Draumkennd súkkulaðimús⌑ Samstarf ⌑
Súkkulaðimús með Toblerone

Hér er hin sívinsæla Toblerone súkkulaðimús Gotterí komin í nýrri útfærslu til þess að gefa ykkur enn frekari hugmyndir til að nýta þessa undursamlegu uppskrift. Toblerone súkkulaðimúsin sem hefur verið hér á síðunni síðan 2014 er án efa ein vinsælasta uppskrift síðunnar. Hún er sérlega vinsæl í desembermánuði og aukast heimsóknir til hennar ansi þétt þegar nær dregur hátíðsdögunum.

Góð súkkulaðimús

Mig grunar því að margir Íslendingar bjóði upp á þessa dásamlegu mús í eftirmat á jólum eða áramótum. Enda skyldi engan undra því þeir sem þessa hafa smakkað…..geta ekki hætt!

Toblerone súkkulaðimús með Oreo botni

Draumkennd súkkulaðimús uppskrift

Uppskrift er fyrir um 6-8 manns

Botn

 • 18 Oreo kexkökur
 • 70 g brætt smjör
 1. Myljið kexið niður í blandara og hellið í skál.
 2. Blandið bræddu smjörinu saman við og þjappið síðan í botninn á bökumóti.
 3. Kælið á meðan súkkulaðimúsin er útbúin.

Súkkulaðimús uppskrift

 • 375 g Toblerone súkkulaði
 • 120 g smjör
 • 3 egg
 • 450 ml stífþeyttur rjómi
 1. Bræðið gróft saxað Toblerone og smjör yfir vatnsbaði.
 2. Þegar súkkulaðiblandan er slétt og fín er hún tekin af hitanum og leyft að standa í um 5-7 mínútur til að hitinn rjúki aðeins úr (hrært í af og til). Athugið að það er allt í lagi þó núggatið sé ekki alveg bráðið, það er gott að finna aðeins fyrir því í músinni.
 3. Næst eru eggin pískuð saman og bætt saman við súkkulaðiblönduna í nokkrum skömmtum, hrært vel í á milli.
 4. Þá er um 1/3 af rjómanum blandað varlega saman við súkkulaðiblönduna með sleif, síðan allri restinni af rjómanum (þetta er gert til þess að músin skilji sig síður).
 5. Hellið yfir Oreobotninn og kælið í lágmark þrjár klukkustundir (einnig í lagi að plasta og geyma yfir nótt).

Toppur og skraut

 • 300 ml rjómi
 • 1 msk. Cadbury bökunarkakó
 • 1 msk. flórsykur
 • Ristaðar kókosflögur
 • Driscolls Hindber
 • Toblerone spænir (t.d hægt að skera með ostaskera af hliðunum)
 1. Þeytið saman rjóma, kakó og flórsykur þar til rjóminn er stífþeyttur.
 2. Smyrjið yfir kælda súkkulaðimúsina og skreytið með kókosflögum, hindberjum og Toblerone spæni.
 3. Geymið í kæli fram að notkun.

Toblereone súkkulaði er eitt allra besta súkkulaði sem hægt er að hugsa sér að mínu mati. Ég hreinlega elska það og finnst alls ekki leiðinlegt að prófa með því nýjar uppskriftir. Ef þið lumið á nýjum Toblerone hugmyndum fyrir mig megið þið endilega senda mér þær á gotteri@gotteri.is eða á Instagram síðu Gotterí!

Besta súkkulaðimúsin

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
  0
  Karfan þín
  Karfan er tómNetverslun