthvað sem ég hef komist að eftir þessa ferð þá er það að sólafrí fyrir okkur Íslendinga ætti að vera skylda yfir vetrarmánuðina og að Gran Canaria er ÆÐI! Klárlega perla Kanaríeyjaklasans!

Puerto de Mogán

Við hjónin vorum að koma úr foreldrafríi frá Gran Canaria og ég má til með að setja hingað inn upplýsingar um þennan dásamlega stað. Ég leyfði ykkur að fylgjast með á INSTAGRAM á meðan á ferðinni stóð og fékk fjölmargar fyrirspurnir á hverjum degi um hitt og þetta svo ég ætla að reyna að svara þeim öllum hér í þessum pósti. Svo er vonandi að þessi ferðasaga okkar aðstoði ykkur við að skipuleggja ykkar frí til Gran Canaria en þangað munum við klárlega fara aftur síðar. Kíkið endilega í Highlight á Instagram og þar sjáið þið fullt af skemmtilegu efni sem ég safnaði saman undir Gran Canaria.

Dunas Maspalomas

Gran Canaria er þriðja eyjan sem við heimsækjum í Kanaríeyjaklasanum en við höfum bæði heimsótt Lanzarote og Tenerife. Veðurfarið er mjög svipað á öllum þessum stöðum og mjög gaman að prófa nýja áfangastaði og skoða eitthvað nýtt í hverri ferð. Það hefur verið okkar mottó í gegnum tíðina að heimsækja sem flesta áfangastaði í heiminum og ef við förum aftur á einhver stað sem við höfum heimsótt áður, þá er mikilvægt að skoða eða prófa eitthvað nýtt.

Starbucks Gran Canaria

Við fórum með ferðaskrifstofunni VITA og dvöldum á Meloneras ströndinni á hóteli sem heitir Lopesan Costa Meloneras. Þetta hótel var undursamlegt, maturinn æðislegur og þjónustan til fyrirmyndar. Á Meloneras er allt afar snyrtilegt og fínt og gaman að rölta um svæðið. Lopesan hótelkeðjan á þar nokkur hótel og væri ég sannarlega til í að prófa fleiri þeirra síðar. Það eru fínar merkjabúðir allt í kring í bland við skemmtilegar „Spánarbúðir“ og markaði svo allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Ógrynni er af veitingastöðum allt um kring og við prófuðum nokkra þeirra á milli þess sem við nutum á kvöldverðarhlaðborði hótelsins og urðum aldrei fyrir vonbrigðum.

Dunas Meloneras

Það er stutt uppeftir til Maspalomas og yfir á ensku ströndina og síðan eru hinar margrómuðu „Dunes“ eða sandöldur á milli Meloneras og ensku strandarinnar. Við tókum góðan göngutúr allan þennan hring og það er gott aðgengi á milli allra þessara staða fyrir þá sem vilja skoða sig betur um. Það er gaman að ganga út á sandöldurnar og upp á hóla og hæðir og leyfa táslunum að sökkva í heitan sandinn. Margir ganga heldur meðfram sjónum á milli því þar er auðveldara að ganga en síðan er líka merktur stígur í sandinum á milli stranda. Meloneras svæðið er klárlega í uppáhaldi hjá okkur eftir að hafa skoðað nágrennið en einnig eru mörg góð hótel bæði á Maspalomas og á ensku ströndinni. Við skoðuðum nokkur því okkur langar að koma síðar með stelpurnar með okkur og svo gott að geta skoðað aðstæður í eigin persónu.

Kanarí
Lopesan Baobab Resort

Við vorum heilluð af Lopesan Baobab hótelinu fyrir aftan okkar hótel en það er lúxushótel í afrískum stíl.

Parque Cristobal hotel Gran Canaria
HD Parque Cristobal

Einnig skoðuðum við Parque Cristobal hótelið ofarlega á ensku ströndinni en það er nýuppgert íbúðarhótel með smáhýsum. Aðstaðan þar er til fyrirmyndar fyrir börn og fullorðna og mikil afþreying í garðinum eins og Bootcamp og góð íþróttaaðstaða úti við, nokkrar sundlaugar, rennibrautir fyrir þau minnstu, aparóla, leiksvæði, nokkrir veitingastaðir og sportbar.

Það er því hótel sem gott er að slaka á í öruggu umhverfi með börnin sín án þess að þurfa í raun að fara langt fyrir hin ýmsu skemmtilegheit. Á Gran Canaria er síðan að finna bæði dýragarð sem heitir Palmitos Park, undirvatnaveröldina Poet Mar og vatnsleikjagarðinn Aqualand sem við myndum klárlega heimsækja með stelpurnar. Einnig er þar að finna krókódílagarðinn Crocodrilo Park í Agüimes en þangað er skemmtilegt að koma.

Kanaríeyjar eru ekki bara Tenerife

Það var skýjað hjá okkur suma dagana og þá fórum við til dæmis í keilu í Holiday World en þar er líka tívolí og flott mathöll sem hvorutveggja er opið á kvöldin og gaman að heimsækja, með eða án barna.  Einnig bókuðum við okkur í nudd og fótsnyrtingu á snyrtistofu við ströndina, það var sannarlega huggulegt en einnig var hægt að fara í nudd á hótelinu. Við ætluðum einmitt að bóka okkur aftur og prófa aðstöðuna í „Spa-inu“ en það var sér útisvæði með sundlaugum og góðum bekkjum sem hægt var að kaupa aðgang að en síðan flaug tíminn bara frá okkur og síðasti dagurinn rann upp áður en við vissum af.

Camel Safari Gran Canaria

Við skelltum okkur síðan í Camel safarí um sandöldurnar og það var skemmtileg upplifun.

Það er síðan ekkert mál að keyra um Gran Canaria sjálfur eða taka leigubíl. Við leigðum okkur bíl í tvo daga og keyrðum um allt. Annan daginn fórum við upp í fjöllin, gengum að Roque Nublo, keyrðum síðan yfir til Las Palmas og skoðuðum Agüimes á heimleiðinni. Einnig var mælt með því að skoða Guayadeque hellana og borða þar ekta spænskan og góðan mat en það var farið að rökkva og rigna þegar við höfðum hugsað okkur að keyra lengra svo við létum þetta gott heita þennan dag.

Hiking in Gran Canaria

Við vorum ekki alveg nógu heppin með veðrið þegar við gengum að Roque Nublo en veðrið er víst oft allt annað þarna í fjöllunum og norðan megin á eyjunni. Það var þoka á okkur, svolítill vindur og smá rigning svo við skokkuðum upp að klettinum og tilbaka aftur en hefðum annars gengið meira um á þessu svæði. Í gegnum þokuna sáum við samt hversu fallegt þetta svæði er og mjög ólíkt strandsvæðinu svo við mælum 100% með því að gefa sér tíma fyrir útivist að þessu tagi fyrir þá sem hafa áhuga á slíku.

Roque Nublo Gran Canaria hiking

Víða var hægt að stoppa fyrir fallegt útsýni og nokkrir litlir og fallegir smábæir voru einnig í fjöllunum.

Ferð til kanarí

Við keyrðum beint upp í fjöllin frá Meloneras en vegurinn var ansi hlykkjóttur og þröngur á köflum en svo fórum við niður í áttina til Las Palmas og þar var vegurinn mun betri. Okkur var síðan sagt eftirá að margir kjósa að fara þá leiðina báðar leiðir til að sleppa við hlykkjótta partinn en ég verð samt að segja að hann hafði sinn sjarma og falleg stopp svo ég veit ekki hvort ég myndi tíma að sleppa honum, þrátt fyrir að hafa verið orðin hálf bílveik þegar að Roque Nublo kom, hahaha!

Hiking in Gran Canaria

Við kíktum næst í Las Palmas og röltum um Triana og Vegueta en þar er gamli bærinn sem fallegt er að skoða. Ég var einnig búin að finna ótrúlega flottan „Roof-top-Bar“ þar sem til stóð að snæða hádegisverð og horfa yfir borgina en við tókum klárlega smá Íslandslægð með okkur til Gran Canaria því lokað var á þakinu vegna veðurs þennan dag, hahaha. Ef ykkur langar hins vegar að kíkja á hann þá heitir hann IBEX Rooftop Bar og býður upp á 360° útsýni yfir Las Palmas.

Las Palmas things to do

Það er svo gaman að prófa að heimsækja svona bari/veitingastaði á ferðalögum svo ég mæli með þó svo ég hafi ekki náð að prófa! Við skoðuðum Santa Ana dómkirkjuna í Vegueta og röltum um Triana en þar er að finna ótal verslanir og veitingastaði.

Las Palmas Vegueta

Þennan skemmtilega dag „on the road“ enduðum við svo í fjallaþorpinu Agüimes! Þar var fallegt um að litast og skilst mér að Lopesan fjölskyldan sem á fjölmörg falleg hótel á Gran Canaria sé þaðan komin og meira að segja eitt hótelið þeirra byggt eftir fallegu kirkjunni sem þar stendur.

Aquimes

Annan dag keyrðum við yfir til Puerto De Mogán sem er lítill strandbær í um 20 mínútna fjarlægð frá Meloneras. Þessi bær hefur fengið viðurnefnið „Feneyjar Gran Canaria“ og verð ég að segja að þarna er undurfallegt. Við komum að morgni og ætluðum ekki að tíma að fara heim að kvöldi.

Puerto de Mogán Gran Canaria

Við bókuðum okkur í ævintýraferð með ferðaskrifstofunni Yukan þar sem við fórum á kajak og snorkluðum. Það var algjört ævintýri, við rérum langt út á sjó, inn í hella og á afskekkta strönd. Hemmi var meiri ofurhugi en ég og synti með leiðsögumanninum inn í einn hellinn þar sem þeir stukku fram af klettunum og höfðu gaman á meðan ég sólaði mig í fjörunni. Það er einnig mikið úrval af bátsferðum frá Puerto De Mogán, jet-ski, hjólabátar og fleira skemmtilegt svo ég mæli sannarlega með því að þið skoðið það.

Kayak in Gran Canaria

Ég gæti sannarlega hugsað mér að gista í Mogán í 2-3 nætur í næstu heimsókn til Gran Canaria því ströndin er dásamleg og ég sé stelpurnar mínar fyrir mér þar að leika og allir að hafa það notalegt. Klárlega einn fallegasti og krúttlegasti strandbær sem ég hef heimsótt!

Mogán Gran Canaria

Á bakaleiðinni aftur á hótel komum við við í Puerto Rico sem er næsti smábær og þar er einnig mjög fallegt og snyrtilegt. Þar er líka að finna verslunarmiðstöð sem heitir Mogan Mall og hefur hún að geyma ýmsar skemmtilegar verslanir. Fleiri verslanir á borð við H&M, Primark og fleiri er að finna í El Mirador mollinu en við vorum hins vegar frekar að njóta og skoða okkur um en að versla í þessari ferð svo við létum það eiga sig, kæmist hins vegar ekki upp með það með stelpurnar með í för, hahah!

Golf in Gran Canaria

Okkur langar mikið til þess að koma aftur síðar til Gran Canari í golfferð og skoðuðum við okkur því um í þeim efnum. Tveir golfvellir eru sitthvoru megin við Meloneras, annars vegar Lopesan Meloneras golf og hins vegar Maspalomas golf. Okkur leist mjög vel á þá báða og myndum helst vilja prófa þá báða í slíkri ferð. Hvað er huggulegra en að byrja daginn á golfi, fá sér gott að borða og leggjast síðan í sólina og slaka á!

Beach in Gran Canaria

Á milli þess sem við vorum að flækjast um lágum við síðan í hótelgarðinum en hann er ævintýri út af fyrir sig. Nokkrar mismunandi sundlaugar og baðsvæði, tilbúin steinaströnd í hluta af honum og nokkrir veitingastaðir.

Lopesan Costa Meloneras resort with Vita agency

Það þurfti því alls ekki að fara langt til að njóta og ekki skemmdi fyrir að Starbucks var beint fyrir neðan hótelið okkar við ströndina og voru farnar ófáar ferðir þangað. Einnig var örstutt ganga út á sandströndina sem síðan tengir Meloneras við ensku ströndina með sandölduhafið á milli.

Hotels in Gran Canaria

Ég mæli mikið með hótelinu sem við vorum á en það var alveg dásamlegt. Maturinn var einnig guðdómlegur og orðið hlaðborð fékk alveg nýja merkingu hjá okkur hjónum eftir þessa ferð.

Lopesan Costa Meloneras

Borðin svoleiðis svignuðu undan kræsingum og skipti ekki máli hvort það var á morgnana eða kvöldin.

Buffet at hotel

Það sem mér fannst svo skemmtilegt er að svæðinu var skipt upp í marga litla „bása“ sem voru eins og mini veitingastaðir með mismunandi áherslu. Ítalskur á einum, dessert á einum, steik á þeim næsta og svo framvegis.

good buffet at hotel

Það var líka svo geggjað að mikið úrval var að litlum diskum að velja úr með gúrme veitingum. Ég elskaði að geta valið mér nokkra litla og fallega rétti til að borða! Ég var síðan alls ekki fyrir vonbrigðum með eftirréttabásinn, NAMM!

Food in Lopesan Costa Meloneras

Í hótelgarðinum voru síðan þrír mjög góðir veitingastaðir sem við prófuðum einnig ásamt fleirum við ströndina.

Good food at Lopesan hotels

Einn var ítalskur og heitir La Toscana, annar asískur og heitir Nihao og síðan steikhús með útsýni yfir ströndina sem heitir El Churrasco og þangað fórum við líka stundum í hádegismat og drykk og nutum útsýnisins.

Eating in Gran Canaria

Sólsetrið á heimleið var undursamlegt!

Flug til Kanarí

Hér fyrir neðan koma linkar á það helsta ykkur til upplýsinga!

Flug & hótel: VITA ferðaskrifstofa, flugum með Icelandair og gistum á Lopesan Costa Meloneras Spa og Casino

Kajak & snorkl í Puerto de Mogán: Yukan ferðaskrifstofa (bókuðum samt í gegnum Tripadvisor)

Bílaleigubíll: Leigðum hann á lítilli bílaleigu beint á móti hótelinu, er ekki með link, þetta var bara pínulítil bílaleiga.

Roque Nublo: Við keyrðum frá S til N yfir fjallgarðinn til Las Palmas.

Verslun: Mogan Mall í Puerto Rico og El Mirador (með Primark o.fl), einnig voru fínar búðir í Triana.

Fjölskylduhótel sem við skoðuðum og myndum mæla með: Lopesan Baobab resort og HD Parque Cristobal.

Veitingastaðir sem fá okkar meðmæli: La Toscana ítalskur, Nihao asískur, El Churrasco steikhús, Misbah indverskur, Time ítalskur, Samsara asískur og Grand Italia ítalskur. Já við elskum ítalskan mat og ætli Ítalíureisa sé ekki næst á dagskrá!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun