Fjölskyldufrí á Gran Canaria



Puerto de Mogán Gran Canaria

Ó krakkar mínir ég veit ekki hvar ég á að byrja núna mig langar að segja svo margt! Því get ég þó lofað að þessi færsla verður löng! Þið sem mig þekkið vitið að ég elska að ferðast og ævintýrast út um allt. Ég sit sjaldnast auðum höndum og slaka á í takmörkuðu magni þó svo ég sé nú alltaf að reyna að bæta úr því, hahaha. Að fara erlendis í sólarfrí með stórfjölskylduna var því ein allsherjar skemmtun, í bland við ogguponsu slökun auðvitað inn á milli.

Parque Cristobal á Gran Canaria

Við Hemmi fórum í fyrsta sinn til Gran Canaria í nóvember og komumst að því í þeirri ferð að þessi eyja hefur upp á ótrúlega margt spennandi að bjóða. Við skoðuðum okkur um eins og við gátum og vorum staðráðin í því að fara aftur síðar með stelpurnar með okkur. Eftir að hafa fengið okkur fullsödd af endalausum lægðum og óveðri hér á Íslandinu góða það sem af er ári pöntuðum við ferð með skömmum fyrirvara með VITA ferðaskrifstofu og stukkum á hótelið HD Parque Cristóbal.

MYNDIR & VIDEO úr ferðinni í Highlights á Instagram með því að smella á þennan link, fleiri myndbönd hér fyrir neðan líka!

Ég leyfði ykkur að fylgjast með ferðalaginu á Instagram og það rigndi yfir mig spurningum á hverjum degi um hitt og þetta, mest samt um hótelið! Ég er því búin að taka hér saman allar helstu upplýsingar sem mér datt í hug að setja inn og vona þær nýtist ykkur sem eruð í sólarlandahugleiðingum til Gran Canaria…..sem er klárlega nýja uppáhalds eyjan mín!

Parque Cristobal hótel á Kanarí

HÓTELIÐ – HD Parque Cristóbal

Ég ætla að vera alveg hreinskilin og segja að ég er engin 3ja stjörnu kona svona almennt þegar kemur að hótelvali! Við Hemmi skoðuðum hins vegar þetta hótel í síðustu ferð og leist vel á svo ég ákvað að láta slag standa og prófa þetta þar sem þetta var á mjög góðu verði. Eftir dvölina dreg ég snarlega alla mína 3ja stjörnu fordóma tilbaka og gæti ekki hugsað mér að gista annars staðar en akkúrat þarna ef ég færi aftur með fjölskylduna! Skil reyndar bara alls ekki af hverju þetta er aðeins 3ja stjörnu hótel, en það er nú önnur saga!

HD Parque Cristobal Hotel Gran Canaria

Allt svo fallegt!

Parque Cristobal hotel Kanarí

Hótelið er allt nýlega endurnýjað, svo snyrtilegt og fínt og herbergin rúmgóð. Við uppfærðum reyndar í EMBLEM Villa til að fá smá lúxus, sér garð, heitan pott og svona………..EN, nýttum það alls ekki nægilega mikið þar sem við vorum á ferð og flugi um alla eyju að leika okkur. Hvort sem fólk uppfærir í slík herbergi eða ekki þá eru öll herbergin nýuppgerð og ef það er ekki garður eins og í EMBLEM Villa þá eru alltaf sólbekkir og borð fyrir framan á veröndinni í öllum húsunum svo það er lítið mál að vera aðeins útaf fyrir sig, sama hvar maður er í garðinum.

„Room tour“
Parque Cristobal hotel Kanarí

Menntaskólinn var akkúrat í fríi þessa daga sem við fórum svo elsta dóttir okkar og tengdasonur gátu komið með. Þau fengu sér „Bungalow“ og vorum við því hjónin með tvær yngri dætur okkar í einni íbúð og unglingarnir í annarri íbúð rétt hjá okkur.

HD Parque Cristobal Hotel Gran Canaria
Einkagarðurinn okkar í EMBLEM Villa

Hótelgarðurinn er síðan ævintýri út af fyrir sig og ótrúlega spennandi dagskrá og afþreying í boði. Hægt var að fara í jóga, pilates, spinning, vatnaspinning, tennis, körfubolta, þythokkí, billjard, borðtennis, bangsavélar, hringekjur, fótboltaspil……já ég gæti talið endalaust upp!

Myndband frá aðstöðunni á hótelinu!

