Almáttugur krakkar ef þetta er ekki kakan sem þið ætlið að bjóða upp á á Gamlárskvöld þá veit ég ekki hvað! Hún er einföld og sjúklega góð! Það má baka botnana með fyrirvara til að spara tíma svo hér er nákvæmlega ekkert sem getur klikkað!

Betra að frysta browniebotninn ef þið gerið hann fyrr en deginum áður en marengsinn má plasta og geyma við stofuhita í marga daga. Síðan er hægt að setja kökuna saman kvöldið áður eða samdægurs.

Tobleronesósan gerir kökuna extra djúsí og góða og þessi samsetning er bara hreint út sagt guðdómleg.

Hnallþóra áramótanna
Browniebotn uppskrift
- 100 g Toblerone
- 100 g dökkt súkkulaði
- 150 g smjör við stofuhita
- 100 g sykur
- 80 g púðursykur
- 2 egg
- 2 tsk. vanilludropar
- ½ tsk. salt
- 20 g Cadbury bökunarkakó
- 70 g hveiti
- Hitið ofninn í 175°C.
- Setjið bökunarpappír í botninn á 22 cm smelluformi, spreyið síðan vel í hliðarnar og yfir pappírinn með PAM matarolíuspreyi.
- Bræðið saman Toblerone og dökkt súkkulaði, geymið.
- Þeytið smjör, sykur og púðursykur þar til létt og ljóst.
- Bætið eggjum og vanilludropum saman við og skafið og þeytið vel á milli.
- Bætið súkkulaðiblöndunni saman við og skafið niður á milli.
- Að lokum fara þurrefnin (hveiti, bökunarkakó og salt) saman við, hrærið stutt saman og setjið síðan í bökunarformið.
- Bakið í um 35 mínútur eða þar til prjónn kemur út með smá kökumylsnu á endanum en ekki blautu deigi, kælið áður en þið setjið saman.
Marengsbotn uppskrift
- 2 eggjahvítur
- 150 g púðursykur
- Hitið ofninn í 160°C.
- Setjið bökunarpappír í botninn á 22 cm smelluformi og spreyið hliðarnar að innan með PAM matarolíuspreyi.
- Þeytið saman eggjahvítur og púðursykur þar til topparnir halda sér.
- Setjið í formið og sléttið úr eins og hægt er.
- Bakið í 45 mínútur, slökkvið á ofninum og leyfið marengsinum að kólna með ofninum.
Tobleronesósa uppskrift
- 210 g Toblerone
- 130 ml rjómi
- Bræðið saman í potti á meðalháum hita þar til súkkulaðið er bráðið.
- Hrærið vel í allan tímann og leyfið sósunni síðan að ná stofuhita áður en hún er notuð.
Fylling og samsetning
- 650 ml þeyttur rjómi
- 100 g saxað Toblerone
- Stórt og lítið Toblerone til skrauts
- Kerti, stjörnur eða annað til skrauts
- Blandið söxuðu Toblerone saman við þeytta rjómann og hefjist handa við samsetningu.
- Setjið browniebotninn á kökudisk og tæplega helming Tobleronesósunnar yfir botninn.
- Setjið þá um 2/3 af rjómanum yfir sósuna og marengsbotninn ofan á næst.
- Þá má setja aftur tæplega helming af Tobleronesósu yfir marengsinn og síðan restina af rjómanum.
- Fallegt er síðan að setja restina af Tobleronesósunni yfir rjómann, saxað Toblerone, heila Toblerone bita og það kökuskraut sem ykkur dettur í hug.

Er einhvern tímann of mikið Toblerone…..nei ég bara spyr, hahaha!

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Gerum daginn girnilegan
Kertin keypti ég í Blómaval/Húsasmiðjunni í Grafarholti og stjörnurnar átti ég afgangs síðan í fermingu dóttur minnar fyrir nokkrum árum en ég fann sambærilegar á vefnum hjá Partývörum.