Ég var að prófa að elda andabringur í fyrsta skipti og það lukkaðist svona líka vel! Já krakkar mínir, það er eitt og annað sem maður á eftir að prófa í eldhúsinu og það get ég sagt ykkur að þetta er sannarlega ekki í síðasta skipti sem andabringur verða hér á boðstólnum, namm!

Ég mæli með því að byrja á því að græja grunninn fyrir sósuna og leyfa því að malla á meðan allt annað er undirbúið. Einnig þarf að koma kartöflunum í suðu og marinera sveppina áður en byrjað er á bringunum til þess að þetta smelli allt saman á réttum tíma.
HÉR finnið þið Reels myndband af þessum uppskriftum!

Andabringur með rauðvínssósu
Fyrir 3-4 manns
Andabringur uppskrift
- 2 x Valette andabringur
- Salt og pipar
- Leyfið andabringunum að ná stofuhita áður en þið eldið þær.
- Hitið ofninn í 160°C.
- Skerið tígla í fituna án þess að fara í gegn í kjötið og nuddið grófu salti í hana alla.
- Steikið á fremur háum hita í 4-5 mínútur með fituhliðina niður, takið alla umfram fitu jafnóðum af pönnunni svo fituhliðin verði stökk.
- Steikið síðan í um 2-3 mínútur á hinni hliðinni, saltið og piprið báðar hliðar eftir smekk.
- Færið í ofninn í um 15 mínútur til viðbótar eða þar til kjarnhiti nær 60°C.
- Leyfið bringunum að standa í að minnsta kosti 10-15 mínútur áður en þið skerið þær niður í þunnar sneiðar.
Rauðvínssósa uppskrift
- 30 g smjör
- 1 laukur
- 2 meðalstórar gulrætur
- 2 hvítlauksrif
- 350 ml Muga rauðvín
- 400 ml vatn
- 2 msk. fljótandi Oscar nautakraftur
- 1 msk. soyasósa
- 2 lárviðarlauf
- 3 negulnaglar
- 1 anísstjarna
- 1 tsk. salt
- ½ tsk. pipar
- 2-3 msk. Maizenamjöl
- Skerið lauk og gulrætur gróft niður og steikið upp úr smjörinu ásamt hvítlauknum. Leyfið að malla í nokkrar mínútur eða þar til grænmetið mýkist.
- Hækkið þá aftur hitann, hellið rauðvíninu í pottinn, náið upp suðunni og leyfið því að sjóða niður í nokkrar mínútur á meðalháum hita.
- Þá má setja öll önnur hráefni í pottinn (nema Maizenamjöl) og hækka aðeins undir aftur til að ná upp suðunni að nýju, lækka síðan vel niður og leyfa að malla í að minnsta kosti 30 mínútur, lengur ef þið hafið tíma.
- Sigtið þá allt gumsið frá, hellið sósunni aftur í pottinn, náið upp hitanum að nýju og þykkið eftir smekk með Maizenamjöli. Sósan má síðan alveg hvíla við mjög lágan hita á meðan þið klárið aðra eldamennsku.
Kartöflumús uppskrift
- Um 1,2 kg kartöflur
- 30 g smjör
- 300 ml nýmjólk
- 1 msk. sykur
- ½ tsk. salt
- 30 g rifinn parmesan ostur
- Skrælið kartöflurnar og sjóðið þar til þær verða mjúkar og hellið þá vatninu af þeim.
- Setjið öll önnur hráefni í pottinn og stappið saman með kartöflustöppu, eða setjið allt saman í hrærivélarskálina og blandið vel saman.
Marineraðir sveppir
- Um 300 g kastaníusveppir
- 4 msk. Filippo Berio ólífuolía
- 2 msk. Filippo Berio balsamikgljái
- 2 msk. soyasósa
- 2 msk. púðursykur
- 2 rifin hvítlauksrif
- 1 tsk. saxað timian
- Hitið ofninn í 200°C.
- Blandið öllum hráefnum saman í skál fyrir utan sveppina.
- Veltið sveppunum næst upp úr blöndunni, setjið í eldfast mót og bakið í ofninum í 40 mínútur.
- Gott er að velta sveppunum upp úr marineringunni nokkrum sinnum á meðan þeir eru í ofninum.

Valette andabringurnar fást í Hagkaup og Fjarðarkaup.

Auðvitað notum við síðan uppáhalds rauðvínið með þessari dásemd. Vá hvað ég hlakka til að prófa fleiri uppskriftir með önd á næstunni, heill nýr heimur að opnast hér í eldhúsinu skal ég segja ykkur, hahaha!

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Gerum daginn girnilegan