Þessi súkkulaðimús er ein vinsælasta færslan hér á heimasíðunni, mörg þúsund manns heimsækja hana til dæmis fyrir hátíðirnar svo það er ekki hægt annað en mæla með henni í eftirrétt.
Hér fyrir ofan sjáið þið uppskriftamyndband sem ég vann á dögunum með Gerum daginn girnilegan!
Toblerone súkkulaðimús uppskrift
- 500 g Toblerone súkkulaði (gróft saxað)
- 150 g smjör
- 4 egg
- 600 ml stífþeyttur rjómi (+ um 500 ml til skrauts)
- Toblerone, ber, súkkulaðispænir eða annað til skrauts
- Bræðið gróft saxað Toblerone og smjör yfir vatnsbaði.
- Þegar súkkulaðiblandan er slétt og fín er hún tekin af hitanum og leyft að standa í um 5-7 mínútur (hrært í af og til).
- Eggin eru pískuð saman og bætt saman við í nokkrum skömmtum, hrært vel á milli.
- Um 1/3 af rjómanum er þá blandað saman við súkkulaðiblönduna með sleif, síðan er restinni af rjómanum vafið saman við.
- Skipt niður í 8-12 glös/skálar (fer eftir stærð) – kælið í lágmark 3 klst (einnig í lagi að plasta og geyma yfir nótt).
- Skreytið með þeyttum rjóma, berjum, Toblerone eða öðru sem hugurinn girnist.
Það er bara algjörlega ómissandi að bjóða upp á Toblerone yfir hátíðirnar!
Hér fyrir neðan sjáið þið síðan ýmsar eldri útgáfur og myndband. Það er nokkuð ljóst að þessi uppskrift hefur verið gerð ansi oft á mínu heimili og hér fyrir bloggið!
Hér er annað eldra myndband sem gert var fyrir nokkrum árum.
Hef gert þessa svo oft að hér er önnur útfærsla af skreytingu.
Megið endilega fylgja Gotterí líka á INSTAGRAM
Sæl.
Ég ætla að vera með Tobleronemúsina fyrir fjóra.Ef að ég helminga uppskriftina væri það passlegt.?
Er með nokkuð venjulega stærð af desertglösum. BKV/ Ragnheiður.
Girnilegt…en fyrir hvað marga er þetta cirka..?
Sæl Eva, þetta er í c.a 8-12 glös (fer eftir stærð)