Vetrarbúnaðurinn minnDúnúlpa fyrir vetrargöngur

Eins og þið hafið fengið að fylgjast með síðustu missieri er ég alltaf upp um fjöll og firnindi. Ég elska útivist, fjallgöngur og ferðalög ekki minna en eldhúsbras og fer þetta allt bara nokkuð vel saman! Það hefur reynst mér vel að núlla átið út með þessu brasi og svo er þetta bara svo mikið gott fyrir sálina.

Fatnaður í fjallgöngur

Ég hef stundað vetrarfjallamennsku undanfarið ár með markvissari hætti en áður og fengið að kynnast nýjum heimi hvað slíkt varðar. Það er dásamlegt að ganga á fjöll allt árið um kring en mjög mikilvægt að vera með réttan búnað og geta lesið í aðstæður yfir vetrarmánuðina. Við hjónin fórum á námskeið í vetrarferðamennsku í upphafi árs hjá Fjallhalla Adventurers og fengum að kynnast ýmsu sem okkur óraði ekki fyrir því að þurfa að nota, sem þá var ansi fjarlægt en er nú svo eðlilegt. Hér er ég að tala um ísexi, jöklabrodda og þar fram eftir götunum. Það er nefnilega þannig að ef maður ætlar að vera á svona brölti á veturna á Íslandi er mjög mikilvægt að vera rétt búinn.

Vetrarferðamennska

Ekki grunaði mig að ég ætti eftir að fara í jöklagöngu, ísklifur, íshellaskoðanir og annað slíkt fyrir ári síðan en allt þetta hefur átt sér stað á árinu og er algjörlega magnað og ég sannarlega til í að gera meira af!

Vetrarbúnaður í göngur

Mig langar til þess að deila með ykkur þeim búnaði sem ég er búin að koma mér upp fyrir veturinn sem vonandi gagnast ykkur sem viljið byrja að stunda vetrarfjallamennsku og göngur og vitið ekki hvað er gott að eiga. Veturinn er hins vegar alls konar á Íslandi og hitastig og veðurfar fjölbreytt en hins vegar er alltaf betra að búa sig undir það versta því skjótt skipast veður í lofti!

Grunnlag

Ull, ull, ull og aftur ull! Ég hefði varla trúað því að ég ætti eftir að klæðast ull allt árið um kring þar sem ég hef aldrei getað verið í lopa og mig stingur af öllu slíku. Ég byrjaði hins vegar að nota DEVOLD ullarfatnað fyrir nokkrum árum og hreinlega ELSKA hann! Ég nota því ull sem innsta lag allt árið um kring. Ég á mismunandi ullarfatnað sem hæfir hverri árstíð en þetta er það allra besta sem hægt er að ganga í. Þetta sett hér fyrir neðan er það nýjasta í ullarfjölskyldunni minni og mér finnst frábært að geta stýrt því hversu hátt kraginn á bolnum nær, hann nær allveg upp fyrir höku ef maður vill en svo má líka bretta hann niður og renna frá ef það er of heitt.

Ull til að vera í innst
Ullarfatnaður

Ég má síðan til með að benda ykkur á þennan ullarbol líka þar sem hann er æðislegur fyrir miklar vetrarhörkur og jöklagöngur. Á honum er hetta svo það er í raun hægt að pakka sér alveg inn þarna innst og síðan bæta húfu/hettu/skíðagleraugum eða öðru yfir. Ég fór í þessum bol á Hvannadalshnúk og myndi allan daginn velja hann aftur sem innsta lag.

Ullarbolur fyrir fjallgöngur

Miðlag

Hér hef ég verið í mismunandi flíspeysum. Einnig eru til renndar ullarpeysur sem hægt er að nota og sumir vilja hreinlega vera í lopapeysu. Ég keypti í haust fína flíspeysu frá Didriksons sem hefur hentað vel með ullarbolnum innan undir dúnúlpuna í vetur. Þessi hérna fyrir neðan er hins vegar á óskalistanum svo ég hugsa ég fjárfesti í henni á nýju ári fyrir komandi göngur.

Ysta lag

Góðar, fóðraðar, liprar og vatnsheldar göngubuxur eru mikilvægar. Það fer síðan eftir veðri hvað hentar best að ofan. Ég fékk mér nýja dúnúlpu fyrir göngur í haust og hún er algjörlega geggjuð en síðan þarf að vera með vatnshelda skel ef slydda eða suddi er úti.

Bergans göngubuxurnar frá Ellingsen eru ÆÐI og mæli ég með því að þið finnið buxur sem henta ykkar vaxtarlagi og göngum.

Göngubuxur konur

Ég fékk mér þessa geggjuðu dúnúlpu fyrr í vetur en hún er eins og ofn, ég er ekkert að grínast! Ég er algjör kuldaskræfa og því dýrka ég þessa úlpu. Ef það er þurrt úti er gott að fara í hana utan yfir ullina (og flís ef mikið kalt er) en ef það er blautt þá þarf að vera í skel. Þá hentar oft betur að vera í þunnri primaloft úlpu yfir ull/flís og skelinni yfir hana. Þessi þykka má þó gjarnan vera í bakpokanum því ef maður stoppar í nesti er gott að geta hent henni yfir sig.

Dúnúlpa í göngur

Ég á North Face primaloft úlpu sem hefur dugað mér fínt hingað til en eftir að ég kynntist Bergans vörunum þá er þessi komin ofarlega á óskalistann! Ég gaf Hemma einmitt svona herraúlpu í jólagjöf og hann er að ELSKA hana!

Primaloft úlpa

Vatnsheld skel er síðan mjööööög mikilvæg, allt árið um kring. Ég á þessa hérna frá North Face og finnst hún æðisleg og mjög létt.

Þriggja laga skel

Annar fatnaður

Mér er alltaf kalt á höndunum svo ég er með svokallaða „inner liner“ þunna ullarvettlinga frá DEVOLD og síðan stórar þykkar lúffur yfir, hér fyrir neðan sjáið þið inner liner vettlingana og síðan er úrval af þykkari hönskum hjá Ellingsen.

vettlingar dömur

Uppháir og hlýjir gönguskór eru mikilvægir. Ég er í Mammut Ducan High og þeir hafa dugað mér vel jafnt sumar sem vetur en ég væri samt alveg til í að eiga aðra sem eru enn hlýrri. Ökklinn minn er til vandræða og því er ég alltaf í vel reimuðum, uppháum gönguskóm en þannig hef ég náð að koma í veg fyrir óþarfa ökklasnúninga og vesen í slíkum ferðum.

gönguskór

Mig dreymir hins vegar um þessa hérna……því ég er soddan kuldaskræfa!

Hlýjir gönguskór

Bakpokinn

Stundum dugar bara að hafa lítinn poka ef farið er í styttri göngur. Ef maður hins vegar ætlar í lengri ferðir þá er mikilvægt að hafa stærri poka, bæði til að geyma fatnað, búnað og nesti.

Ég er með Osprey Kyte 46 lítra poka sem er sérhannaður fyrir konur, ég elska hann! Mér finnst gott að setja jöklabroddana neðst í hann í sérhólfið á veturna og vaðskó/handklæði á sumrin. Síðan er hægt að opna hann á hliðunum svo það skiptir í raun ekki hvernig raðað er í hann því aðgengi er gott frá öllum hliðum. Í litlu hólfunum á hliðunum er ég síðan með smá bita (hnetur/rúsínur) til að þurfa ekki að taka hann af mér á göngu ef mig langar aðeins í smá að narta í. Hægt er að setja vatnspoka með slöngu í hólf innan í honum en einnig passa vatns- og hitabrúsar í hólf á hliðunum. Krókar eru fyrir göngustafi og ísexi svo það kemst hreinlega allt fyrir í þessum poka!

Göngubakpoki

Aðrir aukahlutir

Hér kemur sá aukabúnaður sem er í pokanum mínum á vetrargöngum. Ég er ekki enn komin lengra en í dagsferðir á fjöllum svo við geymum annan sérhæfðari búnað til betri tíma.

 • Jöklabroddar (er með þessa hér frá Black Diamond úr Fjallakofanum) – stundum duga þó esjubroddar líkt og þessir hérna vel líkt og þegar farið er á bæjarfellin.
 • Ísexi (er með þessa Black Diamond Raven gönguexi úr Fjallakofanum)
 • Belti og karabínu ef þið farið í jöklaferðir (við höfum hingað til samt bara leigt þann búnað)
 • Fóðruð sessa fyrir nestisstopp (er með þessa hér frá GG sport)
 • Legghlífar (er með þessar úr GG sport)
 • Göngustafir (er með þessa úr Ellingsen)
 • Höfuðljós (dagurinn svo stuttur að þetta þarf yfirleitt í upphafi, enda eða bæði)
 • Sólgleraugu/Skíðagleraugu – til víða og eru smekksatriði, gott að hafa sterk útivistargleraugu fyrir jöklaferðir
 • Mittistaska (hentar vel ef þú vilt ekki þurfa að taka bakpokann af til að sækja sólgleraugu, sólarvörn, orkustykki o.þ.h)
 • Auka húfa/höfuðfat/lambúshetta/ullarbuff
 • Auka ullarsokkar
 • Auka vettlingar
 • Auka peysa og úlpa (létt dúnúlpa)
 • Vaðskór og handklæði (ef það þarf að vaða yfir ár)
 • Varasalvi og sólarvörn
 • Salernispappír og pokar
 • Auka rafhlöður/hleðslubanka
 • Hælsærisplástur og annar plástur
 • Gott nesti, nóg að drekka og heitt á brúsa

Hér fyrir ofan hef ég talið upp þann búnað sem mér finnst mikilvægur og hentar mér vel fyrir mitt fjallabrölt að vetri til.

Nesti er auðvitað eitthvað sem er mikilvægt en ég hugsa ég setji inn sérfærslu fyrir slíkt á næstunni. Heitur drykkur á brúsa er samt nauðsynlegur að vetri til því það er ekkert betra en setjast niður í pásu í kuldanum og fá sér heitan drykk. Við erum yfirleitt tvö saman á göngu og þá hentar þessi brúsi hér fyrir neðan mjög vel. Ef við fjölskyldan erum hins vegar öll á ferðinni þá nota ég stærri brúsa sem hefur fylgt okkur síðan við bjuggum í Seattle.

Hitabrúsi

Ef þið lumið á uppáhalds nestishugmyndum fyrir bakpokann megið þið endilega senda mér línu. Það væri gaman að geta tekið saman ágætis hugmyndalista því stundum hefur maður ekki mikinn tíma og endar alltaf á því að setja það sama í pokann, hahaha!

Ég er í samstarfi við Ellingsen svo hluti af þeim fatnaði sem ég mæli með hér að ofan kemur frá þeim í gegnum þsamstarf. Ellingsen er með mikið úrval af frábærum útivistarfatnaði svo ég hef ekki þurft að leita lengra ef mig hefur vantað eitthvað, nema til þess að sækja mér sérhæfðari búnað.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
  0
  Karfan þín
  Karfan er tómNetverslun