Parque Cristobal hotel Kanarí

Ég skellti mér meira að segja í Pilates tíma, úti í sólinni á þessum fallega stað, ójá ég gæti sko alveg vanist því!

HD Parque Cristobal Hotel Gran Canaria

Pilates, jóga eða teygjur undir pálmatrjám, JÁ TAKK!

Síðan er skipulögð dagskrá fyrir börn þar sem þau geta farið í „Kids Club“ á hverjum degi í ákveðinn tíma í senn og síðan er Mini-disco á kvöldin. Það var til dæmis boðið upp á listadag þar sem allir voru að mála, stóladans, föndur, „Splash“ dag í sundlauginni og „Movie night“ eitt kvöldið, þar sem þau fengu að horfa og borða kvöldmat og á meðan gátu foreldrar skroppið út að borða.

Ég tók mögulega skilljón og þúsund myndir eins og venjulega en reyndi að velja hér úr til að gefa ykkur sem besta innsýn í þetta allt saman.

Það eru tvö sundlaugarsvæði í garðinum. Annað er kallað „Splash Zone“ en þar eru rennibrautir og fjör fyrir krakkana en á hinu svæðinu er stór laug, vaðlaug og kósýlaug með legubekkjum. Í garðinum er einnig að finna aparólu, lítinn matjurtargarð sem krakkarnir mega skoða og fleiri falleg svæði.

HD Parque Cristobal Hotel Gran Canaria

Það er ekki hægt að segja annað en að það sé nóg um að vera á hótelinu!

Parque Cristobal hótel á Kanarí

Þessi fékk „sápukúlu-myndavél“ í Ale-Hop á einar 10 evrur og litla lukkan sem þessi græja vakti! Allir krakkarnir í sundlaugargarðinum voru farnir að elta Huldu Sif á röndum og elta sápukúlurnar!

HD Parque Cristobal Hotel Gran Canaria

Mikið af góðum mat í boði!

Parque Cristobal hotel Kanarí

Við vorum með „All inclusive“ og mikið sem það var fínt að þurfa ekki að hugsa fyrir mat og hver og einn gat bara farið og náð sér í eitthvað ef hann var svangur. Það var morgun- hádegis- og kvöldverðarhlaðborð á aðal veitingastaðnum á mismunandi tímum dags. Við „Splash Zone“ var síðan bröns og snack matur frá hádegi og alveg þar til síðdegis. Þetta voru hamborgarar, samlokur, pasta og þannig sem stelpurnar elskuðu. Drykki, ákveðnar tegundir af ís og ávexti var alltaf hægt að ganga í svo allir fengu eitthvað við sitt hæfi.

Matseðill vikunnar í myndbandi!

Þessi náði sér í ófáa jarðarberjaísana í frystinn og bjargaði sér algjörlega sjálf í þeim málum, hver er svosem að telja ísana þegar maður er í útlöndum, hahaha!

Parque Cristobal hotel Kanarí
Hótelgarðurinn er svo fallegur og gaman að labba þar um!

All inclusive hjá EMBLEM býður síðan upp á að hægt er að bóka sig í bæði morgun- og kvöldverð í sér rými inn af almenna veitingastaðnum þar sem pantaður er matur af matseðli. Morgunmaturinn þar var algjörlega geggjaður, verst að við prófuðum hann samt ekki fyrr en síðasta daginn, muhahahaha! Hefðum pantað alla morgna þar ef við hefðum prófað fyrr! Síðan er ítalskur staður á hótelinu sem heitir La Trattoria og þar gátum við einnig pantað borð og fengið dýrindis ítalskan mat.

Parque Cristobal hotel Kanarí

HD Parque Cristobal er staðsett ofarlega á ensku ströndinni og er með frábæra aðstöðu. Við vorum því ekki mikið að rölta um svæðið þar í kring enda var nóg um að vera innan veggja hótelsins á milli þess sem við tókum leigubíla til annarra staða. Við röltum þó eitt kvöld yfir í Yumbo Center í minigolf og kíktum aðeins í búðir og allir skemmtu sér vel!

