Hér er á ferðinni ekta hversdagsmatur sem allir í fjölskyldunni elska. Það er alltaf svo gott þegar hægt er að setja allt í eitt fat til að hita í ofni, þá er hægt að ganga frá og leggja á borð á meðan það eldast.

Það kom vel út að setja pasta í réttinn sjálfan í stað þess að sjóða það og bera fram til hliðar og þarf ég að vera duglegri að útbúa einfaldar hversdagsuppskriftir fyrir ykkur.

Kjúklingur, pasta og rjómasósa, namm!

Kjúklingaréttur í ofni
- 230 g Dececco farfalle pasta
- 150 g beikon
- 1 poki Rose Poultry úrbeinuð kjúklingalæri (700 g)
- 1 laukur
- 3 hvítlauksrif
- 1 dós kjúklingasúpa (295 g)
- 500 ml matreiðslurjómi
- 100 g Philadelphia rjómaostur
- 1 msk. fljótandi Oscar kjúklingakraftur
- 200 g rifinn cheddar ostur
- 100 g rifinn gouda ostur
- Ólífuolía til steikingar
- Salt, pipar, paprikuduft
- Hitið ofninn í 180°C.
- Sjóðið pasta samkvæmt leiðbeiningum á pakka á meðan annað er undirbúið.
- Klippið beikonið niður í litla bita og steikið upp úr ólífuolíu, geymið.
- Skerið næst kjúklinginn í bita, steikið upp úr ólífuolíu, kryddið með salti, pipar og paprikudufti, leggið til hliðar.
- Skerið niður lauk og hvítlauk, steikið þar til mýkist og kryddið með salti og pipar.
- Hellið þá kjúklingasúpu, matreiðslurjóma, rjómaosti og 100 g af cheddar osti á pönnuna og hrærið þar til bráðið.
- Bætið kjúkling og pasta saman við og hellið í eldfast mót.
- Stráið restinni af ostunum yfir ásamt beikoninu og bakið í um 20 mínútur.

Það gerði mikið fyrir þennan rétt að hafa beikonið ofan á svo ég mæli með að þið sleppið því ekki þó það sé auðvitað hægt.

Mmmm…..

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Gerum daginn girnilegan