
Pastasalat er einfalt að útbúa og gott að grípa með í nesti. Þegar ég var yngri fór ég reglulega á salatbarinn í Hagkaup og þá valdi ég mér einmitt alltaf það sem ég setti í þetta pastasalat hér, fyrir utan það, að þá var ekki til túnfiskur í chillisósu. Ég ætla alveg að leyfa mér að segja það að þessa pastasalat toppaði salatbarinn og virkilega gott að hafa chilli túnfiskinn, hann rífur aðeins í en á móti kemur grænmetið, eggið og mild dressing svo þetta var alveg fullkominn hádegisverður hjá mér þennan daginn. Restin fór síðan í box inn í ísskáp til þess að stelpurnar geti tekið með í nesti í skólann á morgun.

Ég eiginlega skil ekki af hverju maður gerir þetta ekki oftar! Það væri líka sniðugt að tvöfalda uppskriftina, skera allt niður og setja í sérskál og bjóða upp á alvöru salatbar í kvöldmatinn þar sem hver og einn getur valið það sem hann vill setja á sinn disk.

Pastasalat með Chilli túnfisk
Fyrir 2-3 manns
- 250 g pastaskrúfur
- 2 msk. Creamy French pastadressing
- 1/3 rauðlaukur
- ¼ agúrka
- 10 piccolo tómatar
- 1 lúka romaine salat
- 2 ananashringir (niðursoðnir)
- 1 lúka furuhnetur
- Fetaostur
- 2 dósir ORA túnfiskur í chillisósu
- Harðsoðin egg
- Salatdressing að eigin vali
- Sjóðið pasta samkvæmt leiðbeiningum á pakka, kælið og blandið Creamy French pastadressingu saman við í stórri skál.
- Skerið grænmetið niður og setjið saman við ásamt furuhnetum og fetaosti eftir smekk.
- Blandið öllu varlega saman við með sleif og skiptið niður í 2-3 skálar.
- Hellið olíunni af túnfisknum og skiptið dósunum niður á milli skálanna, toppið með salatdressingu að eigin vali og gott er að hafa harðsoðið egg með réttinum.

Verð að fá að mæla með þessum túnfisk, hann er algjör snilld og kemur skemmtilega á óvart.