AFÞREYING

Það er ótrúlega margt spennandi hægt að gera á Gran Canaria. Við vorum dugleg að leika okkur en listinn okkar er langt frá því að vera tæmandi. Þessi eyja hefur upp á ótal margt að bjóða fyrir fjölskyldur sem og einstaklinga/pör svo allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Dunes Maspalomas

Sandöldur á Kanarí

Sandöldurnar svokölluðu eru á milli ensku strandarinnar og Meloneras svæðisins. Á báðum endum er klassísk strönd þar sem fólk er að leika sér í sjónum og slaka á en síðan taka sandöldurnar við þar á milli. Það er göngustígur sem liggur fyrir ofan þær og síðan ganga margir meðfram sjónum alla leið á milli svæða.

Dagur á ströndinni!

Maspalomas dunes

Við tókum „Beach bus“ frá hótelinu okkar niður að Faro vitanum og ákváðum að skoða okkur um á Meloneras svæðinu, sýna krökkunum Lopesan Costa Meloneras hótelið sem við vorum á í síðustu ferð, skoða aðeins í búðir, fara á uppáhalds Starbucks, kíkja á úlfaldana og ganga síðan yfir sandöldurnar yfir á ensku ströndina. Krökkunum fannst gaman að labba yfir en þetta er alveg smá spotti og ekki láta ykkur bregða ef þið gangið inn á nektarsvæði, þau eru þarna víða, haha! Verðlaunin fyrir krakkana voru síðan að komast á McDonalds eftir labbið, hahaha! Við tókum síðan leigubíl þaðan aftur upp á hótel því við vorum komin með nóg af göngu þennan daginn.

Holiday World

Holiday World Gran Canaria

Við vorum svo heppin að nágrannar okkar og vinir voru á Gran Canaria á sama tíma og við svo við hittum þau í Holiday World tívolíinu eitt kvöldið og nánast áttum svæðið því það voru svo fáir.

Holiday World Gran Canaria

Þetta tívolí kom heldur betur á óvart, mjög snyrtilegt og flott og allir skemmtu sér konunglega. Þarna er einnig hægt að fara í keilu og leiktækjasal og síðan er nokkurs konar mathöll á efri hæðinni fyrir þá sem vilja snæða á staðnum.

Palamitos Park

Palamitos Park Gran Canaria

Þessi dýragarður er uppi í fjöllunum fyrir ofan Maspalomas svæðið. Við tókum þangað leigubíl og vorum komin við opnun. Það voru fuglasýningar og höfrungasýning í boði ásamt fullt af krúttlegum og flottum dýrum að skoða.

Palamitos Park – myndband!

Palamitos Park Gran Canaria

Elín Heiða fékk að fara ofan í með höfrungum í 30 mínútur í sérstöku prógrammi, fékk að fræðast um þessi fallegu dýr, læra nokkur trikk frá höfrungatemjurunum svo það var aldeilis upplifun fyrir eina 12 ára! Hulda Sif mín yngsta fékk síðan að sitja fyrir með höfrungi á mynd og stóð sig vel. Harpa Karin hefur prófað hvorutveggja áður svo hún fylgdist bara með systrum sínum í þetta skiptið.

Höfrungaævintýri!

Palamitos Park Gran Canaria

Við keyptum 2 Parks ticket á síðunni þeirra sem var þá bæði í Palamitos Park og Aqualand á fínu verði.

Puerto de Mogán og Puerto Rico

Mogán Gran Canaria

Ég hef sagt það áður og segi það aftur, að Mogán strandbæinn verða allir sem koma til Gran Canaria að heimsækja! Þessi bær er svo fallegur og ströndin dásamleg. Við ætluðum að vera á bílaleigubíl en eftir Covid eru þeir orðnir dýrari (svo fáir í boði) en að ferðast um á leigubíl í ákveðnum tilfellum svo við völdum að leigubílast þennan daginn.

Við tókum bíl frá hótelinu og út á strönd, eyddum þar deginum í sólbaði, mokuðum sandkastala og lékum okkur. Eldri börnin og pabbinn fóru á Jet Ski og Crazy UFO (uppblásinn sófi sem er dreginn á sjónum) og fannst það geggjað og síðan fórum við öll saman á tvo hjólabáta. Það er leiga niðri á ströndinni og við pöntuðum bara þegar við komum á staðinn og hún er opin alla daga frá 10:00-17:00.

Things to do in Gran Canaria

Í götunni niðri við ströndina er ítalskur staður sem heitir La Cicala þar sem við fengum geggjaðar margaritu pizzur, pasta, lasagna og fleira í hádeginu. Þarna í kring eru samt mun fleiri veitingastaðir og verslanir svo það er úr nægu að velja. Ég held reyndar ég myndi næst vilja gista nokkrar nætur í þessum bæ til að prófa fleiri og fínni veitingastaði, tíhí.

