
Þakkargjörðarhátíðin er í vikunni og aðventan rétt handan við hornið! Það má svo sannarlega gera vel við sig á þessum tímum og að útbúa ljúffengan heimatilbúinn ís er einfaldara en þig grunar! Ég tala nú ekki um ef það er hægt að fylgja myndbandi eins og er í boði hér fyrir neðan.
Ég vann nokkur uppskriftarmyndbönd í samvinnu við Gerum daginn girnilegan á dögunum og mikið sem það er gaman að sjá þau fara í loftið.

Mér finnst Daim passa ótrúlega vel með ís og fæ mér til dæmis alltaf Daimkúlur þegar ég fæ mér bragðaref svo ég þurfti ekki að hugsa mig tvisvar um varðandi þessa ístertu. Heit Toblerone íssósa toppar þetta síðan allt saman og ég get lofað ykkur því að öll fjölskyldan mun elska þennan ís!

Daim ísterta uppskrift
Ísterta uppskrift
- 5 egg (aðskilin)
- 100 g púðursykur
- 2 tsk. vanillusykur
- 420 ml þeyttur rjómi
- 200 g Daimkurl (2 pokar)
- Þeytið eggjarauður og púðursykur þar til létt og ljóst og bætið vanillusykri saman við í lokin.
- Vefjið þeyttum rjóma saman við með sleif og bætið Daimkúlum saman við.
- Að lokum má stífþeyta eggjahvíturnar og vefja þeim varlega saman við rjómablönduna.
- Hellið í form og best er að plasta og frysta ístertuna í sólarhring.
- Takið ístertuna úr forminu þegar það á að bera hana fram og skreytið hana með Toblerone sósu, Daimkurli og hindberjum.
Toblerone sósa og skreyting
- 100 g Toblerone
- 3 msk. rjómi
- Daimkúlur
- Fersk hindber
- Bræðið Toblerone og rjóma saman í potti þar til súkkulaðið er bráðið.
- Leyfið sósunni aðeins að þykkna og hitanum að rjúka úr. Berið þá fram með ístertunni ásamt Daimkúlum og ferskum hindberjum.

Megið endilega fylgja Gotterí líka á INSTAGRAM