Við elskum einfalt, hollt og gott! Nú er hægt að fá heilan marineraðan kjúkling frá Ali matvörum sem auðveldar kjúkling í potti enn frekar! Það þarf því aðeins að skera niður grænmetið, skella kjúllanum ofan á og inn í ofn, búmm!

Það kemur mikið og gott soð í botninn á pottinum og vel hægt að nota það algjörlega í stað sósu en ég lauma engu að síður með hingað einfaldri kjúklingasósu fyrir þá sem kjósa það heldur.
Mmm…..

Marineraður kjúklingur í potti
Fyrir 3-4 manns
Kjúklingur í potti uppskrift
- 1 stk. marineraður heill kjúklingur frá Ali
- Um 300 g litlar kartöflur/stærri skornar til helminga
- Um 450 g sætkaröflur í sneiðum
- 1 ½ rauðlaukur í sneiðum
- Um 200 g rósakál
- 3 heilir hvítlaukar
- ½ sítróna
- Kjúklingasósa (sjá uppskrift að neðan)
- Ólífuolía
- 2 msk. hvítlauksblanda (krydd)
- Hitið ofninn í 180°C.
- Setjið allt grænmetið í steikarpott, hellið ólífuolíu og hvítlauksblöndu yfir og blandið saman.
- Búið til smá pláss í miðjunni fyrir kjúklinginn, leggið hann þar ofan í og eldið með lokið á í 75 mínútur, takið lokið þá af og eldið í 15 mínútur í viðbót.
- Gott soð myndast í botninum á pottinum sem hægt er að nota í stað sósu en ef þið kjósið brúna kjúklingasósu í staðinn má útbúa hana á meðan kjúklingurinn eldast.

Kjúklingasósa uppskrift
- 250 ml rjómi
- 150 ml vatn
- 2 msk. kjúklingakraftur
- 1 msk. púðursykur
- 1 tsk. soyasósa
- Salt og pipar eftir smekk
- Sósulitur (má sleppa)
- Maizenamjöl (2-3 msk)
- Setjið allt nema sósulit og maizenamjöl saman í pott, náið upp suðunni og leyfið síðan að malla í um 10 mínútur.
- Kryddið til með salti og pipar og þykkið eftir smekk með maizenamjöli.

Grænmetið verður allt svo djúsí og bragðgott og við vorum öll sammála um að við þurfum að vera duglegri við að gera þennan rétt!
