Húsmæðraorlof í Eyjum



Vestmannaeyjar

Já krakkar mínir, hér kemur enn eitt húsmæðraorlofið! Þetta eru einfaldlega of mikilvæg frí til þess að deila þessum sögum ekki með ykkur og vonandi veita þær öðrum húsmæðrum, nú eða húsfeðrum innblástur og gefi góðar hugmyndir!

Vestmannaeyjar eru alls ekki svo langt í burtu, þangað þarf bara að keyra í um 1 klukkustund og 45 mínútur og sitja um borð í ferju í góðan hálftíma, búmm og þú ert kominn á eyjuna fögru! Við vorum meira að segja svo snemma í því að við ákváðum að ganga upp að Seljalandsfossi og bakvið hann áður en við myndum rúlla niður í Landeyjarhöfn.

Seljalandsfoss

Alltaf er hann fallegur, sama hversu oft maður kemur!

Seljalandsfoss

Það hefði mögulega verið gáfulegt að grípa með sér regnkápu til að forða nýsléttuðu hárinu frá sturtunni en klárlega þess virði hvort sem maður er með slíka eða ekki! Þórunn vinkona hafði útbúið litla nestispoka með sætum bitum fyrir ferðalagið og auðvitað var líka hugsað um bílstjórann! Á meðan sumir fengu freyðivín fengu aðrir Töst!

Herjólfur

Það var dásamlegt veður þennan dag og ekki hægt að kvarta yfir Herjólfsferðinni þó að sjálfsögðu blási alltaf aðeins úti á dekki eins og sjá má, hahaha! Lukka vinkona sagði það væri möst að fá sér Herjólfsfranskar svo auðvitað gerðum við það og ég er ekki frá því að þetta verði venjan héðan í frá.

Accommodation in Westman Islands Iceland

Gisting í Vestmannaeyjum

Við bókuðum okkur undurfallegt hús við sjóinn hjá Westman Islands Villas & Apartments þar sem við viljum yfirleitt frekar vera í bústað/húsi heldur en á hóteli því það er svo kósý að geta eldað og spjallað saman í slíkum aðstæðum.

Húsið fór langt fram úr okkar væntingum, allt svo nýtt, fínt og huggulegt.

Vestmannaeyjar

Að horfa yfir götuna á þetta guðdómlega útsýni er síðan eitthvað sem seint er hægt að fá leið af, veit ekki hversu oft við bara stóðum þarna og nutum þess að horfa út um gluggann.

Gisting í Vestmannaeyjum

Það er sannarlega allt til alls í húsinu og eftir ævintýralega daga var gott að geta tekið því rólega í stofunni og horfðum við á nokkrar bíómyndir á Netflix og höfðum það kósý. Heiti potturinn setti síðan punktinn yfir I-ið þegar okkur langaði að slaka aðeins á og síðan vorum við ansi heppnar með veður þessa helgi svo hægt var að sitja úti á verönd og hafa það huggulegt.

Westman Island Luxury Lodges

Húsið er með þremur svefnherbergjum og síðan er auka gestahús við heita pottinn svo hingað er tilvalið að koma með stórfjölskylduna eða vinahópinn. Það er ekki annað hægt en að mæla með þessari frábæru gistingu, hún er alveg við sjóinn og í göngufæri við Herjólfsdal.
Bóka gistingu hér!

Lundar í Vestmannaeyjum

Afþreying í Vestmannaeyjum

Fyrsta kvöldið eftir að við komum okkur fyrir í húsinu fórum við og fengum okkur pizzu á Pítsugerðinni og tókum rúnt um eyjuna. Það var undurfallegt veður þetta kvöld og horfðum við á sólsetrið við Stórhöfða sem var algjörlega magnað. Þar gengum við líka aðeins um og skoðuðum lundana en það er betra að fara varlega áður en farið er út á grasbrúnir til að skoða lunda líkt og við gerðum. Þarna hafa orðið slys á fólki og betra að halda fjarlægð.

Vestmannaeyjar to do listi

Næsta dag vorum við síðan varla vaknaðar þegar upp kom hugmynd um að skella okkur á fjórhjól og að það væri laust í hádeginu! Við stukkum því til og vorum komnar á hjólin stuttu síðar!

Mömmufrí

Við fórum í eldfjallaferð með Volcano ATV og var virkilega gaman að stoppa og fræðast um ýmislegt sem gosinu tengist og fleira (pssssst…..við nýttum okkur 2/1 tilboð hjá NOVA sem er í gangi eins og er svo ég mæli með að tékka á því áður en þið bókið ferð).

Að bruna um á fjórhjólum í þessu stórbrotna umhverfi var bara alls ekkert leiðinlegt get ég sagt ykkur, hahaha! Eftir fjórhjól skelltum við okkur í hádegismat á Tangann og fengum okkur Crépes og drykki. Síðan lá leiðin heim í hús í heita pottinn, slökun og síðdegissnittur á pallinum!