Í lok dags tókum við síðan síðusta „Boat-Taxi“ yfir til Puerto Rico sem er einnig fallegur strandbær aðeins nær Maspalomas svæðinu. Það var gaman að sjá alla smábæina og strendurnar frá sjónum og Puerto Rico er einnig æðislegur staður þó svo Mogán eigi vinninginn að okkar mati.

Puerto de Mogán Gran Canaria

Við fengum okkur síðdegissnarl þar við ströndina í sólsetrinu og fórum síðan í Mogán Mall til að leyfa krökkunum aðeins að versla og skoða sig um.

Aqualand

Aqualand Gran Canaria

Aqualand er rétt fyrir ofan hótelið á leiðinni upp í fjöllin (sama leið og til Palamitos Park en miklu styttra). Við skelltum okkur þangað daginn áður en við fórum heim og almáttugur hvað það var mikið fjör! Við vorum komin þegar það opnaði kl:10:00 og hefðum auðveldlega getað verið til lokunar! Við Hulda Sif leigðum okkur bekki á barnasvæðinu og vorum þar að „chilla“ á meðan restin hljóp um allt að leika sér. Við fengum okkur hádegismat í garðinum og vorum síðan komin aftur „heim“á hótel um kaffileytið til að njóta aðstöðunnar þar aðeins líka síðasta daginn.

Reels myndband frá Aqualand!

Go Kart

Things to do Gran Canaria

Vinir okkar voru á leið í Go Kart síðasta kvöldið og auðvitað stukkum við á vagninn þrátt fyrir annasaman dag. Planið var að fara eitthvað fínt út að borða síðasta kvöldið en krakkarnir voru frekar til í að eyða tímanum í þetta svo maturinn fékk að fjúka fyrir fjöri! Yngstu börnin fóru á sérbraut fyrst og síðan fóru unglingar og fullorðnir saman í „race“. Hér voru á ferðinni keppnis ökumenn, það var snúist í hringi, keyrt í gegnum veggi og brjálað fjör! Maðurinn sagði við mig þegar hópurinn var að keyra inn í hús eftir hringina, „Crazy family“ svo eitthvað hefur nú gengið á, hahaha! Allir voru sammála um að þetta hefði verið góð skemmtun og við fjölskyldan rétt náðum á hlaðborðið á hótelinu okkar fyrir lokun og svo var farið inn á herbergi að pakka niður.

Crazy family in Go Kart!

Parque Cristobal hotel Kanarí

Yndisleg vika að baki sem leið allt of hratt!

Við þurfum klárlega að koma aftur á eyjuna fögru til að skoða meira og prófa fleira skemmtilegt! Við vorum líka öll sammála um það að ein vika er heldur stutt fyrir stórfjölskyldu eins og okkur sem elskar að skoða og flækjast um! Mælum því með að stoppa lengur ef þið getið!

Parque Cristobal hótel á Kanarí

Smá leigubílatips í lokin….

Leigubílar eru ódýrir á Gran Canaria svo við fórum nánast allt í slíkum. Hótelið hringdi á bíl og hann var yfirleitt kominn á næstu mínútum. Við lentum hins vegar í því að stundum var erfitt að fá bíl tilbaka (frá Palamitos Park, Gran Karting Club o.fl) svo ég mæli með að þið fáið símanúmer hjá leigubílstjórum sem ykkur líst vel á og hringið í þá beint þegar ykkur vantar bíl, helst með smá fyrirvara.

„Viltu heldur moka sandi en snjó“?

Base parking bílastæði við Keflavíkurflugvöll

Við pöntuðum annars þrif og geymslu fyrir bílinn á meðan við vorum úti og almáttugur hvað það var frábært að fá hreinan bíl afhentan beint fyrir utan flugstöðina við heimkomu!
Við pöntuðum hjá Base Parking og þeir bjóða upp á frábæra þjónustu og gott verð. Við hringdum í þá þegar við vorum að koma út úr Hafnarfirði á leiðinni út á völl og þeir biðu og tóku við bílnum þegar við renndum í hlað og rúlluðum inn með töskurnar í innritun. Síðan hringdi ég þegar við lentum og það beið frá þeim aðili með lyklana við útganginn hjá Tollinum…..og hreinan bíl! Almáttugur hvað ég er ALLTAF að fara að panta þessa þjónustu í framtíðinni, þvílíkur lúxus.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun