
Ég bara má til með að setja inn færslu af fyrstu utanlandsferðinni í ansi langan tíma! Þegar við fórum í mæðgnaferð til Vilnius veturinn 2019 grunaði okkur ekki að þetta væri síðasta utanlandsferðin í næstum tvö ár.
Við fórum fram og tilbaka með það hvort við ættum að fara eða ekki þar sem ýmis boð og bönn eru í gangi sökum Covid og sú pest virðist alltaf finna sér nýjar leiðir til að gera okkur lífið leitt. Ég ætla alveg að viðurkenna að stundum hefði bara verið einfaldara að hætta við og hafa engar áhyggjur heldur en að kynna sér þetta allt og finna út hvaða pappíra þarf að hafa meðferðis, hvaða próf þarf að taka og ég veit ekki hvað og hvað (ég skal setja inn praktískar upplýsingar um það allt neðst í þennan póst).

Þegar ég var búin að kynna mér þetta allt í þaula, meðal annars með aðstoð frá nokkrum hjálplegum fylgjendum, setja niður á blað og átta mig á þessu ákváðum við að láta slag standa. Mesta stressið var það að fá neikvætt próf og geta ekki komist aftur heim. Við vorum undir það búnar að „festast“ úti í 10-14 daga, tölvan var tekin meðferðis svo hægt væri að vinna að utan og ýmsar varúðarráðstafanir gerðar (ég ofurskipulagða búin að sigta út Airbnb íbúðir með garði og svona, haha). Sem betur fer fengum við samt allar neikvætt próf til að komast í flugið og nutum okkar í botn í borginni góðu.
Ég hef ferðast víða í gegnum tíðina en ALDREI komið til London nema bara á flugvöllinn í millilandastopp! Það var því ansi freistandi að segja já þegar elsta dóttir mín og vinkona hennar báðu mig um að fara með þeim til að „sjoppa“ áður en menntaskólinn byrjaði aftur. Þegar við vorum allar fullbólusettar í sumar var því sest við tölvuna og ferðin pöntuð. Á þeim tíma var Ísland grænt og Covid, að við héldum, á undanhaldi…..einmitt það já!

Ég elska að rölta um nýja áfangastaði, skoða mig um og drekka í mig andrúmsloftið sem þar ríkir. Ég elska mögulega jafn mikið að reyna að fanga þessi „moment“ á filmu svo ég ætla að leyfa myndunum að tala sínu máli og setja linka og upplýsingar undir þar sem við á til að gefa ykkur hugmyndir að afþreyingu og skemmtilegheitum.

Flugið út gekk vel (fyrir utan það að vera að kafna í grímunni, haha) og við vorum varla lentar fyrr en við vorum mættar á McDonalds og í búðarráp á Oxford, en ekki hvað, hahaha! Við gistum á Radisson Blu Edwardian hótelinu á Oxford Street. Staðsetningin er virkilega góð, við gátum gengið í allar áttir og stutt að taka taxa ef við nenntum ekki að labba. Hótelið er hins vegar ekki alveg það nýtískulegasta kannski en allt var hreint og fínt og góð þjónusta.

Þetta er svolítið ég í hnotskurn á ferðalögum, hahaha! Næsta dag byrjuðum við á því að kaupa okkur miða í Hop-on/off Bus til að átta okkur á því hvar allt væri og hvar væri spennandi að hoppa úr til að skoða.

Maður setur í sig lítil eyrnatól sem fylgja með miðakaupunum og getur hlustað á söguna á bakvið helstu kennileitin sem ekið er framhjá, virkilega skemmtilegt.

Gamli og nýi tíminn mætast við London Tower Bride.

Við fórum í bílinn við Marble Arch og fórum ekki úr fyrr en á Tower Hill fengum okkur hádegismat í sólinni og hoppuðum í „River Cruise“ upp að Big Ben og röltum yfir að London Eye.

Það voru alveg nokkrir „frappó“ keyptir í þessari ferð skal ég segja ykkur!

Ég er yfirburða lofthrædd svo ég rölti um South Bank svæðið á meðan stelpurnar fóru í London Eye.

Svo gaman að rölta um og skoða.

Fallegt er þarna!

Þegar stelpurnar voru búnar í hringferðinni í London Eye hoppuðum við aftur í strætóinn og fórum úr við Buckingham Palace. Það er ótrúlega magnað að sjá þetta, allt afgirt og magnað að sjá „Queen’s Guard“ stíga sinn dans reglulega.

Svo krúttlegt hús! Það getur varla verið mikið meira en eitt herbergi á hverri hæð held ég, hahaha.

M&M world var risa búð á 4 hæðum og klárlega gaman að kíkja þangað inn og kaupa einhverjar allt of dýrar M&M vörur, haha!

Kvöldrúnturinn annað kvöldið okkar var um Soho og China Town. Þangað finnst mér möst að koma, bæði að degi til og kvöldi til. Það ásamt Covent Garden svæðinu var eiginlega uppáhalds svæðið mitt í þessari ferð.

Næsta morgun lá leiðin í Madame Tussauds safnið.

Gaman að koma þangað og alveg fáránlega raunverulegar þessar vaxmyndir!

Eftir góða stund á safninu var ferðinni heitið í Westfield þar sem dömurnar vildu fá að versla!

Við byrjuðum á því að fá okkur pizzu á veitingastaðnum Phoenix þar sem hægt var að sitja úti í sólinni áður en inn í moll væri haldið. Mæli með því að þið borðið þarna ef þið eruð orðin svöng og þreytt á búðunum, virkilega góðar pizzur! Ég hafði síðan minna úthald en stelpurnar og settist því bara út í sólina með einn frappó og hafði það huggulegt á meðan ég beið eftir þeim. Þær fóru síðan á Five Guys í hamborgara þar sem þær voru eðlilega örþreyttar eftir verslunarleiðangurinn og sögðu þær að það væru mjög góðir borgarar, alveg klárlega lúxus McDonalds, haha!

Um kvöldið puntuðum við okkur síðan upp og fórum á Sushi Samba í Heron Tower. Lofthrædda ég var ekki alveg að átta mig á því að það þyrfti í lyftu upp á 39. hæð og lyftu sem væri úr gleri í þokkabót…..segi ekki meira en að ég ætlaði helst ekki niður aftur, haha!

Maturinn var mjög góður og upplifunin mögnuð. Útsýni yfir allt og bara virkilega flottur staður. Það þarf hins vegar að bóka borð með góðum fyrirvara svo endilega hafið það í huga ef ykkur langar að kíkja þangað. Barinn er úti á svölum með þessu fallega ljósatré, arineld og kósýheitum.

Næsta dag röltum við aftur niður í Soho og nágrenni. Stelpurnar þurftu í ákveðnar búðir og ég rölti mér á meðan í Covent Garden og þar um kring.

Covent Garden var smá eins og blanda af Kolaportinu og fínni verslunum/veitingastöðum og allt þar á milli.

Æji sjáið bara þessa stemmingu og krúttheit….vona þau skili sér í gegn á myndunum.

Síðdegis þennan dag leigðum við okkur hjól fyrir utan hótelið til þess að taka hjólarúnt um Hyde Park. Það voru hins vegar mestu mistök að taka hjólin á þessum stað því allir hjóla bara á götunni í London í takt við traffíkina. Það er auðvitað vinstri umferð þar og þetta var síðdegis á fimmtudegi, við hjálmlausar og áttavilltar svo þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig okkur leið við hliðina á tveggja hæða strætóunum! Mæli með að rölta bara uppeftir og leigja hjól aðeins innar en Marble Arch, þar sem við einmitt skiluðum okkar og löbbuðum Oxford tilbaka að hótelinu, hihi. Hringurinn um Hyde Park var hins vegar æðislegur, hægt að skilja hjólin eftir á stöð inn í miðjum garðinum til að rölta um og síðan bara leigja sér það aftur og halda áfram hringinn.

The Churchill Arms. Líklega einn litríkasti bar og veitingastaður í London!

Síðasta kvöldið okkar fórum við í kvöldverð á „The Nest“ sem er „Rooftop Bar“ á góðum stað með útsýni yfir borgina, jebb við svolítið að elta þessa rooftop-staði, haha! Ég las mér samt ekki allt of vel til um hann áður og þegar á hólminn var komið var þetta meira bar heldur en veitingastaður. Það voru örfáir réttir á matseðlinum svo úr varð að við borðuðum minna og drukkum meira! Mæli þó heilshugar með heimsókn þangað, sérlega ef ykkur langar á flottan og vel staðsettan bar!
Það var einn veitingastaður sem við römbuðum inn á en ekkert borð var hins vegar laust sem mig langar að mæla með að þið kíkið á. Hann er ítalskur og heitir Circolo Popolare og var án gríns allt uppbókað þar tvær vikur fram í tímann! Ég syrgi enn þann ítalska mat sem ég borðaði ekki þar í þessari ferð, hahaha!

Jæja, hér ætla ég að setja sögupunktinn með myndum af uppáhalds súkkulaðinu mínu í ofurfallegum umbúðum.
Takk fyrir að fylgjast með og hér fyrir neðan eru praktískar upplýsingar varðandi Covid, að minnsta kosti það sem þurfti að gera á þessum tíma en svo þarf að fylgjast vel með breytingum í hverju landi fyrir sig. Varðandi Bretland þá eru reglurnar hér á GOV.UK og þú þarft að finna á hvaða lista Ísland er til að vita réttar reglur, við vorum á græna listanum þeirra í ágúst þrátt fyrir að vera orðin rauð….þeir eru með sín eigin sóttvarnarkort og raða því löndum upp eins og þeim sýnist.
COVID-upplýsingar

London Covid ferli á leiðinni út til London
- Fylla út passenger location form, það þarf að skila því 48 tímum fyrir komu til landsins og geta sýnt það fyrir flug, maður fær QR kóða á emaili til að prenta/sýna =
https://provide-journey-contact details.homeoffice.gov.uk/passengerLocatorFormUserAccountHolderQuestion = 0 kr - Fá vottorð um bólusetninguna á ensku 72 klukkustundir, sækja hér með vegabréfsnúmeri, https://minarsidur.heilsuvera.is/covid-19/vottord = 0 kr
- Panta í PCR/antigen test og fá vottorð á ensku, hægt á https://covidtest.is/ það tekur innan við klukkutíma að fá niðurstöðu = 6900 kr
- Panta próf til að þau séu komin á hótelið (tekur 1-2 daga að sendast): 2 day test fyrir Bretann og antigen próf til að komast aftur heim (Keyptum Fully Vaccinated Rapid pakkann hér en það var ódýrasta sem var í boði á þessum tíma. Flestar private stofur voru að selja bara eitt pcr próf á 250 pund sem er rugl!) https://covidtests.everythinggeneticltd.co.uk/index.php?type=ag samtals á um 14.000kr
Antigen prófið virkar í 72 klukkustundir svo við gerðum það eins fljótt og við gátum, því þá eru minni líkur á að greinast í millitíðinni, þó með það í huga að fluginu gæti seinkað um nokkra klukkutíma. Við lentum á mánudegi, gerðum þessi próf á miðnætti á þriðjudegi og þau komu okkur heim á föstudegi (í dag er flugfélögum reyndar ekki skylt að neita jákvætt smituðum Covid sjúklingum að fara um borð svo ég myndi kanna þetta hjá flugfélaginu sem þið pantið með).
Hér þarf að taka upp video og senda inn….bara fylgja leiðbeiningunum á pakkanum og við vorum komnar með svar á innan við hálftíma.
2 day testið gerið þið síðan bara sjálf og setjið í næsta póstkassa, það þarf ekki að taka video eða neitt og við fengum ekki einu sinni niðurstöðurnar úr þessu fyrr en nokkrum dögum eftir heimkomu. Þetta hálf tilgangslaust próf að mínu mati en kröfur frá Bretanum og ekki vill maður eiga yfir höfði sér sekt frá þeim.
London Covid ferli á leiðinni heim frá London
- Fylla út vottorð um heimkomu, https://heimkoma.covid.is/skraning/ = 0 kr
- Sýna neikvætt próf úr antigentestinu sem við gerum á hótelinu.
- Panta í próf 2 dögum eftir heimkomu á heilsugæslunni eða fara í þetta á vellinum, https://www.landlaeknir.is/um-embaettid/greinar/grein/item47326/Upplysingar-um-opnunartima-heilsugaeslustodva-fyrir-hradprof-vegna-COVID-19- = 0 kr
Við fórum í þetta á Kef, þetta er bara vinstra megin þegar þú ert að koma út úr Tollinum, alveg á leiðinni út. Það var engin röð og ekkert vesen, fengum út úr því síðar um kvöldið.