Heimaklettur

Eftir heitan pott og huggulegheit tókum við okkur til og fórum út að borða á Einsa kalda veitingastað. Þangað hef ég áður komið og mun klárlega koma aftur!

Einsi kaldi veitingastaður í Vestmannaeyjum

Allt sem við fengum okkur, hvort sem það voru drykkir eða matur var undursamlegt! Sérstakt bragð af hverjum rétti og greinilegt að eldmóður og metnaður er settur í matargerðina á þessum frábæra veitingastað.

Túnfiskur í Vestmannaeyjum

Hægt er að lesa sérstaka umfjöllun um Einsa kalda í annarri færslu hér á síðunni! Eftir að hafa notið þessara dásamlegu veitinga var að nýju komið að sólsetri. Við ákváðum þetta kvöldið að rúnta á Skansinn en þar er virkilega fallegt að ganga um og virða fyrir sér Heimaklett.

Gisting í Vestmannaeyjum

Það þarf svo alltaf að muna eftir því að hafa gaman og flippa pínu líka!

Vestmannaeyjar

Næsta dag byrjuðum við daginn á gönguferð inn í Herjólfsdal og planið var að ganga „Eggjarnar“ sem er gönguleið yfir dalnum. Við gengum upp vinstra megin þar sem búið er að setja upp góða stíga og tröppur nánast alla leið. Þegar upp er komið er síðan hægt að ganga grannan stíg ofarlega í hlíðinni og alla leið yfir og koma niður hægra megin í Dalnum eða fara aðeins lengra yfir og koma niður hjá Spröngunni.

Fjallgöngur í Vestmannaeyjum

Til að gera langa sögu stutta þá enduðum við á að snúa við á miðri leið sökum lofthræðslu, hahaha! Líklega hefðum við eins getað farið áfram eins og aftur tilbaka en þegar okkur var farið að svima ákváðum við að segja þetta gott! Hugsa næst að ég gangi upp bratta stíginn hægra megin í dalnum og yfir að Spröngunni, sleppi „Eggjunum“!

Gott veitingastaður

Eftir gönguferð höfðum við okkur síðan til og fórum í „bæinn“. Byrjuðum á því að fá okkur síðbúinn hádegismat á Gott og það var sannarlega gott, gott, gott!

Gott veitingastaður í Vestmannaeyjum

Síðan röltum við um bæinn og fórum í búðir. Það eru fjölmargar skemmtilegar búðir í Vestmannaeyjum eins og Salka Verslun og Litla Skvísubúðin með fatnað, Póley gjafavöruverslun og svo fengum við ábendingu frá Dadda vini mínum á leiðinni í Herjólfi um að kíkja í Kubuneh sem selur notuð föt. Þar fundum við eitt og annað og mæli ég með að allir kíki í heimsókn þangað. Það er gaman að segja frá því að Kubuneh er nafn á þorpi í Gambíu og öll sala á varningi rennur til, hversu dásamlegt framtak!

Humar eldaður heima

Þetta síðdegi vorum við aftur úti á palli með búbblur og osta og kíktum í heita pottinn, ahhhhh! Um kvöldið útbjuggum við síðan humarveislu þar sem við borðuðum klárlega allt of mikið, hahaha!

Grillaður humar með hvítlauksbraði

Í svona fríum finnst mér mjög mikilvægt að hafa nóg af góðum mat í bland við skemmtilega afþreyingu, þá er allt svo miklu skemmtilegra.

Aldingróður sprettur

Eftir mat þetta föstudagskvöld bauðst okkur síðan að kíkja í heimsókn til Einars í Aldingróðri, sem er gróðurhús og framleiðir sprettur. Það var virkilega gaman og áhugavert að fá að smakka og fræðast um þessar undurfallegu sprettur sem hann leggur hjarta sitt í að framleiða fyrir veitingastaði á Suðurlandi. Ég veit ekki með ykkur en ég væri alveg til í að hafa svona sprettubox við hendina þegar ég er að útbúa mat!

Sprangan í Vestmannaeyjum

Það er síðan alveg bannað að fara til Eyja án þess að spreyta sig aðeins á Spröngunni svo við komum við þar á leiðinni í Herjólf næsta morgun! Ég þarf mögulega smá kennslu á þessri íþrótt en ekki spyrja mig hvernig fólk fer þarna lengst upp í rjáfur og svífur yfir hinumegin, hahaha!

Eftir Sprönguna fórum við aftur í Herjólf með hádegisbátnum og fengum okkur hádegismat á Selfossi í Mjólkurbúinu á leiðinni í bæinn. Ef við hefðum ekki verið á leið í útskriftarveislur þetta síðdegi hefðum við án efa stoppað aðeins lengur í eyjunni fögru og komið síðar heim.

Svona skemmtilegar færslur enda síðan oft í fjölmiðlum og hér má lesa um ferðina á matarvef MBL.

Vestmannaeyjar

Takk fyrir okkur Vestmannaeyjar!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun