Þessi kartöflumús er eitt það besta sem við fáum. Uppskriftin hefur fylgt okkur síðan við bjuggum í Seattle en þar fylgdi hún Þakkargjörðarkalkúninum og nú ýmist honum eða hátíðarkalkúninum okkar hér á Íslandi. Máney vinkona gaf mér uppskriftina á sínum tíma og ég fæ bara vatn í munninn við að skrifa þessa færslu, þetta er sú allra besta „mús“ sem þið getið fengið!

Mér finnst „kröstið“ ofan á svo gott að ég geri stundum tvöfalda uppskrift af því og set músina í tvö grunn eldföst mót til að fá meira af henni með í hverjum bita.

Sætkartöflumús uppskrift
- 5 stk. sætar kartöflur
- ½ tsk. salt
- 3 msk. smjör við stofuhita
- 2 egg (pískuð)
- 1 tsk. vanilludropar
- ½ tsk. kanill
- 100 g sykur
- 2 msk. rjómi
Kröst ofan á
- 60 g hveiti
- 60 g smjör við stofuhita
- 40 g púðursykur
- 20 g hvítur sykur
- 50 g saxaðar pekanhnetur
- Skrælið kartöflurnar og skerið í nokkra bita, sjóðið þar til bitarnir mýkjast.
- Setjið kartöflubitana í hrærivélarskál ásamt öllum öðrum hráefnum og blandið saman og hellið í eldfast mót.
- Útbúið kröstið með því að hræra saman öllum hráefnunum nema pekanhnetum. Stráið deiginu jafnt yfir kartöflumúsina og einnig pekanhnetunum.
- Bakið í ofni við 180°C í um 20 mínútur eða þar til kröstið fer aðeins að gyllast.

Pekanhneturnar passa einstaklega vel með þessari kartöflumús.
