Purusteik eins og hjá pabba⌑ Samstarf ⌑
Purusteik eins og hjá pabba og mömmu

Ilmandi steikarlykt með negulkeim minnir sannarlega á jólin! Mamma og pabbi voru alltaf með svínabóg á Aðfangadag hér í denn og það er fátt betra en stökk puran og klassískt meðlæti. Þegar við „tókum við jólunum“ breyttum við um takt og erum með hamborgarhrygg og síðustu ár líka rjúpur og svínabógurinn er eldaður við önnur tilefni.

Purusteik eða svínabógur með stökkri skorpu

Í gær komu vinir okkar í „hversdagsmat“ en hann var öllu hátíðlegri þennan daginn þar sem ég var bæði að útbúa þessa uppskrift og djúsí jólaís sem kemur í loftið fljótlega. Þessi máltíð var dásamleg, sósan undursamleg og ekki skemmdi stökk puran fyrir! Hér fyrir neðan kemur því skotheld uppskrift að purusteik, sósu og öðru meðlæti.

Jólamatur, purusteik og meðlæti

Purusteik eins og hjá pabba

Uppskrift fyrir um 5-7 manns

Purusteik uppskrift

 • Um 2,5 kg purusteik/svínabógur
 • 1 laukur
 • 3 gulrætur
 • 3 lárviðarlauf
 • Piparkorn
 • Negulnaglar
 • 500 ml. vatn
 • 2 smjörklípur
 • Gróft salt
 • Bezt á svínið krydd
 1. Hitið ofninn í 130°C.
 2. Skerið rákir í puruna, kryddið eftir smekk en gott er að salta vel.
 3. Skerið lauk og gulrætur niður, setjið í botninn á stórum ofnpotti og leggið purusteikina þar ofan á með puruhliðina niður.
 4. Hellið vatninu í fatið ásamt nokkrum piparkornum, negulnöglum, smjörklípum og lárviðarlaufum.
 5. Setjið í ofninn í um 2 klukkustundir með lokið á, eftir um 2 klukkustundir má snúa kjötinu við í pottinum og færa puruhliðina upp, krydda að nýju og elda áfram með lokið á pottinum. Ef steikin hallar mikið er gott að krulla upp álpappír og setja undir aðra hliðina til þess að puran sé sem sléttust þegar það kemur að því að „poppa“ hana.
 6. Eftir um 2 klukkustundir til viðbótar (samtals 4 klukkustundir við 130°C) má taka lokið af, og hækka hitann í 225°C á ofninum til þess að fá stökka puru. Hér má sigta allt soðið úr ofnpottinum yfir í könnu og útbúa sósuna á meðan.
 7. Það getur tekið um 30 mínútur að fá puruna vel stökka og mikilvægt er að fylgjast vel með á meðan svo hún brenni ekki, samt leyfa henni að vera nægilega lengi til þess að hún verði stökk og gott er að setja grillið á eftir um 15 mínútur við 225° og klára eldunina þannig. 
 8. Þegar puran er orðin stökk má taka kjötið úr ofninum og leyfa því að hvíla í um 15 mínútur áður en það er skorið.

Oftast elda ég samt svínabóg og þá má miða við sömu aðferð nema lengja eldunartímann ef hann er þyngri en 2,5 kg. Til dæmis má elda 3,5 kg bóg fyrst á hvolfi í 3 klukkustundir og síðan snúa við í um 2 klukkustundir, síðan „poppa“ puruna á hærri hita eins og með purusteikina. Einnig mætti vatnið vera um 700 ml fyrir slíka steik en að öðru leyti er það sama aðferð og hér að ofan.

Purusteik með stökkri skorpu, brúnni sósu og brúnuðum kartöflum

Brún sósa uppskrift

 • 1 pk. Toro Fløtesaus
 • 1 pk. Toro Brun Saus
 • 30 g smjör
 • 1 laukur (saxaður smátt)
 • 500 ml soð frá purusteikinni
 • 500 ml rjómi
 • 2 msk. púðursykur
 • Salt og pipar
 1. Steikið laukinn upp úr smjöri þar til hann mýkist, kryddið með salti og pipar.
 2. Hellið soðinu í pottinn og hrærið sósuduftinu saman við.
 3. Bætið þá rjómanum og púðursykrinum saman við, náið upp suðunni og leyfið síðan að malla og smakkið til með salti og pipar.
TORO brún sósa

Það er snilld að nota Toro sósur sem grunn og þessi sósa var mjög ljúffeng og passaði undurvel með kjötinu.

Brúnaðar karamellu kartöflur

Brúnaðar kartöflur uppskrift

 • Um 1,5 kg kartöfur
 • 250 g sykur
 • 50 g smjör
 • 3 msk. rjómi
 1. Sjóðið og flysjið kartöflurnar.
 2. Hitið sykurinn á pönnu þar til hann byrjar að bráðna, hristið pönnuna til og passið að hann brenni ekki.
 3. Bætið smjörinu saman við og lækkið aðeins hitann, hrærið saman þar til sykurinn er uppleystur.
 4. Bætið þá rjómanum á pönnuna og hækkið aðeins hitann aftur þar til allt fer að „bubbla“, þá má hella kartöflunum saman við, lækka hitann aftur og hræra saman.
 5. Gott er að leyfa kartöflunum að malla og veltast aðeins um í karamellunni áður en þær eru bornar fram.
Meðlæti með purusteik, Ora baunir, rauðkál og perlulaukur

Annað meðlæti

 • Ora grænar baunir
 • Ora rauðkál
 • Perlulaukur
 • Rifsberjasulta

Já það þarf svo sannarlega ekki að vera flókið til að vera gott. Ora stendur alltaf fyrir sínu og ég man að pabbi var mikið hrifinn af perlulauk svo hann fékk að fljóta hér með.

Purusteik uppskrift

Mmmmmm þetta svar svo mikið gott. Ekki skemmir síðan fyrir hvað svínasteik er yfirleitt á góðu verði! Það var ekki til bógur í búðinni í gær þegar ég fór að versla en þessi Lúxus purusteik var til í Krónunni og var minnir mig á um 900 kr kílóið, sem er auðvitað bara hlægilegt verð fyrir svona steik!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
  0
  Karfan þín
  Karfan er tómNetverslun